Vona það besta.

Það er svo sem ekki mikið sem ég hef að segja þó ég hafi ákveðið að setja smá færslu hérna inn á dagbókina mína.

Það má segja að ég hafi lifað svona frekar aðgerðarlitlu lífi undanfarið, a.m.k. frá því ég kom úr Hveragerði. Ég er enn að berjast við brjósklosið sem tók sig upp þar og hef mest hengslast hérna í Lazyboystólnum því það er svo erfitt að stíga í fótinn þeim megin sem taugin er klemmd.

Jæja þetta átti ekki að vera vælupistill heldur smá fréttaskot svo ég ætla að segja frá því að ég fór til Arons Björnssonar baksérfræðings í gær. Sjúkraþjálfarinn minn var ekki ánægður með að í heilt ár frá því þetta gerði fyrst vart við sig, þá hefði enginn sérfræðingur sagt álit sitt á sneiðmyndinni og hann benti mér á að fara til Arons. 

Edda Garðars kom og sótti mig í gær, það var ekki við annað komandi en að keyra mig og bíða með mér.  Ég var ánægð með viðbrögð læknisins sem sagðist vilja fá nýja mynd og á nýju myndinni vildi hann sjá brjósklosið líta út eins og á ársgömlu myndinni því þá geti hann linað þrautir mínar. Svo nú á ég sem sé að vonast eftir því að vera ennþá með stórt brjósklos sem sést á mynd. Skrýtin tilfinning því venjulega vonast maður eftir því að það sé ekki svo alvarlegt að að það þurfi að fara í aðgerð.  Nú gríp ég bara það hálmstrá sem fyrir mér verður.
Hann sagði reyndar þegar ég var sest hjá honum og  myndin af hryggsúlunni minni blasti við á tölvuskjánum hans. " Þetta er mjög ljótt bak……." Af því ég vissi að hann sagði satt þá móðgaðist ég ekkert.  Nú bara vona ég að það verði fljótt hringt og ég látin vita hvenær ég á að koma í myndatökuna því hann vonaðist til að geta gert þetta í þessum mánuði. Eddan mín var nú ekki nógu ánægð með að ekkert ætti að gera strax, en ég var hinsvegar ánægð með að eitthvað væri kannski hægt að gera.

Nú er bara að bíða og vona það besta.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Vona það besta.

  1. Þú ert ekki að væla mín kæra, og ég finn virkilega til með þér. Sífelldur verkur er bara fyrir „hraust“ fólk að bera. Kann ekki annað ráð en að hugsa fallega til þín og vona hið besta. Ekki missa móðinn, en láttu heyra frá þér af og til. Kærust kveðja.

  2. þórunn says:

    Ég á þá ósk heitasta að það fari nú að rætast úr þessu hjá þér Ragna mín, en mér finnst dálítið undarlegt að enginn sérfræðingur skuli hafa litið á mynd sem var tekin fyrir ári síðan, en sumt virðist lenda neðst í skúffu einhverstaðar á leiðinni.
    Bestu kveðjur, Þórunn

  3. Oddbjörg Kristjansdottir says:

    Sæl Ragna.
    Bara að segja takk fyrir þessa fínu uppskrifta síðu. Er að elda hamborgar hrygginn.
    Óska þér alls hins besta og góðan bata, ég hvað þetta er kvalafullt.
    k.k. Oddbjörg

  4. Ragna says:

    Það er alltaf gaman þegar einhver getur notað eitthvað af þessum fátæklega uppskriftavef mínum. Vonandi smakkast steikin vel Oddfríður. Takk fyrir innlitið og að kvitta fyrir – það er alltaf gaman að vita hver kemur hér við, en margir eru svo feimnir við að gera viðvart.

Skildu eftir svar