Alltaf má sjá eitthvað fyndið við allt.

Þannig er mál með vexti, að mér er búið að líða bölvanlega út af þessu bakveseni sem hefur hrjáð mig undanfarið. Í morgun vaknaði ég og var hræðilega ómótt eftir mikla verkjanótt og hvíldarpúlsinn eftir nóttina var kominn í 124. Ég hringdi á heilsugæsluna og var sagt að ég mætti koma strax. Þar var ég drifin í línurit og þar sem ég komst illa niður af bekknum eftir það, þá fór hjúkrunarkonan fram og kom með tvær töflur sem hún sagði fyrirmæli frá lækninum að taka inn.  Hann kom svo og talaði við mig og sagði að næst þegar svona kæmi upp ætti ég að fara niður á Landspítala í Fossvogi. Ég er svo búin að kúra í Lazyboystólnum í dag og ætla að vera þar í nótt líka því þar líður mér þolanlegast. Þetta er ekki brandarinn ef þið hélduð það.

En, nú kemur brandarinn í þessu öllu saman, því öllu fylgja brandarar – sem betur fer.

Þegar mér var hleypt heim frá lækninum þá fór ég fram í biðstofuna þar sem margir biðu eins og þegar ég kom inn nokkru áður.  Ég gekk að skógrindinni þar sem ég hafði skilið skóna mína eftir þegar ég kom, en fann bara annan skóinn minn. Það var talsvert af skóm þarna en mér fannst einkennilegt að finna ekki hinn skóinn, þangað til ég sá skó sem ég kannaðist vel við og sá þá mér til skelfingar hvernig ég hafði búið mig í flýtinum þarna um morguninn. 

Ég hringdi í Hauk og bað hann um að koma eins fljótt og hann gæti til að sækja mig.

Hér er mynd af ástæðu þess að mig langaði ekki til að spígspora
lengi á meðan ég beið eftir að vera sótt.
Nú megið þið sem sé hlæja að rugluðu konunni í Kópavoginum.
Ég sprakk líka úr hlátri þrátt fyrir vanlíðan, þegar ég benti Hauki á
hvers vegna hann þurfti að koma svona fljótt.

Ég legg ekki meira á ykkur í bili. 

skornir.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Alltaf má sjá eitthvað fyndið við allt.

  1. þórunn says:

    Ha, ha það er ekki gægt annað en hlæja, þér hefur greinilega liðið illa þegar þú fórst af stað. Þetta getur þá komið fyrir fleiri en þá sem eru sjónskertir.
    Bestu kveðjur með ósk um betri nótt en þá síðustu.
    Þórunn

  2. Sigurrós says:

    Ég hélt kannski að skórnir hefðu verið það líkir að þú hefðir ef til vill ekki þurft að hafa áhyggjur af að aðrir tækju eftir að þeir væru ósamstæðir.

    En eftir að hafa séð myndina, þá verð ég nú að viðurkenna að þetta er nú nokkuð augljóst og þú hefur örugglega vakið kátínu hjá einhverjum athugulum á heilsugæslunni 🙂

  3. Ragna says:

    Nei Sigurrós mín þeir voru eins ólíkir og hugsast gat, enda stakk ég bara fótunum í það næsta í skápnum og röðunin þar var bara ekki betri en þetta. Hvílíkt og annað eins.

  4. Stefa says:

    Ragna mín – þú ert DÁSAMLEG! 😀

  5. Hulla says:

    Hahahhaha
    Þarna bjargaðir þú mínum degi og sennilega bara öllu árinu 🙂
    Hvernig í fjandanum fórstu að þessu???
    Fannstu engan mun á þrengd og þannig?
    Þú ert yndi!!!

  6. Ragna says:

    Það er von að þið spyrjið hvernig ég fór að þessu, en Hulla mín, spyrðu pabba þinn af hverju í ósköpunum hann tók ekki eftir þessu heldur. Þetta lýsir því kannski hvernig ástandið var á mér þarna um morguninn. Var bara að lognast útaf.
    Nú standa samstæðir skór tilbúnir – fyrir framan skápinn.

  7. Ég skellihló mín kæra, en svei mér þá, þetta eru jú flottir skór! Vonandi ertu skárri. Kærust kveðja.

  8. Ingunn says:

    Það er til nákvæmlega eins saga af honum föður mínum, hann fór í sund í sitthvorum skónum! Ég held að mamma hafi aldrei hlegið jafn mikið og þegar hún var að segja mér þetta.

Skildu eftir svar