Komið að því.

Þá hefur enn ein vikan flogið hjá og nú eru búin þrjú af þeim fjórum afmælum sem eru í fjölskyldunni í marz. Guðbjörg mín átti afmæli í dag og þá er bara hann nafni minn eftir í næstu viku, en þá verður amma komin á fullt í að yngja sig upp í Hveragerði. 

Á þriðjudaginn var ég með Sigurrós og Rögnu Björk,  en hún nafna mín litla þurfti að fara í fyrstu lýtaaðgerðina sína – og vonandi þá síðustu.  Já, nú byrjar kvenfólkið snemma að fara í lýtaaðgerðir – ekki ráð nema í tíma sé tekið að byrja tveggja ára.  Hún var með naflaslit sem talið var að myndi lagast af sjálfu sér fyrir tveggja ára aldur annars þyrfti að laga það.  Læknirinn vildi laga þetta svo það var best að drífa það af.

Þær mæðgur komu hérna um morguninn og við byrjuðum á því að fara saman á bókasafnið. Sú litla átti nefnilega að vera fastandi fram að aðgerð svo það var best að vera þar sem ekki var neinn ísskápur eða skúffa sem sú litla vissi að væri með kexi eða öðru góðgæti í. Hún tók þessu bara með jafnaðargeði og við mættum svo upp á aðgerðarstofu klukkan eitt til að vera í fyrra lagi, en hún átti að koma tuttugu mínútur yfir.  það kom svo í ljós að biðin varð lengri og hún fór inn um hálf þrjú. Alveg dáðist ég að því að hún skyldi ekkert biðja um mat, en við mamma hennar vorum alveg að deyja úr hungri, þrátt fyrir að hafa gleypt í okkur sitt hvora pulsuna sem við keyptum í bílalúgu og átum með hraði á meðan nafna mín sofnaði augnablik í bílnum á leiðinni frá bókasafninu. 

Aðgerðin gekk síðan mjög vel, en við Sigurrós urðum hálf fúlar yfir eftirmeðferðinni. Við vorum kallaðar inn strax og litla snúllan var komin á vöknun og hún svaf mjög vært, hraut meira að segja smá. Læknirinn kom aðeins til að sjá hvort ekki væri allt í fínu lagi og sagði að það væri svo gott þegar þau gætu sofið vel úr sér svæfinguna.  Eftir augnablik kom svo ein af hjúkrunarfólkinu sem var að aðstoða þarna á vöknuninni þar sem margir voru að vakna upp eftir svæfingar. Hún sagi: "Oh gleymdist að setja á hana súrefnismælinn".  Hún rauk því næst að leiðslu með klemmu á endanum,  tók í hendina á Rögnu Björk og tróð klemmunni upp á fingurinn á henni. Sú litla vaknaði svo illa upp og var bara ekki með sjálfri sér, grét og slóst um á hæl og hnakka og auðvitað datt klemman strax af aftur í látunum.  Ég fór til hjúkkunnar og sagði að það hefði strax dottið af fingrinum á henni þessi klemma  "Já,já, það er allt í lagi fyrst hún er farin að hreyfa sig svona vel"   svo bætti hún við   " Já þau vakna sum svona illa upp eftir svæfinguna,  en önnur eru svo róleg og góð, þetta er svo misjafnt". Mig langaði svo til að segja að hún væri örugglega enn sofandi ef hún hefði ekki vakið hana með þessari ónauðsynlegu klemmu og hún væri rólegasta barn sem ég þekkti,  en ég beit bara í vörina og sagði ekkert.   
Við vorum bara hræddastar um að barnið myndi eyðileggja það sem verið var að gera, því hún teygði sig og sveigði á alla kanta og var bara ekki með sjálfri sér. Þetta stóð yfir í þó nokkuð langan tíma.  Á þessu tímabili kom þessi hjúkka aftur og spurði hvort hún ætti kannski að finna bækur sem hún gæti skoðað.  Ég sagði að mamma hennar væri með allt sem við þyrftum, bæði bækur og annað, en hún væri greinilega ekki að biðja um bók að lesa.  Sigurrós gat svo loksins huggað hana það, að við gátum gefið henni Svala að drekka og hún róaðist aðeins meira við það, síðan gáfum við henni tekex og þetta smá bráði af henni.  Sigurrós hafði svo miklar áhyggjur af hinu fólkinu sem þarna var að reyna að sofa, en þetta var auðvitað ekkert sem var neitt hægt að gera við, úr því sem komið var. Mér fannst að þessi manneskja hefði átt að biðja okkur fyrirgefningar á því að hafa vakið barnið svona beint eftir svæfinguna, fyrst það var hvort sem er alveg ónauðsyllegt að vesenast með þessa klemmu.   En nóg um það. Vonandi verður mín fljót að ná sér alveg og naflinn sá flottasti sem sést hefur.

Nú styttist svakalega í Hveragerðisferðina. Bara morgundagurinn með þrefaldri afmælisveislu hjá Guðbjörgu og svo legg ég bara í hann um hádegi á sunnudaginn. Það er verið að spá snjókomu en vonandi verður það lítið því ég ætla á bílnum austur  svo ég geti t.d. skroppið á Selfoss.  Ég ætla sem minnst að koma í bæinn en nýta tímann sem ég hef á staðnum eins vel og ég get. Kannski breytist það nú þegar líður á tímann og svo eru páskarnir þarna inní. Ég held ég eigi að fá eitthvað prógram fyrir skírdag og annan í páskum, en kem kannski heim á laugardeginum og verð heima á páskadag.

Ég fer með tölvuna með mér í þeirri von að það sé nettenging á staðnum og hver veit nema ég setji eitthvað hér inn. Byrji  bara eins og Skrámur í bréfinu til jólasveinsins á   "Dagur eitt……

Ég bið ykkur öll vel að lifa – það ætla ég alla vega að gera sjálf. Svo sjáum við bara til hvernig framhaldið verður þessar fjórar vikur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Komið að því.

  1. Anna Bj. says:

    Góða ferð í Hveragerði og óska þér góðs árangurs þar í meðferðinni!!

    Vona að litla ömmustelpan þín hafi það fínt og sé alveg búin að jafna sig. B.k.
    Anna Bj.

  2. Ragna says:

    Takk Anna min. Hún nafna mín virðist alveg orðin spræk, það var alla vega ekki hægt að merkja annað þegar ég hitti hana í afmælii í dag.
    Já nú er komið að HNLFÍ. Ég hugsa nú til ykkar í saumónum eftir helgina. Bið bara að heilsa öllum.

  3. Guðbjörg says:

    Gangi þér vel í Hveragerði mamma mín. Keyrðu varlega í dag.

  4. þórunn says:

    Vonandi hefur ferðin gengið vel hjá þér, og þú sloppið við þennan éljagang sem var talað um. Það er ekki gaman að vera ein á ferð í þannig veðri.
    Eigðu góða og árangursríka daga í Hveragerði, kveðja frá okkur í Austurkoti

Skildu eftir svar