Strengjabrúða.

Nú hef ég fengið að prufa það í fjögur skipti að vera í strengjabrúðuhóp.  Eini munurinn á okkur í þessum litla hóp og strengjabrúðunum sem við sjáum stjórnað í brúðuleikhúsunum er sá, að við stjórnum strengjunum sjálfar eftir kúnstarinnar reglum og stjórnandinn fylgist með að allt sé rétt gert.
Þarna liggjum við á dýnum með ólar um ökla og hendur og svo réttum við upp hönd og viti menn þá lyftist fóturinn upp á móti. Þetta er nú allt í lagi á meðan legið er á bakinu, en það er eins gott að flækja sig ekki eins og fluga í vef þegar leikurinn æsist og það á að velta sér á hliðarnar líka. Svona í fyrstu er margt sem þarf að læra að samhæfa og þar skal fyrst nefna öndunina. Það vill nefnilega svo til að það þarf líka að anda eftir kúnstarinnar reglum.
Það vill nú aðeins flækjast fyrir mér þessi öndun sem á að vera í takt við annað og stundum tek ég eftir því að ég einbeiti mér svo svakalega að því að toga nú í réttan spotta og spenna rétta vöðva að ég gleymi bara alveg að anda. En þá bjargar það lífi mínu að öðru hvoru segir stjórnandinn "þið munið svo að anda inn á leiðinni niður og út á leiðinni upp" eða kannski var það alveg öfugt. Þetta gerur orðið ruglingslegt því það er alltaf annar fóturinn á uppleið þegar hinn er á niðurleið. Svo er hugsunin bara svo langt frá því að vera skýr þegar maður hefur ekki andað í langan tíma. En þegar maður svo heyrir þessi dásamlega orð –að anda,  þá grípur maður bara andann á lofti, og það eina sem kemst að þá stundina, er að draga djúpt að sér andann og skiptir þá engu hvor fóturinn er á uppleið og hvor á niðurleið. Síðan kemur smá kafli þar sem maður er að reyna að einbeita sér að því að anda inn á réttum stöðumm og út á réttum stöðum. Síðan fer allt aftur í það að gleyma að anda og svona gengur þetta út tímann. 
Við hlógum nú oft að slíku í vatnsleikfimishópnum mínum á Selfossi. Því það þurfti oft að minna okkur á að anda þegar einbeitingin var sem mest.

Sjúkraþjálfarinn minn er ekkert sérstaklega hrifin af þessari Rope Yoga tilraun minni, en ég ætla ekki að gefa þetta upp á bátinn því ég finn sjálf að þetta styrkir bakið. Svo þarf ég bara að ná að anda á réttum stöðum og þá hætti ég kannski að verða svona stíf í öxlunum og hálsinum.  Ég vildi að ég hefði byrjað í Ropa Yoga þegar ég var svona 40 árum yngri því þá væri ég líklega liðugri í dag.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Strengjabrúða.

  1. Ég gat nú ekki annað en kímt út í annað mín kæra. Hef lengi hugsað um að fara í Rope Yoga, en þetta með böndin þvælist alltaf fyrir mér. Ég er jú ekki mjög fim til fótanna, en öndunina kann ég. Legg til að þú farir í kór! Annars er dásamlegt að horfa á t.d. ungabörn. Þau anda sko rétt og teygja úr sé endalaust. Hvenær misstum við þennan eiginleika og fórum að sanka að okkur vöðvabólgu? Kærust kveðja.

  2. Svanfríður says:

    Stórkostlegt ef þetta hjálpar þér. YOU GO GIRL:)

Skildu eftir svar