Dagur tvö.

Mætti í morgunmat og borðaði minn hafragraut. Ég sá að þeir sem voru á undan mér voru veraldarvanir hér og gengu á röð af krúsum og stráðu hörfræjum, sólblómafræjum, hveitiklíði og fleiru út á grautinn sinn. Ég gerði því það sama og viti menn þetta var bara alveg stórfínt.

Svo hitti ég doktorinn. Ég var hissa á því þegar hann spurði mig hvort ég ætlaði að velja sjúkraþjálfun eða sjúkranudd.  Ég sagði auðvitað kokhraust að tilgangurinn væri að fá bæði. “Nei, þú verður að velja annað hvort”  Það tók mig nokkurn tíma að ákveða að taka þá sjúkraþjálfunina því án hennar get ég ekki verið. Læknirinn minn heima sagði einmitt að það yrði svo gott fyrir mig að fá þetta hvorttveggja því það spilaði svo vel saman. En ég ætla nú ekki að dæma þetta fyrirfram því ef ég er heppin með sjúkraþjálfara þá verður þetta örugglega fínt ásamt nálum og heilsuböðum.

 

Síðan var nú ekki meira á dagskrá þennan morguninn því ég fékk ekki stundaskrána fyrr en í hádeginu. Ég fór inn í herbergi og var svo syfjuð að mig langaði helst að skríða upp í rúm en eftir að ég var búin að taka sjálfa mig á eintal og skýra út af hverju ég væri komin hingað, þá ákvað ég að drífa mig í göngutúrinn sem ég vissi að væri hér alla daga klukkan ellefu. Þar gekk ég með skemmtilegri fullorðinni konu sem hefur lengi unnið hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði.

Eftir göngutúrinn fór ég aftur í sturtu og síðan í matsalinn. Hvernig fannst mér maturinn í dag?  – Alltaf í boltanum! –  Grænmetisbarinn er svakalega fínn og súpan var góð, hinu þarf að venjast. Þegar ég var hér síðast þá var maturinn svo góður að maður varð að passa sig að borða ekki yfir sig. Allt fer þetta nú eftir kokkunum hverju sinni. Ég kommentera aftur um matinn þegar heil vika verður liðin.

 

Um hádegið fékk ég svo stundaskrána sem er þéttskipuð. Eitt varð mér sérstaklega starsýnt á. Klukkan 7:40 á hverjum morgni á ég að fara í kaldar bunur  -ekki hef ég nokkurn minnsta grun um hvernig það gengur fyrir sig.

 

Það er sko ekki allt búið í dag því ég fór í Tai Chi leikfimi  sem ég hlakka til að vera í áfram.

Að lokum var svo fyrirlestur um hamingjuna.  Alveg brtáðskemmtilegt og mikið hlegið.  Sérstaklega var einn góður eldri herramaður á fremsta bekk sem var oft fljótur að  svara þegar fyrirlesarinn spurði – eins og t.d. þegar hún spurði “ Hvað gerir mann hamingjusaman”.  Það voru búin að koma ýmis svona djúp svör þegar  gall í þeim gamla “ Ætli það sé ekki bara að eiga kellingu sem manni þykir vænt um.”  Svo var spurt hvað fólk gerði þegar það vaknaði á nóttunni. Það var fátt um svör til að byrja með, en svo heyrðist aftur frá þeim sama “Fer bara fram að pissa og svo að sofa aftur” Í bæði skiptin varð auðvitað general hlátur.

 

Jæja nú er að koma kvöldmatur og ég ætla að láta þetta duga í bili en horfa bara aðeins á sjónvarpið og fara snemma að sofa til þess að vakna í kaldar bunur í fyrramálið –  En spennandi.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Dagur tvö.

  1. Sigurrós says:

    Hva, fáránlegt að geta ekki fengið bæði nuddið og þjálfunina! Nógu asskoti mikið borgarðu fyrir þetta… 😉

    Er annars mjög spennt að heyra í þér eftir köldu bunurnar… Er þetta nokkuð eins og pyntingar í fangabúðum…? Vona að þeir fari nú ekki að gera algjörlega út af við þig! 😉

  2. Svanfríður says:

    Ég hef ekki komið við í nokkra daga og heill hellingur hefur gerst! Þú farin og komin-mikið óskaplega vona ég að þessi dvöl eigi eftir að gera þér gott. Ég efast ekki um að þú eigir eftir að kynnast mörgu góðu fólki því þú ert bara þannig og einnig er ég viss um að þú eigir eftir að nýta þér allt sem þér er boðið upp á til hins ýtrasta.
    Gangi þér vel Ragna mín og ég sendi til þín góðar hugsanir.Kveðjur úr Cary,Svanfríður.

Skildu eftir svar