Kæra dagbók – Dagur eitt.

Jæja þá erum við komin í nýtt umhverfi tölvan mín og ég og báðar fullar áhuga að taka nú vel á því og vera duglegar.

Það var komið ágætisveður um hádegið þegar ég ók úr Kópavoginum beint í Sæluríkið í Hveragerði. Mér hefði ekki litist á að fara akandi í gær í ófærðinni en eins og við vitum sem á Íslandi búum, þá er fljótt að skipast veður í lofti.

Það var tekið á móti mér hérna eins og á 5 stjörnu hóteli og dótið mitt sótt út í bíl og farið með inn í herbergi. Ég er með mjög vistlegt og fallegt herbergi með trjálundi fyrir utan gluggann og sér í fjarska í umferðina um Suðurlandsveginn.  Það er reyndar ekkert netsamband í herberginu en þá notar maður bara aðrar aðferðir og semur í Word inni á herbergi og fer svo á þann stað í húsinu sem hefur netsamband og smellir textanum inn á réttan stað.

 

Ég fór beint í viðtal við hjúkrunarfræðing þegar ég kom  og í fyrramálið hitti ég doktorinn sem er reyndar þýskur, en vonandi náum við einhverju sambandi – reyndar held ég að hann tali nú íslensku a.m.k. að mestu leyti. Í hádeginu fæ ég svo meðferðarskrána og þá fara sko hjólin að snúast fyrir alvöru.
Ég er búin að taka upp úr töskunum og koma öllu vel fyrir svo nú dúllast ég bara hérna í fína herberginu mínu fram að næsta matmálstíma.

 

Ég hef ekki rekist á neina sem komið hafa í dag svo ég settist bara við autt borð í matsalnum og fékk með bruður og eplaköku í kaffitímanum. Eplakakan er svona sunnudagsdæmi, annars eru það bara bruðurnar og jú, hrökkbrauð líka.  Það er nú bara gott og blessað.

 

Ég tók eftir því í matsalnum að þessir heimavönu voru að gjóa augunum til mín þar sem ég sat ein við borð og auðvitað var pískrað.  Ég kippti mér ekkert upp við það því ég þekki þetta frá fyrri tíma þegar ég var hér og veit að það er mikið spáð í þá sem koma nýir.  Vonandi á ég svo eftir að rekast á einhverja til að sitja til borðs með.

 

                                                             ———————-

Jæja ég dreif mig í skoðunarferðina um staðinn seinni partinn og sá að það er búið að breyta miklu frá því ég kom hér síðast.  Við vorum nokkur sem komum í dag – allt geðugasta fólk og ég sat ekki lengur ein við borðið í matsalnum í kvöld því ég hitti á svo fína konu sem ég vonast til að geta haft sem sessunaut.  Það er alla vega fyrsta skrefið.

 

Nú bíð ég eftir kvöldhressingu sem er klukkan hálf níu og auðvitað sleppir maður ekki hressingu svo ég ætla að fara fram í það, en svo ætla ég bara að kósa mig hérna í herberginu, horfa á Sommer og fara svo að kúra.
Á morgun verður  spennandi að sjá hver framvindan verður.

 

Góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Kæra dagbók – Dagur eitt.

  1. Sigurrós says:

    Fínt að heyra að herbergið sé fínt og það sé m.a.s. kominn borðfélagi 🙂
    Hlakka til að lesa fleiri fréttir úr blómabænum!

  2. Guðbjörg says:

    Huggulegt
    Gott að heyra að þetta lítur allt vel út og herbergið er fínt. Ef ég þekki þig rétt verður þú komin með nokkrar góðar kellur í kringum þig áður en langt um líður. Þetta á eftir að vera skemmtilegt og hressandi hjá þér.
    Kveðja úr Kópavoginum
    Guðbjörg

  3. þórunn says:

    Það er gott að heyra að veðrið lék við þig á leiðinni, ég óttaðist að þú lentir í óveðri. Þetta hljómar allt svo spennandi, virkar eins og að vera að byrja í heimavistarskóla. Þetta verður örugglega hin besta vist, ég bíð spennt eftir næstu fréttum.
    Þórunn

  4. Ragna says:

    Takk fyrir kveðjurnar.Það er engin hætta á því Guðbjörg mín að ég noti mér ekki það sem boðið er uppá.
    Kær kveðja,

  5. Katla says:

    Við Pétur fórum á árshátíð Vegagerðarinnar á Selfossi á laugardeginum, rigndi allhraustlega á leiðinni, en það var ekki fyrr en deginum eftir sem við fréttum hvernig veðrið hefði látið síðar um kvöldið. Svo á leiðinni heim þetta fína veður. Mér finnst nú bara gaman að þessum sviptingum í veðrinu okkar, en mér varð einmitt hugsað til þín þarna á sunnudeginum þar sem ég vissi þú yrðir á ferðinni á sömu slóðum. Góðar kveðjur til þín og gangi þér vel!

Skildu eftir svar