Að láta sér ekki leiðast.

Já það er óþarfi að láta sér leiðast, því það er alltaf hægt að finna sér eitthvað skemmtilegt til að gera, ef maður bara nennir að hafa sig eftir því.  Það þarf ekki alltaf að vera neitt merkilegt eða kosta mikið. Oft er bara ágæt tilbreyting að skreppa t.d. í Kolaportið.  Þetta gerum við alltaf öðru hvoru um helgar því í Kolaportinu fást  nefnilega bestu flatkökurnar, sem koma alveg nýbakaðar frá Selfossi, að ógleymdu rúgbrauðinu. Á næsta bás við HP baksturinn, fást svo góðu rauðu kartöflurnar. Svo er bara svo skemmtilegt að kíkja á mannlífið þarna, en það er bæði fjölþjóðlegt og fjölbreytt.

Þarna má sjá allt frá pelsklæddum flottum hefðarfrúm til farandsöngvara eða spilara sem oft sitja á gólfinu í anddyrinu og flytja list sína í von um að fá kastað til sín nokkrum krónum frá þeim sem framhjá ganga. Það væri gaman að vita hvað maður sér fólk frá mörgum þjóðlöndum þarna í Kolaportinu því þar heyrast hin undarlegustu tungumál.  Mér finnst alveg ómissandi að fara í þessi flatkökukaup í Kolaportinu reglulega á laugardegi eða sunnudegi og skreppa svo á kaffihús á eftir.

Þegar við skruppum í smá bíltúr á laugardaginn þá varð Kolaportið hinsvegar ekki fyrir valinu heldur datt okkur í hug að skoða Sjóminjasafnið Víkina sem er úti á Grandagarði. Við mælum með því að skoða þetta safn sem er mjög skemmtilega uppsett og gjörólíkt öðrum sjóminjasöfnum sem við höfum séð.

Annars er nú alltaf nóg að gera hjá okkur því á stuttum tíma höfum við farið í tvö afmæli, skírn og í kaffiboð. það þarf því ekki að sitja heima með sút og láta sér leiðast. Bara drífa sig af stað og gera eitthvað skemmtilegt.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Að láta sér ekki leiðast.

  1. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Sæl og Blessuð Ragna og takk fyrir síðast, gaman að rekast á þig í Nettó.
    Mig langaði nú bara að segja þér að það eru fleiri sem dýrka flatkökurnar frá Selfossi. við Þórður förum alltaf annað slagið í Kolaprtið til að kaupa okkur kökur og kíkjum á mannflóruna í leiðinni. Það er viss stemming á kíkja þarna við. Hafðu það sem allra best.

    Kær kveðja

    Hafdís Baldvinsd.

  2. Katla says:

    Flatkökurnar frá Selfossi eru einfaldlega bestar, ekki flóknara en það!

Skildu eftir svar