Smá helgarhugleiðingar í rólegheitunum.

Hvílík ró og hvílíkur friður. Það hafa margir farið heim og eru fáir á ferli þessa fyrstu helgi mína hérna í heilsuparadísinni. Þið takið kannski eftir hugarfarsbrfeytingunni,  en nú er ég hætt að tala um heilsubælið en er orðin svo spræk og jákvæð eftir þessa fyrstu viku að það dugar ekkert minna en að tala um heilsuparadís því eftir því sem ég kynnist betur allri dýrðinni hérna.

Já það er rólegt yfirbragð á öllu í dag og engir á hlaupum að mæta í hitt og þetta. Margir liggja inni á herbergjum að lesa og aðrir sitja í sjónvarpskrókunum og horfa á sjónvarpið. Það er setið við tvö borð hérna í næsta herbergi og spilað og kona situr hérna í næsta sófa og kíkir í Moggann. Þar sem ég sit þá heyri ég daufan óm af lýsingu á íþróttakappleik.  Ég er svolítið í kappi við tímann að nota tölvuna áður en það verður búið á batteríinu í henni því ég get ekki hlaðið hana hérna frammi. 
Ég kíkti aðeins á Facebook áðan og ákvað svo að setja smáfærslu hérna inn.

Guðbjörg og Magnús Már komu í heimsókn ásamt litla nafna mínum og eftir að ég sýndi þeim staðinn og lét þau ganga endanna á milli í húsinu svo þau fengju tilfinningu fyrir þessum hlaupum á milli staða innanhúss sem ég hef verið að tala um, þá fórum við aðeins að skoða í nýju Álnavörubúðina sem er orðin gjörbreytt og nú er enginn síðskeggi við afgreiðslu. Það liggur við að maður sakni gamla staðarins því það var viss sjarmi yfir allri ringulreiðinni sem var þarna áður.
Sama má segja um Eden sem nú heita Iðuvellir og er líka gjörbreytt og selur nú mikið af fallegri hönnunarvöru og handunnum listmunum. Það er þó enn hægt að fá sér kaffi þar og þangað fórum við og fengum okkur kaffi og nema hvað Marenstertu. Það fer að verða viss hefð að ef ég fer úr húsi þá fari ég og borði Marenstertu. En, það er nú nammidagur í dag og þessi tvö skipti sem ég hef brugðið mer af bæ eru einu skiptin sem ég hef ekki borðað bruður og hrökkbrauð í kaffitímanum, fyrir utan það að hér er ekki kaffi á boðstólum nema á svörtum markaði. Ég hef drukkið nákvæmlega fjóra kaffibolla á svarta markaðnum þessa viku sem ég hef verið hér, svona rétt á meðan kaffifráhvarfseinkennin eru að hverfa . Þar sem ég er ekki komin hingað til að vera í einhverju aðhaldi og vil helst halda fötunum upp um mig þegar ég fer heim þá hef ég ekkert samviskubit af þessum tveimur tertusneiðum sem ég hef borðað þessa vikuna.

Nú fer að nálgast matartíma og þá borðum við afganginn af núðlunum sem voru um hádegið og annað hvort skyr með ávöxtum eða við fáum afganginn af sagógrjónagrautnum sem var í dag. Mér fannst ég aftur orðin lítil stelpa heima á Kambsvegi þegar ég fékk sagógrjónagraut.

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili og skokki með tölvuna inn í herbergi fyri8r kvöldmatinn. 

Bless í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Smá helgarhugleiðingar í rólegheitunum.

  1. afi says:

    Helgarró
    Það er gott að heyra að heilsulindin í litlu byggðinni fer vel með þig. Hafðu engar áhyggjur af einni tertusneið. Til þess eru freistingarnar að falla fyrir þeim svona stöku sinnum. Vona að þú eigir góða heimkomu endurnærð á sál og líkama.

  2. Sigurrós says:

    Gott að heyra að þér er farið að líða eitthvað betur, vonandi verður nú bara allt á uppleið!

    Ég hlakka til að koma í heimsókn um næstu helgi og leyfa Rögnu Björk að hlaupa um gangana, sú ætti að fíla vegalengdirnar 🙂

    P.S. Það er nú líka orðið heljarinnar langt síðan ég fékk sagó-súpu, en hana hef ég eingöngu fengið hjá henni ömmu minni á Kambsveginum. Kannski kominn tími til að gera upprifjun? 🙂

  3. Katla says:

    Mánudagur runninn upp og helgarróin búin í bili.
    Hlakka til að lesa fleiri fréttir úr paradísinni.
    Góðar kveðjur frá Kötlu.

  4. Hildur says:

    Mikið er búið að vera gaman að lesa dagbókina þína s.l. viku, þú segir svo skemmtilega frá, svo er líka mjög svo fróðlegt að fá smá sýnishorn af
    „lífinu á heilsuhæli“. Gangi þér vel áfram Ragna mín. Bestu kveðjur

Skildu eftir svar