Hugsað upphátt.

Takk, Takk fyrir góðar kveðjur.  Í dag er fimmtudagur 10. maí og ég komst loksins í segulómunina. Á morgun fæ ég svo að vita nánar um þetta og fæ að öllum líkindum aðgerðardagsetninguna.

Ég var að spá í það áðan að þetta er í fyrsta skipti sem ég fer í skurðaðgerð, alveg frísk eins og mér finnst ég vera núna, en nú verð ég hins vegar  ekki veik fyrr en að aðgerð lokinni. Já það er margt skrýtið í henni veröld.  Venjulega þegar ég hef farið í skurðaðgerðir þá hef ég nefnilega hlakkað mikið til því þá hef ég verið búin að hafa mikla verki lengi og hlakkað til að vakna  laus við þá.  Svona er þetta, maður fær alltaf að prufa eitthvað nýtt og kynnast því sem maður hefur ekki kynnst áður – bæði góðu og slæmu – Þannig er bara þetta líf okkar – alltaf verið að prufa hvað við getum komist í gegnum.  Fram að þessu hefur aldrei verið lagt svo mikið á mig að ég hafi ekki getað borið það og nú er bara að sýna að enn séu kraftar í kögglunum þó þeir séu nú aðeins farnir að slappast eftir mikla notkun í gegnum árin.

Ég fór til heimilislæknisins míns í morgun til þess að fá beiðni í sjúkraþjálfun. Þegar ég var búin að skrá mig inn á biðstofunni kom stúlka og spurði hvort ég vildi taka þátt í evrópskri könnun umþað hvernig fólk upplifði þjónustu heimilislækna. Ég var til í það og byrjaði að færa inn í reitina þessa stuttu stund sem ég beið og svo sagði hún mér bara að taka þetta með mér inn og klára þegar ég kæmi fram aftur.  Einu þarna í byrjun átti ég erfitt með að svara, en það var um heilsuna. Spurt var hvort hún væri Mjög góð, Góð, Sæmileg eða Léleg. Mér finnst heilsan bara alveg ágæt þessa dagana og líður ekkert illa. Ég ákvað því að geyma þessa spurningu og sýna lækninum. Hann brosti  nú bara að mér þegar ég sagði honum að þessu væri erfitt að svara því mér finndist heilsan í rauninni vera góð fyrir utan þetta krabbamein.  Þá sagði hann “þú merkir við Léleg”.  Úps, þá var ég bara allt í einu orðin heilsulaus, ég sem hef haldið að ég væri bara í góðu ástandi, þ.e. …..

Já svon er nú það. Í sjúkraþjálfun og nálastungur fer ég aftur snemma í fyrramálið og það er alveg dásamlegt. Vonandi næ ég að fara í nokkra tíma fram að aðgerð.

Jæja, nú ætla ég að hætta að hugsa upphátt og gá hvort eitthvað er af viti í þessum blessaða imba.


Comments

11 responses to “Hugsað upphátt.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *