Dagur fjögur.

Ég svaf ekki vel í nótt og kenni rúminu um, en núna er ég búin að fá eggjabakkadýnu ofan á og annan mýkri kodda. Prinsessan á bauninni verður að láta fara vel um sig.  Það hnussaði í fullorðnu starfsstúlkunni sem kom með eggjabakkadýnuna og hún sagði að ég væri nú með dýrustu dýnuna og hún skyldi ekki að það væri ekki nógu gott. Ég tautaði eitthvað um að ég ætlaði bara að prufa þetta og auðvitað hálfskammaðist ég mín fyrir að vera með vesen en eins og þær sögðu frammi á hjúkrun þá er bara sjálfsagt að finna út hvort dýnan er orsökin svo ég vaki ekki fleiri nætur án þess að finna orsökina.   Mér er alveg sama þó að dýnan mín hafi verið extra dýr í innkaukpum hún þarf bara að passa fyrir mig. 

Ég fór með myndavél í köldu bunurnar í morgun  en kunni ekki við að taka mynd af fólkinu en bað konuna sem var næst mér í röðinni að taka mynd af mér og kallinum með slönguna. Hún var sko alveg til í það, en seinna ætlaði ég að fara að sýna myndina, en þá var engin mynd. Hún hefur bara ekki ýtt nógu fast á takkann eða eitthvað svoleiðis, svo myndavélin verður líkilega höfð með líka með á morgun.  

 

Eftir köldu bunurnar náði ég svo að skjótast aðeins í morgunmat áður en ég mætti í tækjasalinn til þess að læra á tækin hjá sjúkraþjálfaranum. Það eru öll tæki glæný og rosalega flott. Þarna hjólaði ég og gekk á göngubrettinu og svo allt  þar á milli.

Síðan var stormað yfir í hinn endann og mætt í Bakæfingarnar. Svo er nú eins gott að enginn sjái bloggið mitt því í staðinn fyrir að fara í göngutúrinn um hádegið, þá fór ég í langþráðan tíma í fótsnyrtingu og líkþornið mitt var lagað eina ferðina enn. Mikið rosalega var það fínt. Ég ætla svo að vona að það fari ekkert lengra, en ég fékk líka ekta lit á augnhár og augabrúnir.  Í Guðs bænum segið engum frá þessu.

Ég var svo ótrúlega lengi í þessari snyrtingu að þegar ég kom í matsalinn klukkan eitt þá var búið að taka allan mat af borðunum. Maturinn er nefnilega bara til 12:45. Ég fékk þó mat því það kom starfsstúlka að mér þar sem ég stóð ráðalaus og svöng að velta því fyrir mér hvar maturinn væri því ég hélt að matartíminn væri til klukkan eitt, og þessi elskulega stúlka fór með mér  inn í eldhús og fann þar handa mér afganga.

Nú kom svona hálftíma hlé, en klukkan tvö þá þurfti ég að rölta alla ganga aftur til að fara í heilsubað – alveg yndislegt jurtabað.  Mér var svo sagt að eftir svona heilsubað þá ætti maður að pakka sér inn og hvíla sig í 20 til 30 mínútur. Já einmitt, með því að hlaupa þá rétt náði ég í Tai chi leikfimina sem byrjaði hálf þrjú. Ég var hinsvegar svo máttlaus eftir baðið að ég fór út í miðjum tíma og náði aðeins að setjast í stól og slappa af fyrir næsta atriði því klukkan 15:30 flutti Þorkell hjartalæknir erindi um hjartasjúkdóma.  Þá var loks ágætishlé með kvöldmat og fréttum í sjónvarpinu áður en kvöldvakan byrjaði klukkan átta. 

 

Kvöldvakan var alveg stórskemmtileg með heimatilbúnu efni, gítarspili og söng.

Ég legg nú ekki meira á ykkur í bili, en segi góða nótt og nú sef ég örugglega vært til morguns.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Dagur fjögur.

  1. Sigurrós says:

    Ef maður fær ekki að vera prinsessan á bauninni og láta dekra við sig á svona heilsubótastað, þá veit ég ekki hvað! 😉 Auðvitað færðu eggjabakkadýnuna ef þú þarft, sé ekki að starfsfólkið eigi eitthvað að vera að leyfa sér að hnussa yfir því þó þú þurfir aukadýnu til að ná góðri heilsu.

  2. Það er ekki hægt að vera á heilsuhæli án góðrar dýnu og snyrtingar. Maður verður jú að hvílast vel og líta sæmilega út. Sofðu nú vel kæra Ragna og ég „hitti“ þig aftur annaðkvöld.

Skildu eftir svar