Nóg að gera.

Þrátt fyrir fögur fyrirheit verð ég að viðurkenna að ég hef ekki farið út að ganga á hverjum degi þessa viku. Ég fór á mánudaginn og þá var hvílík hálka að ég þóttist góð að koma heim óbrotin. Síðan er búið að vera algjört slagveður og ég sé ekki að maður fái mikið út úr göngutúr í slíku veðri því maður gengur allur í keng. Hinsvegar fór ég bæði á þriðjudaginn og fer aftur í dag í leikfimina í sundlauginni og það er sko fín líkamsrækt. Vonandi fer nú að sljákka í veðrinu svo það verði göngufæri á morgun. það er allt í lagi þó það rigni bara ef rokið er ekki líka.


Guðbjörg var að fara í bæinn um hádegið á fund. Suðurlandsvegurinn var lokaður af því að flutningabíll hafði oltið í hvassviðri svo hún fór Þingvallaleiðina. Hún hringdi áðan þegar hún kom í bæinn og sagði að veðrið á Mosfellsheiðinni væri ógeðslegt. Já þessi vetur ætlar að vera eins leiðinlegur hvað veður og færð snertir og veturinn í fyrra var góður.


Ég var áðan að heilsa upp á nýjan nágranna, en á mánudaginn fæddist ný prinsessa hérna við hliðina á okkur. Þau eiga aðra fyrir sem er að verða þriggja ára í sumar. Þetta eru einu börnin í raðhúsalengjunni okkar en hinsvegar er kominn hvolpur við hliðina á Eddu og Jóni. Mikið rosalega kitlar það alltaf þegar maður sér þessi fallegu litlu börn. Nú finnst mér svo langt síðan ég hef eignast ömmubarn. Heyrið þið það ástkæru dætur að BARN ÓSKAST.


Ég hef allt í einu fullt af verkefnum sem gaman er að dunda sér við og gott að geta farið úr einu í annað svona til að dreifa álaginu. Ég er að sauma bútasaumsteppi handa Karlottu og var að klára eitt handa Oddi um daginn. Svo er ég búin að fá skipsdagbækurnar hennar systur minnar og er aðeins byrjuð að tölvusetja þær. Ég verð nú að passa mjög uppá að sitja ekki of lengi við það því gamalkunni vinnuverkurinn í hálsinum gerir fljótt vart við sig ef ég sit of lengi. það er bara svo erfitt að hætta þegar eitthvað er svona skemmtilegt. Svo er ég líka búin að fá annað til að dunda mér við í tölvunni, en það er að færa uppskriftirnar mínar af ritvinnslunni yfir á heimasíðuna mína. Mig vantaði alltaf smá hlekk til þess að geta fært þetta inn en nú er Jói minn búinn að redda mér svo nú smá laga ég þetta til og færi inn á uppskriftirnar sem staðið hafa auðar frá upphafi. Ég hef nú talsvert fengið að heyra það 🙁


Nú er tímabært að fara að finna til sundbolinn og drífa sig í laugina. Það er alltaf gott að fara aðeins í heita pottinn fyrst og fá hita í kroppinn og hlusta aðeins á bæjarslúðrið. Alveg ótrúlegt hve miklu fréttaefni (misábyggilegu þó) er miðlað í heitu pottunum.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Nóg að gera.

  1. Sigurrós says:

    Það er naumast!
    Það eru aldeilis kröfur á mann núna! 😉

  2. Jói says:


    Hvurslags er þetta eiginlega!

    Amman verður bara að fá sér baby-born dúkku einu sinni á ári næstu tvö eða svo!

Skildu eftir svar