Komin heim.

Já nú er ég komin heim og mikið var gott að sofa í rúminu sínu í nótt .
Það voru ekki amalegar móttökurnar þegar ég kom heim í gær, allt var hreint og strokið og pönnukökuilmurinn barst að vitum mér þegar ég kom inn og það beið mín svo yndislega fallegur blómvöndur, eins og sjá má hérna á myndinni.

kominheim.jpg 

Ég var mjög ánægð með dvölina á þessu heilsuhóteli, þar sem ég kynntist mörgu góðu fólki og fyrstu tvær vikurnar voru alveg frábærar og framförin mikil.  Það fór nú samt fyrir mér eins og fyrir fjallgöngumanni sem er ekki í góðu formi, en er hvattur til þess að klífa hæsta tindinn. Á miðri leið hrasar hann og fellur þannig að tindurinn verður að bíða um sinn á meðan fjallgöngumaðurinn grær sára sinna og getur haldið áfram.

Ég hef líklega verið með allt of stífa dagskrá og fékk að súpa seiðið af því. Brjósklosið tók sig upp að fullu og þrátt fyrir sjúkraþjálfun, nálastungur og heilsuböð þá fór ég heim draghölt með tannpínuverk frá rasskinn og niður í tær. Ég er nokkuð viss um að pjakkið eftir löngu göngunum þarna  hefur ekki verið gott fyrir klemmdu taugina mína og rúmið var heldur ekki að henta mér þrátt fyrir að vera nýtt. Ég svaf í fyrsta skipti í langan tíma í nótt, án þess að vakna upp af verkjum fjórum klukkutímum eftir að ég tók verkjatöflu fyrir svefninn. 
Mér leið vel í rúminu mínu í alla nótt og vonandi nær nú taugin að jafna sig með góðri hvíld í nokkra daga.

Já þetta var nú ekki alveg eins og ég ætlaði mér, en ég læt það ekkert slá mig út af laginu og held ótrauð áfram strax og ég mögulega get.

Ég lærði ýmislegt um stöðu líkamans og hvernig maður á að beita sér, svo nú er ég að gera tilraun til að prjóna og það gengur bara ágætlega. 

Svo var einn daginn fyrirlestur sem ég fór á með hálfum huga. Hann hét Meðvirkni.  Ég ákvað strax og ég sá hvert efnið væri að þetta væri nú ekkert fyrir mig, því það væri enginn alkóhólismi eða annað slíkt í fjölskyldunni. Síðan sá ég að auðvitað gæti það aldrei skaðað að fara og sjá hvað sagt yrði.  Fyrirlesturinn kom mér mjög á óvart og fjallaði ekki á neinn hátt um það sem ég hélt að yrði aðal málið.   Ég hrökk við strax í fyrstu setningunni því mér fannst talað beint til mín og mér fannst meira að segja að fyrirlesarinn hún Bee talaði bara við mig allan tímann.  Hún byrjaði nefnilega á því að tala um hverjir það væru sem fengju vefjagigt. Það er nefnilega fólkið sem er yfir samviskusamt, með fullkomnunaráráttu, biður ekki um hjálp þegar það þarfnast hennar – því hinir eiga að sjá að hjálpar er þörf og fleira og fleira. Svo kom hún inn á ýmsa þætti sem varða börn og uppeldi, sem einnig flokkast undir meðvirkni.

Ég kom því ekki heim og fannst að ég hefði ekkert átt að fara austur í Hveragerði því ég kæmi heim mun verri líkamlega heldur en þegar ég mætti á staðinn,  ég fékk nefnilega mikinn fróðleik og mjög skemmtilegan og góðan félagsskap sem gerði mér mjög gott. Hitt kemur svo bara smám saman aftur. 

Lifið heil
Lífið er dásamlegt – Njótum þess.
 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Komin heim.

  1. Velkomin heim kæra Ragna. Ergilegur endir, og vonandi gengur brjósklosið til baka, allvega í þokkalega líðan. Kærust í bæinn þinn.

  2. Ragna says:

    Heima er best.
    Þakka þér fyrir Guðlaug mín. Mér líður mun betur strax í dag, þegar ég get haft hæfilega hvíld og þarf ekki að ganga daglega einhverja kílómetra til og frá innanhúss.

  3. Stefa says:

    Bjart framundan 🙂
    Sæl elsku Ragna mín,

    það er leitt að heyra að brjósklosið hafi tekið sig upp – en þú vonandi jafnar þig sem fyrst í eigin rúmi og með Hauk sem þína stoð og styttu.

    Mér finnst þú annars líta alveg sérlega vel út á myndinni með fallega blómvendinum og vona að þetta endurspegli hrausta sál í verðandi hraustum líkama 😀

    Hjartans *knús* til þín,
    Stefa

  4. Svanfríður says:

    Velkomin heim Ragna mín-mikið ertu falleg á myndinni:)

  5. þórunn says:

    Heima
    Það hefur ekki verið slæmt að koma heim og finna að þín var sárt saknað, mikið tók hann Haukur vel á móti þér. Vonandi kemur svo batinn áður en langt um líður.
    Bestu kveðjur frá okkur í Austurkoti, Þórunn

Skildu eftir svar