Áfram líður tíminn hér.

Ég var nú orðin helst til dugleg í líkamsræktinni af því mér leið orðið svo vel og auðvitað var mér refsað fyrir það. Aðallega kenni ég vatnsleikfiminni nú um að ég hafi tekið of mikið á, því ég hafði verið í henni í nokkukur ár meðan ég bjó á Selfossi en hef örugglega miðað við aðstæður núna, verið að taka allt of mikið á. Þetta er svona eins og að vera að spila teningaspil og lenda á reit sem sendir mann aftur á byrjunina.  En ég er komin með gott lyf, Celebra, sem ég fékk með góðum árangri fyrr í vor svo ég fæ örugglega að fara marga reiti áfram þegar það fer að virka. Ég fæ líka auka sjúkraþjálfun í fyrramálið og kínverjinn stakk mig spes í dag svo eftir helgina verð ég aftur búin að vinna þetta upp. Þessi spes stunga hjá kínverjanum  var nokkuð sem ég hef ekki áður fengið í nálastungum.  Hann leitaði uppi taugina sem er í klemmu og hjakkaði með nálinni í og spurði alltaf hvort ég fengi straum niður. Jú mikið vel ég fékk straum alveg niður í tær aftur og aftur.  Svo stakk hann bara niður lærið eins og vant er.  Þetta var alveg magnað og af því þetta var allt annað en þægilegt þá var ég alveg viss um að þetta gerði gagn. Nokkru eftir nálarnar, þá fór ég svo í heilsubað og það er algjört dekur.

 

Ég verð að sjá til hvort ég fer yfirleitt nokkuð í bæinn um páskana, annars ætlaði ég að vera í fermingarveislu á skírdag en ég ætla bara að ákveða hvort ég kemst eða ekki á fimmtudagsmorguninn  Önnur bæjarferð er ekkert komin á dagskrá hjá mér og mjög ólíklegt að ég fari nokkuð heim fyrr en dvölinnii hér er lokið.

 

Af því ég hef ekkert farið í bæinn þá fannst mér nú um helgina að ég þyrfti að þvo aðrar íþróttabuxurnar mínar og einhverja boli. Ekki fannst mér þetta nú nógu mikið til að setja í þvottavél svo ég ákvað að þvo þetta bara í vaskinum hérna á baðinu.  Vaskurinn er svo pínulítill að ég þvoði eitt og eitt í einu. Svo kom vandamálið, að skola þetta almennilega. Ég prufaði fyrst að skola bara buxurnar einar, en það varð engin mynd á því í þessum litla vaski og sullaðist bara út um allt gólf, þá datt mér snjallræði í hug.  Ég átti hérna plastpoka með höldum  og ég hengdi hann sitt hvoru megin yfir blöndunartækin svo þetta hélst vel á stillikrönunum. Nú setti ég buxurnar fyrst í pokann og lét renna úr handsturtunni ofan í pokann og teigði mig svo niður í pokann til að hreyfa þetta vel svo það skolaðist betur.  Ég var alveg rosalega montin yfir því hvað ég væri snjöll –  þangað til —– höldurnar slitnuðu af báðu megin í einu og pokinn með buxunum og fullur af vatni að auki, hlussaðist niður á gólfið í sturtunni og ekki dugði vatninu að gusast þar heldur gusaðist það auðvitað yfir mig og út um allt baðgólf. Fyrstu viðbrögð mín voru auðvitað að hlæja og hlæja yfir þessum óförum en síðan varð ég auðvitað að fara í björgunaraðgerðir og nota annað handklæðið sem ég var nýbúin að fá og þurrka og þurrka.   Það datt sem sé alveg af mér geislabaugurinn sem ég var búin að setja á höfuð mér vegna snilli minnar.  Næst er ég að hugsa um að klæðast þeim fötum sem á að þvo og fara bara í þeim í sturtuna –  Er það ekki bara nokkuð snjallt, ha,ha.

 

Ég upplifði brandara á meðan ég var að skrifa þetta hérna frammi.  Það fór að tala við mig maður, líklega svona nálægt fimmtugu.  Ég ætla nú ekki að skýra allt samtalið en við vorum að tala um skipulagið á höfuðborgarsvæðinu.  Svo nefndi ég eitthvað frá gömlum tíma en þá sagði hann “ þú hefur náttúrulega ekki verið fædd þá”  Jú ég hélt það nú ég væri fædd 1945 og hefði verið verið komin í skóla þegar þetta var. Þá sagðist hann ekki hafa getað ímyndað sér að ég væri fædd fyrir 1960.   Finnst ykkur ekki yndislegt þegar mönnum tekst svona vel til með gullhamrana.  Ég lét það nú vera að spyrja hann hvort hann hefði nokkuð látið athuga hvort hann væri með ský á augunum. Ég leit svo í spegil þegar ég kom inn í herbergi og fann hvergi þessa ungu konu sem var fædd um 1960.

 

Ég legg ekki meira á dagbókina mína í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Áfram líður tíminn hér.

  1. þórunn says:

    Brandarapæja
    Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las um þvottaaðferðina hjá þér, makalaust að svona góðar hugdettur skuli geta farið í vaskinn eða bara alveg út á gólf. Það er nú ekki amalegt fyrir sjálfsmyndina að fá svona gullhamra, þó svo að það bóli ekki á ungu konuna í speglinum þegar maður ætlar að skoða hana. Gangi þér vel Ragna mín, endilega farðu varlega í æfingunum þær munu samt gera gagn. Bestu kveðjur frá Austurkoti

  2. Sigurrós says:

    Einhvern veginn grunar mig að það hefði verið einfaldara að setja bara í þvottavél… 😉

    Skil alveg þennan mann með gullhamrana, þú ert svo ungleg og falleg, elsku mamma mín 🙂 Gömlu brandararnir segja að karlmenn eigi að skoða tengdamömmuna áður en þeir festa sig í sambandinu og ef það er rétt þá held ég að Jói og Magnús þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur 😉

  3. Katla says:

    Sérðu samt ekki örugglega í speglinum hvað það geislar af þér?
    Ég efast ekki um það nái til allra í kringum þig, þó spegilinn nái ekki að endurspegla það.
    Góðar kveðjur.

  4. Guðbjörg says:

    Ung og sæt
    Er ekki dæmigert fyrir þig að finna einhverjar svona sniðugar aðferðir til að bjarga þér, ég held að ég hefði nú samt bara sett í þvottavélina og stillt á vatnssparnaðinn. Ég hef alltaf sagt þér að þú sért svo sæt og ungleg, þú neyðist kannski bara til að fara að trúa þessu : 0 ) Ástarkveðjur frá okkur öllum.

  5. Farðu nú varlega mín kæra, það er svo auðvelt að gera úr sér í léttu vatninu. Þessi maður þarna er bara dásemdin ein, og þú lítur ekki út fyrir að vera fædd á þínum tíma. Hljóta einfaldlega að vera einhver skekkjumörk á ferð. Gleðilega páska.

  6. afi says:

    List
    Margt er mannanna bölið. Það er kúnst að taka mótlætinu með slíkum listrænum hætti og jafnaðargeði sem þú gerir. afi efar að þetta hafi verið ætlaðir gullhamrar hjá manninum. Hann hefur talið sig vissan í sinni sök.

  7. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir innlitið elskurnar mínar.

  8. Svanfríður says:

    Þetta var fallega sagt af manninum og líka sannleikurinn-þú ert hugguleg kona með fallegt bros og góðmennskan skín af þér þannig að maðurinn hefði mín vegna mátt skjóta inn fleiri hrósyrðum:)
    Ég hefði vilja sjá tilfæringarnar með þvottinn..hehehe Þú getur gert eins og einn karakterinn í Seinfeld sjónvarpsseríunni…hann fór í sturtu með fötin sín og grænmetið og þvoði þetta allt sama ásamt sjálfum sér!

Skildu eftir svar