Næturgesturinn.

Það er alltaf gaman að fá gesti og enn skemmtilegra er að fá næturgesti. Við fengum einn slíkan sem var hjá okkur síðasta sólarhringinn og höfðum mikið gaman af.  Hann var nú ekki hár í loftinu þessi næturgestur og var því svo forsjáll að koma með sitt eigið rúm til þess að vera ekki settur í allt of stórt rúm. Svo tíndist nú ýmislegt fleira upp úr farteski hans þegar leitað var að náttfötunum, eins og t.d. bleyja til að hafa yfir nóttina, snuð, lítill bangsi, nokkrar bækur og nokkrar flíkur til að fara í hreinar að morgni. 

Foreldrar litla snúðs höfðu áhyggjur af því að hann myndi halda vöku fyrir ömmu og afa og verða óþekkur að fara að sofa. Við vorum þess vegna  farin að halda að við hefðum fengið allt annað barn í gistingu heldur en barnið sem upphaflega átti að vera hér.  Barnið sem hér bjó sig undir nóttina fór nefnilega orðalaust í rúmið, eftir að hafa burstað tennurnar og fengið að kúra með afa í Lazyboy á meðan Spaugstofan var.

Amma fór bara með hann inn í rúm og sagði honum að hún ætlaði að ganga frá á baðinu og koma svo aftur til hans. Amma stóð við það og var bara augnablik að setja tannburstan inn í skáp og þurrka af borðinu.  Þegar hún leit svo aftur inn í gestaherbergið þá var gesturinn steinsofnaður og svaf vært til morguns.

Þetta er bara í annað sinn sem sá litli gistir í ömmuhúsi . Hitt skiptið var hann svo lítill, en nú er hann að verða stór strákur sem verður  þriggja ára þann 26. marz.  Nú vill amma að næturgesturinn komi oftar og láti ekki líða svona langt á milli.

Það kemur alltaf eitthvað skemmtilegt upp þegar svona gestir eru í heimsókn. Þegar sá litli var nýkomin til okkar og sá litlu ferðatöskuna sem amma ætlar með í Hveragerði, þá skoðaði hann töskuna vel og sagði svo "Amma, er líka svona harmonika í þinni tösku eins og töskunni hans afa"?

Ragnar Fannberg – Takk fyrir samveruna og komdu fljótt aftur með litla ferðarúmið þitt til að gista í Fensölunum.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Næturgesturinn.

  1. Hildur says:

    Það er alltaf svo gaman að fá næturgesta-heimsókn af barnabörnunum, fyrir viku síðan var ákveðið að sú minnsta hún Björk mín fengi að gista hjá afa og ömmu, en svo fréttist þetta í önnur hús og endaði með að tvö bættust við svo það var mikið fjör hér á bæ. Á ekkert að fá sér göngutúr yfir landamærin áður en haldið er austur fyrir fjall ? Kær kveðja

  2. Hildur says:

    Frábært þetta með harmonikuna

  3. Ragna. says:

    Takk Hildur mín. Ég er alveg upptekin á morgun en ég hef símasamband ef ég kemst á miðvikudaginn. Er búin að fara í eina könnunarferð svo ég rata.

  4. Svanfríður says:

    Ég skal trúa því að þetta hafi verið skemmtilegur næturgestur. Ég hló líka upphátt þegar spurt var um harmonikkuna-ég meina, það gat alveg verið:)
    Ljúfar stundir.

  5. afi says:

    Foreldraáhyggjur
    Börnin eru alltaf svo þæg og góð, þegar þau gista í ömmubæjum. Skil bara ekkert í þessum sífelldu foreldraáhyggjum. Góða ferð austur.

Skildu eftir svar