Minningarflakk á aðventu.

Það fer ekki hjá því að á þessum árstíma lætur maður hugann flakka til liðins tíma.

Ég var að hugsa um það áðan þegar ég var að setja súkkulaðið yfir Sörurnar hvað við nútímakonurnar erum nú almennt vel tækjum búnar og allt er svo einfalt og fljótlegt.

Ég sá hana móður mína fyrir mér þar sem hún stendur með einhverja af fallegu svuntunum sínum við litla eldhúsborðið og hnoðar deigið í Gyðingakökurnar fyrir jólin, á meðan ég læt hrærivélina um að hnoða deigið í smákökurnar, kleinurnar eða hvað annað sem þarf að hnoða og gæti þess vegna sest með kaffibolla á meðan.

Nú höfum við líka þennan dásamlega bökunarpappír sem ekki var til þegar ég var að alast upp og reyndar ekki fyrstu árin í mínum búskap. Nú getur maður sett kökurnar á pappírinn góða og rennt þeim svo yfir yfir plöturnar jafnóðum og búið er að losa af þeim það sem var verið að baka.  Enginn þvottur og allt svo auðvelt og fljótlegt.   Hérna áður fyrr þurfti að bera smjörlíki, yfirleitt með snifsi af pappírnum utan af þeim, á plöturnar svo kökurnar festust ekki við . Síðan þurfti að þvo og skrúbba plöturnar eftir hvern bakstur  fyrir þann næsta-  Það tók óratíma að baka með þessu móti, það sem engan tíma tekur í dag.

Það voru heldur ekki önnur ráð að bræða súkkulaði en að setja það í skál og síðan ofan í pott  með smá vatni í, en potturinn var síðan hafður á  heitri hellu –  Þetta er jú notað af mörgum í dag, en nú eru komnir sérstakir súkkulaðipottar sem einfalda mikið, en þá þarf einungis að setja pottinn í samband, henda súkkulaðinu í hann og svo þarf ekki að hugsa um það meira  fyrr en það á að nota tilbúið bráðið súkkulaðið.

Ég man líka þann tíma þegar ekki var kominn ísskápur heima hjá mér. Samt fengum við stundum besta ís sem ég hef nokkurn tíman fengið, búinn til af móður minni.  Það var bara eitt sem þá varð að vera til staðar, nefnilega frost úti því hún setti ísinn í blikkform og setti eitthvað yfir og síðan út í skafl ef það var snjór, en annars upp við húsið. Þetta fraus svo yfirleitt yfir nótt ef það átti að vera í hádegi daginn eftir, en sett inn að morgni ef það átti að notast um kvöld.  Það voru miklar hátíðastundir þegar við fengum að borða þennan himneska ís.  –  Ekki veit ég hver uppskriftin hefur verið , sjálfsagt eitthvað úr bók Helgu Sigurðar, en í minningunni var þetta besti ís í heimi. Ég óskaði þess alltaf að það yrði frost um jólin því þá fengjum við svona ís.  Ísinn var auðvitað  aldrei búinn til nema fyrir einhver sérstök tilefni.

Já það voru alltaf fundin ráð til þess að gera allt sem gera þurfti og aldrei var kvartað, bara hlustað á útvarpið sem þá var bara gamla gufan og svo var unnið með gleði og oftar en ekki sungið með þegar þannig tónlist var í útvarpinu.

Það eru svona minningar sem fylla hug minn þegar ég hugsa til þess hvað hún móðir mín og aðrar konur á hennar tíma, þurftu að hafa mikið fyrir hlutunum á meðan ég er að nota öll heimsins þægindi við það sem ég tek mér fyrir hendur. Nú þarf maður heldur ekki einu sinni að opna uppskriftabók – fara bara í tölvuna og uppskriftin er fundin á augabragði.

Njótum aðventunnar, njótum hvers annars og verum þakklát fyrir hvern dag sem okkur er gefinn.

Þessa mynd tók ég í dag, þegar bæði var frost og snjór og þá hugsaði ég um ísinn góða.


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *