Þð sem flýgur í gegnum hugann í göngutúr í Kópavoginum

Hérna í gamla daga fékk maður hroll þegar þurfti að fara einhverra erinda í Kópavoginn því göturnar voru svo holóttar og erfitt að rata. þegar ég bjó tímabundið í Kópavogi fyrir meira en 50 árum, þá hefði mér ekki dottið í hug að ég ætti eftir að verða Kópavogsbúi seinna meir og svona líka alsæl með það. Hér er vel hugsað um umhverfið og fólkið sem hér býr, góðir göngutígar með vönduðum bekkjum fyrir þá sem þreyttir eru,  undirgöng undir umferðargötur og allt svo snyrtilegt.
Það mætti halda að þetta væri framboðsræða hjá mér, en ég kann bara svo vel að meta það sem vel er gert og vel hugsað um.

Hér eru nokkrar myndir út göngutúr í næsta nágrenni mínu í Kópavoginum. 


Þetta þurfti Haukur að prufa þegar hann kom með mér á röltið.

Svo er auvitað andapollur hér eins og vera ber.

Þessi er svo tekin út um gluggann á vinnuherbeginu mínu.
Máninn staldrar við og kíkir á okkur Kópavogsbúana, á ferð sinni í kringum jörðina

Posted in Hugleiðingar mínar, Ýmislegt | Leave a comment

Gamla góða bloggið mitt vanrækt.

Ég var spurð að því í gær hvort ég væri alveg hætt að skrifa á „bloggið“ mitt? Já ég varð að játa það og hef ekki einu sinni leitt hugann að því að skrifa færslu í dagbókina mína í rúm tvö ár, eins og hún var mér hugleikin hérna áður en Fésbókin kom til sögunnar.  Ástæðuna sagði ég vera þá, að mér finndist ég ekki hafa neitt merkilegt að segja. – Þarf það endilega að vera eitthvað merkilegt? var ég þá spurð. Sú spurning kom mér til þess að setjast við tölvuna núna.

Í dagbókina var ég vön að skrifa hugrenningar mínar um allt og ekkert og um eitthvað sem skeði þann daginn, en leiddi aldrei hugann að því hvort það væri eitthvað merkilegt sem eg væri að segja. Þessar færslur yrðu hvort sem er bara lesnar af fjölskyldu og vinum. Það gæti verið gaman að skoða seinna hvað ég upplifði og jafnvel gaman fyrir afkomendur mína seinna meir að fara í gegnum þessar gömlu færslur.

Ég eignaðist fljótt fáa, en nána og góða bloggvini. Þau komu úr sitt hverri áttinni og ég þekkti engin deili á þeim fyrr en þau fóru að skrifa við færslurnar mínar og við síðan hvert hjá öðru.  Við urðum öll svo náin að við deildum gleði okkar og sorgum með bréfaskriftum, fyrir utan litlu ummælin á dagbókum okkar. Ein bjó í Amman í Jórdaníu, tvær bjuggu í Ameríku, ein i Portúgal og við hin svo á Íslandi.  Fyrir nokkrum árum hittumst við nokkur og áttum yndislega dagstund saman.  Það er ótrúlegt hvað fólk getur bundist sterkum böndum  á þennan hátt.

Svo kom Facebook.

Í huganum hef ég kennt Facebook um það að ég hætti alveg að blogga, en það er auðvitað ekki sanngjarnt að gera það. Breytingin varð bara sú að ég fór allt í einu að gaspra eitthvað út og suður á þessum nýja miðli, oftast vanhugsað og í fljótfærni og langt frá því að vera neitt í líkingu við gömlu góðu dagbókarsamskiptin.  Ég vil þó ekki gera lítið úr Facebook því það er ómetanlegt að fá fréttir og myndir af vinum og vandamönnum sem maður heyrir sjaldan í eða hittir og að geta skoðað öll þau húsráð og fróðleik sem í boði eru. Á síðustu árum hef ég líka verið í svona smá veikindastússi og mikið hefur mér þótt vænt um allar góðu óskirnar og batakveðjurnar sem ég hef fengið á Facebook þegar ég hef þurft á þeim að halda og sömuleiðis hefur verið notalegt að geta sent öðrum kveðjur í slíkum aðstæðum.

Ég hef einnig verið spurð  hvort ég hafi aldrei íhugað að tjá mig um reynslu mína af heilbrigðiskerfinu. –  Jú ég hef stundum íhugað hvort ég ætti að gera það og einn og einn gamall póstur á http://ragna.betra.is/ er jú um samskipti mín við heilbrigðiskerfið, bæði góð og slæm samskipti, en þegar ég lít til baka þá man ég betur þau góðu en slæmu. Flestir sem ég hef þurft á að halda í sambandi við veikindi mín hafa verið svo góðir við mig og viljað allt fyrir mig gera. Ég verð hins vegar að játa, að þegar ég hugsa mig betur um, þá kemur ýmislegt upp á yfirborðið og þá sérstaklega í sambandi við Bráðavaktina.

Ég ætla að velta þessari áleitnu spurningu fyrir mér um sinn. Get einhvern veginn ekki ímyndað mér að það geti orðið áhugaverð lesning ef ég fer að skrifa um veikindi og samskipti við kerfið.   Þessari spurningu er því ósvarað a.m.k. í bili.

Þú kæra dagbók getur þakkað RUV fyrir leiðinlegar bíómyndir í kvöld, en það voru þær sem komu mér til þess að pára nokkrar línur hérna inn, það hlyti að vera skemmtilegra og meira gefandi en að sitja og tuða yfir sjónvarpinu.

Góðar stundir !

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Landið okkar og gróðurinn.

Mér varð hugsað til þess, þegar ég horfði á magnaða þáttinn, hans Ómars Ragnarssonar í Sjónvarpinu áðan, hvað þeir eru orðnir margir staðirnir, sem nú eru orðnir að lóni vegna virkjana og vissulega er það sorglegt.  Það er hinsvegar önnur ógn sem mér finnst fólk ekkert hafa áhyggjur af og talar bara um að hún sé svo falleg – Sú ógn heitir LÚPÍNA og veður yfir landið. Hún eirir engu, hvorki smágróðri eða smáum trjágróðri og gerir engin skil á því hvort hún fer yfir berangur eða gróið land. Ég er hræddust um, að þar sem hún margfaldast að umfangi frá ári til árs og ekkert virðist gert eða eiga að gera til að hefta útbreiðslu hennar, þá endi hún með því að kæfa allan fallega smágróðurinn okkar, eins og fallegu sóleyjarnar, geldingahnappana og fleira.
Það er t.d. hræðilegt að aka í gegnum Heiðmörkina og sjá að þar sem áður var berjalyng, blágresi, sóleyjar og margvíslegur annar gróður, er nú ein Lúpínubreiða.
Við tókum líka eftir því, þar sem við ókum vesturleiðina norður í land um daginn hvað það er víða, allt of víða sem lúpínan er búin að vaða yfir í stórum flákum svo engan annan gróður er að sjá. Ég sakna þess að sjá ekki fallega íslenska holtagróðurinn lengur nema á stöku stað. Við sáum svæði með uppgræðslu skóga og lúpínan var búin að vaða þar yfir svo að rétt sá í smæstu trén upp fyrir lúpínuskóginn. Þó þessi fjólublái litur sé fallegur og blómið sjálft líka,  þá er afskaplega leiðinlegt að sjá ekkert annað og verulega sorglegt að svona sé komið. Ég hefði bara ekki ímyndað mér, nema af því við sáum hana í blóma, hvað hún er búin að leggja stór svæði undir sig.

Við sáum hinsvegar smágróðurinn fallega, berjalyng og ótal jurtir vaxa villt úti í Hrísey og það er vonandi að lúpínunni verði haldið niðri þar og kerfillinn verði líka stöðvaður.

Verum vakandi og gerum allt sem við getum til að vernda okkar einstöku íslensku náttúru. Verum ekki alltaf svona auðtrúa eins og með lúpínuna, sem sagt var að aðeins myndi binda jarðveginn á sandi og melum en aldrei fara yfir annan gróður.  Raunin er önnur í dag og nú hefur kerfillinn bættst við.

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Fávís kona, með einfalda lausn.

Nú eru þessi verkföll sum hver búin að standa í margar vikur og enn bætast við fleiri félög á leið í verkfall.  Allt virðist vera í hnút og engin lausn í sjónmáli.   Í fávísi minni langar mig til þess að spyrja af hverju í ósköpunum þurfi alltaf að semja um prósentutölur upp allan skalann, þegar hækka á laun. Það gefur auga leið að þá fá þeir sem mest hafa hæstu launahækkanirnar á meðan þeir sem minnst hafa fá minnst.

Með því að hækka laun um t.d. 50 þúsund krónur á mánuði upp allan launaskalann, eða aðra upphæð eftir atvikum, þá fái ALLIR sömu launahækkun. Þeir sem lægst hafa launin ættu að komast í og yfir 300 þúsund krónu lágmarkslaunin ( má ekki minna vera) og þeir sem meira hafa og þeir sem margfalt meira hafa í laun á mánuði fái þá sömu hækkun, eða  50 þúsund krónur. Þetta tel ég vera jafnræði og hvílíkt sem slíkt myndi einfalda þetta allt saman. Er verðgildi peninga eitthvað öðruvísi hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar?  Ég veit ekki annað en að allir borgi það sama fyrir matarinnkaup og ef 50 þúsund krónur er næg upphæð sem launahækkun fyrir láglaunafólk, þá ætti það svo sannarlega að vera það einnig fyrir þá sem hafa hæstu launin.
Mér dettur ekki í hug að tala um að allir eigi að vera á sömu launum, enda væri það ekki sanngjarnt, því þar kemur margt inn í eins og menntun, ábyrgð o.fl., en ofaná þau laun sem fólk hefur í dag, finnst mér ákveðin krónutala vera sjálfsögð, sú sama fyrir alla.

Nú langar mig, sem á rétt á að hafa skoðun og tjá mig, jafnvel þó ég hafi ekki hundsvit á samningamálum í kjaradeilum hvað þá meira, til þess að fá að vita hjá þeim sem ekki eru eins fávísir, af hverju  það má ekki einu sinni ræða um þá einföldun að allir fái sömu krónutölu í launahækkun?

Hvað er það sem gerir það svo sjálfsagt að þeir sem hafa hæstu launin fái alltaf margfalt hærri krónutölu með prósentutölum, en þeir sem lægstu launin hafa?

Svo má auðvitað ræða um hækkaðan persónuafslátt og fleira, sem ég kann ekki skil á, en að prósentuhækkun fari upp allan skalann finnst mér og hefur alltaf fundist alveg ótrúlega mikið ranglæti.

Ég vona að ég fái svör við mínum fávísu vangaveltum og hlakka til að sjá hver þau verða.

 

Posted in Ýmislegt | 2 Comments

Svona fór nú kvöldið hjá mér.

Ég er svona rétt að ná andanum aftur, en það er ekki vegna spennings yfir lögunum í fyrri hluta undanúrslita í Evróvisjónkeppninni í kvöld, heldur datt mér það snjallræði í hug þegar ég var búin að horfa á fyrstu tvö lögin, að nota tækifærið og lakka á mér neglurnar. Ég ætlaði hvort sem er að sitja kyrr á meðan ég væri að horfa á keppnina svo lakkið gæti þornað áður en ég færi að gera eitthvað sem eyðilegði lökkunina. Ég fór fram til þess að ná í naglalakkið sem ég keypti í vikunni, en var ekkert farin að nota.
Í næ í lakkið uppi í baðskáp, en þar sem ég sný mér við og ætla aftur út úr baðherberginu, þá vill ekki betur til en svo að ég missi glasið úr höndunum á mér í gólfið og það splundrast og naglalakkið slettist bókstaflega um allt gólf og upp á flísar.
Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð.  Tusku og vatn þýddi auðvitað ekkert að nota svo það kom sér vel að ég átti líka stórt glas með asitoni, svo ég hófst strax handa við að þrífa upp þennan ófögnuð sem byrjaði strax að þorna og notaði til þess grisjur og asiton. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að að eyða  dýrmætum sekúndurm í að sækja Hauk og láta lakkið þorna enn fastar á flísunum á meðan. Hann var auðvitað upptekin af sjónvarpinu og áttaði sig ekkert á því hvað ég var lengi að bauka eitthvað og þusa við sjálfa mig þarna frammi á baði.
Það er alveg með ólíkindum hvað innihald svona glass með naglalakki getur slettst víða þegar það mölbrotnar á flísalögðu gólfi. Hvílíkt lán var samt yfir mér að missa glasið inni á baði en ekki fyrir utan dyrnar á parketið í holinu.

Ég náði svo síðasta laginu í söngvakeppninni eftir að hafa skriðið um allt baðgólfið, hreinsað upp glerbrot og nuddað naglalakkssletturnar af gólfi og veggjum og andað að mér asitoni í dágóða stund áður en ég þvoði yfir gólfið á eftir. Við erum búin að lofta vel út svo við eigum að sleppa við að vera í asitonvímu í nótt.

Þannig fór nú fyrsti hluti Evróvisjón 2015 hjá mér- Kannski missti ég ekki af neinu, en á fimmtudagskvöldið ætla ég hvorki að hreyfa legg né lið þegar ég verð sest við sjónvarpið til þess að horfa á hana Maríu okkar og alla hina sem taka þátt það kvöld.

Góða nótt mín kæru.

 

Posted in Ýmislegt | 2 Comments

18. maí 2015 – svalir sumardagar

Eruð þið ekki sammála mér að sumarið sé komið. Það er yndislegt að vakna við geisla sólarinnar, sem ná að þröngva sér meðfram rúllugardínunni og fá mann til að blikka aðeins augunum og fyllast bjartsýni á daginn framundan. Ég viðurkenni þó að stundum finnst mér sólin helst til snemma á ferð þegar klukkan er varla orðin fimm að morgni, en eftir leiðinda dimmviðrið í fyrrasumar og í allan vetur er þetta bara dásamleg tilfinning. Hitastigið yfir daginn fer reyndar ekki mikið yfir sex eða sjö gráður, og nær enn ekki tveggja stafa tölu, en ég á nóg af hlýjum fötum svo ekki þarf ég að láta mér verða kalt.  Já mér finnst komið sumar og nýt þess virkilega, þrátt fyrir það að vindurinn sé kaldur og ég verði að fara í úlpu, hnýta á mig trefil og hafa vettlinga þegar ég fer í smá göngutúr.
Ég má nefnilega ekki leita mér að afsökunum að fara ekki út að ganga því ég ætla að styrkja mig vel fyrir næsta krukk þeirra sem sjá um skurðhnífana á Lsh.  Hvenær svo sem eitthvað fer nú að þokast áfram á  biðlistum þar á bæ. Þeim er vorkunn, sem starfa á Lsh og vilja hjálpa sjúklingum sínum fljótt og vel, að allt skuli vera í biðstöðu vegna verkfalla. Ég hef aldrei kynnst nema góðu fólki sem starfar á Landspítala og vona svo sannarlega að það fái  sína samninga sem allra fyrst

Nú er best að njóta hvers dags, af þessum fallegu sem nú eru í boði, hlusta á fuglasönginn og köll barnanna sem láta ekki smá kulda á sig fá og leika sér úti á hjólum, brettum og hoppa á trampolínum án þess að hafa áhyggjur af morgundeginum. Tökum þau okkur til fyrirmyndar. Það er með börnin eins og fuglana þau eru fyrstu merki sumarsins.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Blessað bloggið mitt.

Ég mundi allt í einu eftir því áðan að ég ætti heimasíðu og kíkti því aðeins hérna inn. Ég sá fyrst engan póst síðan á nýjársdag, en sá þá að ég hafði gert nokkur drög síðan en ekki klárað eða birt. Ég gerði ein af þessum drögum sýnileg áðan og mikið langar mig til þess að fara að fá einhverja andagift til þess að halda áfram að pára eitthvað saklaust úr daglega lífinu til þess að eiga hérna á einum stað.
Í sarpinum sé ég að fyrstu færslurnar gerði ég í júní 2003 og var bara nokkuð dugleg að bæta við færslum í mörg ár.  Ég eignaðist mjög góða bloggvini  á þessum tíma þegar við vorum nokkur sem skrifuðum reglulega svona smá færslur úr daglega lífinu og skoðuðum hvert hjá öðru. Þetta var sem sagt áður en Facebook kom til sögunnar.
Nú er það orðið að vana þegar ég kveiki á borðtölvunni minni, að ég byrja á því að heimsækja aðeins  Facebook og áður en ég veit af er ég dottin í að skoða myndir, myndbönd, lesa allskonar fróðleik og ekki fróðleik og kíkja svo á hvað vinir mínir hafa fram að færa.
Þetta er allt mjög skemmtilegt, en á sama tíma hef ég bara gleymt þeirri staðreynd að ég á dagbók á netinu, dagbók sem mér þykir vænt um og ætlaði  mér að halda lifandi eins lengi og ég gæti. Ég má til með að gera það fyrir sjálfa mig og kannski mína eftirlifendur, að sinna dagbókinni betur.  Stundum finnst mér ég bara ekki hafa neitt nógu skemmtilegt til þess að  tala um og hætti þá við, eða skrifa drög en birti ekki. Auðvitað er það tóm vitleysa að láta það stoppa sig því lífið er jú svo margbreytlegt og langt frá því að vera bara glaumur og gleði.  Það gæfi því ekki sanna mynd í dagbók að tala eingöngu um það sem er skemmtilegt. Ég held að það finnist í raun enginn sem er svo heppinn að eiga slíkt líf að aldrei beri skugga á.

Svo er annað í þessum vangaveltum um heimasíðuna mína.
Uppskriftavefurinn minn, sem reyndar er ótrúlega mikið heimsóttur, hefur til dæmis aldrei verið uppfærður í nútímalegt horf. Upphaflega var hann á öðru vefsvæði og uppskriftirnar samdar í Word, síðan færðar yfir á heimasíðuna og gæðin eftir því. Síðan flutti heimasíðan yfir á WordPress og í raun kann ég lítið til verka hér þó ég sé svona að reyna, en ég get þó lofað því að gömlu uppskriftirnar mínar eru margar mjög góðar þó þær séu ekki nútímalegar í útliti.

Nú bara verð ég að bretta upp ermarnar og gera eitthvað í málinu. Nú hef ég tekið fyrsta skrefið, sem er að játa hér að þetta gengur ekki lengur. Næsta skref er að læra betur, já miklu betur á þetta WordPress og sjá hvort ég get fundið eitthvað skemmtilegra form  fyrir uppskriftirnar. Er kannski einhver sem getur gefið mér góð ráð?
Síðast en ekki síst þá má ég ekki gleyma því þegar ég kveiki á tölvunni, að þó allir mínir vinir séu á Facebook, þá á ég líka heimasíðu sem mér þykir vænt um.

Posted in Ýmislegt | 1 Comment

Vangaveltur um fullkomleikann.

Ég hef verið á góðu og skemmtilegu námskeiði þar sem maður skoðar sig aðeins innávið. Í því sambandi hef ég verið að velta fyrir mér einni af spurningunum sem þar kom fram:  „Ætlastu til eða býstu við að vera fullkomin?“   Ég hef aldrei velt þessu  sérstaklega fyrir mér, en hefði átt að gera það fyrir mörgum áratugum. Það er nefnilega sorglegt en satt þegar ég fer að hugsa um það, að ég hef verið að eltast við þennan fullkomleika stóran hluta ævinnar – allt of stóran hluta.

Ég var alin upp við að það ætti alltaf að standa sig vel og vera fullkominn og mér hefur alltaf fundist það sjálfsögð krafa.  Þegar ég hugsa um þennan fullkomleika, sem auðvitað er víðsfjarri að ég hafi komist neitt nálægt, þó ævin sé orðin löng og ég hafi reynt mitt besta, þá sé ég nú hvað það hefur farið mikil orka og kannski lífshamingja í það að vera alltaf að keppast við að ná þessum fullkomleika.  Hver er líka fullkominn???

Mér fannst reyndar systir mín, sem var sjö árum eldri en ég  alltaf vera fullkomin. Hún var fyrirmyndin, sem lék í leikritum í skólanum, var flink að teikna, var í kór , var í A-bekk en ég fór í B-bekk þegar ég byrjaði í skóla. Mér fannst ég aldrei komast í hjálfkvisti við hana. Ég var svo feimin sem barn og minnist þess þegar verið var að velja í leikrit í skólanum, í upplestur eða annað sem átti að gera á sviði, þá bað ég þess í hljóði að ég yrði ósýnileg svo ég yrði ekki valin til þess að gera neitt, hjartað hamaðist og mér varð illt í maganum af ótta. Aðal hugsunin var sú að ég myndi örugglega klúðra öllu, yrði ekki eins góð og aðrir og verða mér til skammar.  Þegar ég hugsa til baka þá man ég reyndar ekki eftir öðru en að það hafi samt gengið ágætlega, þau fáu skipti sem ég náði ekki að verða ósýnileg og var valin til þess að koma fram. Ég var alltaf með kvíðahnút í maganum á þessum tíma og sífellt að leita að þessum fullkomleika, sem mér fannst allir aðrir en ég hafa til að bera.

Nú er ég búin að fara yfir líf mitt í huganum og sé hvað ég gerði alltaf lítið úr sjálfri mér og fannst ég aldrei standast samanburð við aðra og ég verð að viðurkenna að enn kemur fyrir að þetta hrjái mig. Það kom svo glögglega fram á þessu námskeiði hvernig maður lítur á sjálfan sig. Leiðbeinandinn byrjaði á að spyrja mig að því hvernig ég liti á sjálfa mig? Spurningin kom mér á óvart og það eina sem mér datt í hug var að ég væri örugglega of mikið fyrir að gefa öðrum ráð og talaði líklega of mikið.  Eitthvað mér til hróss gat ég ekki fundið til að segja. Svo heyrði ég svör þeirra sem á eftir komu sem tíndu til allt mögulegt sér til hróss og þá mundi ég líka eftir ýmsu sem ég hefði getað sagt, en mér hefur alltaf þótt rosalega erfitt að taka við hrósi og einhvern veginn  fundist ég ekki eiga það skilið – bara eitthvað sem væri sjálfsagður hlutur og óþarfi að hrósa fyrir.

Eftir þennan námskeiðsdag fór ég að hugsa um þetta og sá heildarmyndina allt frá barnæsku og viti menn,  ég hef gert ýmislegt í gegnum tíðina sem ég get viðurkennt að ég á skilið hrós fyrir. Ég vildi bara óska þess að ég hefði áttað mig á því fyrr og leyft mér að njóta þess að ég var pinkulítið fullkomin eins og aðrir. 😉

Posted in Hugleiðingar mínar, Ýmislegt | 1 Comment

Hvað boðar blessuð nýjárssól.

Ég óska ykkur öllum farsældar,  hamingju og góðrar heilsu  á komandi ári 2015.
Þakka ykkur fyrir tryggð og góðar srtundir á árinu sem nú kveður.
Verum jákvæð og lifum heil.

Kvöldfegurðin var alveg einstök í Galtalækkarskógi.

Posted in Ýmislegt | Leave a comment

Á jóladagsmorgni 2014.

Eftir allan hraðann í þjóðlifinu síðustu daga og vikur ríkir nú að morgni jóladags þessi einkennandi jólakyrrð og friður yfir öllu. Ég hef ekki séð bíl aka eftir götunni, enginn á ferli nema hópur af smáfuglum sem var að gæða sér á smá góðgæti sem Haukur hafði stráð á fannhvíta jörðina fyrir þá.
Hugurinn verður svo meir á svona stundum og reikar til liðinna jóla, jólanna allt frá því ég var barn og allra jóla síðan.   Ég minnist jólagjafanna sem ég fékk þegar ég var barn. Þær voru ekki margar hverju sinni, en mikið þótti mér vænt um þær. Það voru gjafir frá mömmu og pabba, einu ömmunni sem ég átti og síðan frá eldri systrum mínum tveimur.   Ég gleymi t.d.aldrei þegar ég var nýorðin 7 ára og fékk upptrekkt danspar sem Maggi, þá kærasti en síðan eiginmaður Dússýjar systur minnar, hafði fengið keypt fyrir sig í útlöndum. Það var töfrum líkast að sjá þetta fallega klædda par snúast í hringi á gólfinu eftir tónlist. Aldrei hafði ég augum litið slíkt undur. Ég átti líka fram á fullorðinsár lítinn rósamálaðan lúður úr næfurþunnu efni eins og jólakúlur voru úr, en þennan lúður gaf amma Símonía mér ein jólin og fallega prjónaklukku með. Oft gaf hún mér líka fallega prjónaða leppa til að hafa í skónum.
Svo á ég enn dúkkuhúsið sem pabbi bjó til handa mér ein jólin, Tvö herbergi í húsinu,  sem var lagt saman og geymt í þessari tösku sem pabbi saumaði utan um það. Svo fékk ég smám saman  lítil plasthúsgögn og á enn eina litlu dúkkuna, litla gula plasteldavél og lítinn gulan stól, en annað  glataðist.  Pabbi minn var algjör snillingur í höndunum og mamma var það líka því allt handverk lék í höndum hennar.

dukkuhus1

IMG_1250

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef sjálfsagt marg talað um þetta,  því þessar gömlu góðu minningar og minningarnar um það þegar ég var smá stelpuskott og við mamma vorum að horfa á bleikan jólabjarmann á himninum á aðventunni, koma upp í hugann hver jól.

Það væri fróðlegt að vita hvaða minningar um jólagjafir börn dagsins í dag kunna að eiga þegar þau standa á sjötugu.  Ég man að mér fannst skrýtið að heyra mömmu mína tala um að hún hefði  fengið tólgarkerti og spil í jólagjöf. Já tímarnir breytast í sífellu.

Njótum jólanna og áramótanna kæru vinir og reynum eftir fremsta megni að kyrra hugann þessa daga og hugsa til baka því það er svo dýrmætt  að rifja upp gamlar og góðar minningar.

 

Posted in Hugleiðingar mínar, Ýmislegt | 1 Comment