Í höndum Arons.

Jæja gott fólk. Nú vona ég að mínu væli og endalausu  kvörtunum fari að ljúka.
Nú er ég nefnilega búin að fá dóm Arons Björnssonar eftir að hann fékk niðurstöðu á sneiðmyndinni af bakinu á mér.  Ég fékk nú enn á ný að heyra að bakið væri meira og minna ónýtt en það kemur mér ekkert á óvart og nú ætla ég að læra að fara að haga mér eins og konu sem er á sjötugsaldrinum og bakveik og hætta að rjúka í að gera hluti sem ég var vön að skella mér í að gera þegar ég var yngri. Já nú lofa ég bót og betrun svo ég lendi ekki í því í þriðja skiptið að fara í bakaðgerð. 

Það sem gladdi mig alveg sérstaklega í samtali okkar Arons í morgun var að það er komin skýring á mínum kvölum.  Ég er sem sé með stórt brjósklos hægra megin og það bungar inn að mænu og þrýstir á taugina niður í fótinn. Auðvitað er ekki rökrétt að gleðjast yfir svona fréttum, en þar sem ég er orðin svo leið á þessu volæði þá gladdi þetta mig sérstaklega. Líka þegar hann sagði að hann myndi gera við þetta eins fljótt og hann gæti. hann yrði í burtu í viku en fyrir eða um mánaðamótin vildi hann vera búinn að afgreiða þetta. Ef eitthvað losnaði fyrr, þá myndi hann hóa í mig.

Nú er bara að krossa fingur og vona að þetta gangi allt vel.  

Haukur er að koma til landsins í dag úr sumarleyfinu á Jótlandi. Það verður gaman að heyra hvað á daga hans hefur drifið í fríinu  þó ég sé auðvitað búin að fá fréttir svona eftir hendinni frá degi til dags þá er nú alltaf meira gaman að sitja og rabba um hlutina.  

Það er langt síðan ég hef kíkt í bókina góðu um hamingjuna en þetta sagði sú góða bók við mig í dag. 

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar. 

Á ánægjustundum er hamingjan sem við
deilum með öðrum besta gjöfin sem ein
manneskja getur gefið annarri. 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Í höndum Arons.

  1. þórunn says:

    Það er ekki oft hægt að gleðjast yfir að fá slæmar fréttir en þannig er það hjá þér núna. Bestu óskir um góðan bata sem allra fyrst. Til hamingju með að vera að fá Hauk aftur heim, þetta er að verða nokkuð langur aðskilnaður hjá ykkur (fyrst Hveragerði svo Danmörk) en við svona aðskilnað finnur maður best hvað er gott að hafa góðan mann sér við hlið. Góða helgi og bestu kveðjur frá okkur Palla.
    Þórunn

  2. Það er gott að greining skuli liggja fyrir. Við eigum svo færa lækna þannig að nú fer þetta bara upp á við. Kærust í kotið.

Skildu eftir svar