1. hluti – alvöru ástin rifjuð upp 50 árum síðar.

Einhvern tíman sem oftar þegar ég leiddi hugann að gömlum tíma, sem gerist nú stundum, þá ákvað ég að búa til skjal í tölvunni minni og skrifa niður það sem ég var að hugsa .  Núna  eru 50 ár síðan þessi gamla ástarsaga hófst og í ljósi þess að ég var að fá nýja heimasíðu þá birti ég upprifjun mína hér.

Já ég ætla að leyfa mér að vera svona opinská að birta þetta hérna á nýju heimasíðunni minni þó ég þykist vita að margir muni hneykslast á því, en ég læt slag standa enda meiða þessi skrif ekki neinn.  Það er aldrei að vita nema dæturnar og barnabörnin hafi kannski gaman af að kíkja á þetta einhverntíman. Ég vildi t.d. óska að ég ætti á prenti eða í tölvu allt það sem hún móðir mín sagði mér á sínum tíma, bæði um barnæsku hennar og  um árin hennar og pabba áður en ég fæddist.

———————

Úr lífi ástfangins unglings  upp úr 1960
Fyrsti hluti.

Ég var að verða 16 ára þegar ég fór fyrst í Tígulklúbbinn sem var skemmtiklúbbur fyrir unglinga á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Pabbi sá um þessa klúbbastarfsemi á vegum Æskulýðsráðs og hann hvatti mig til þess að koma með sér þetta tiltekna fimmtudagskvöld. Hann hafði áður talað um að ég kæmi með sér, en ég var svo feimin og  svo hrædd um að einhver myndi fara að bjóða mér upp í dansinn  svo ég hafði alltaf  hummað það fram af mér að fara með honum. Núna ákvað ég hinsvegar að slá til og fara ef ég fengi einhverja vinkonu með mér.   Ég fékk svo skólasystur mína til þess að koma með.

Þegar við komum í salinn í risinu á Stórholti 1,  þar sem skemmtunin var haldin þá fundum við okkur sæti úti í horni þar sem lítið færi fyrir okkur, enda var vinkonan ekkert minna feimin en ég. Þarna úr horninu þóttumst við geta fylgst með þeim sem voru að dansa en verið sem mest ósýnilegar sjálfar. Til að byrja með sátum við bara tvær við borðið og skemmtum okkur við að horfa yfir salinn.

Allt í einu, eftir að allir virtust komnir, þá sáum við tvo unga herramenn koma inn í salinn. Þeir litu aðeins í kringum sig, höfðu  svo einhver orðaskipti sín á milli og komu síðan rakleitt að borðinu hjá okkur og spurðu hvort þeir mættu setjast. Það kom eitthvert hik á okkur og við litum hvor á aðra, en þetta voru mjög kurteisir strákar og við höfðum enga ástæðu til þess að neita þeim um að sitja við borðið og sögðum því að að það væri í lagi.

Þetta voru miklir herramenn og þeir kynntu sig fyrir okkur. Oddur Vilberg Pétursson heiti ég og þetta er vinur minn hann Jón Birgir Jónsson, kallaður Jombi.  Mér leist strax svo vel á þann sem kynnti þá, en svo varð ég alveg máttlaus í hnjánum nokkru seinna þegar hann bauð mér að koma og dansa við sig. Nú var sem sé martröðin orðin að veruleika – mér  hafði nú verið boðið upp í dans.  Ég stundi því upp að ég kynni ekkert að dansa, en þessi glaðlegi drengur hlustaði ekki á það og sagði að það gerði nú ekkert til  svo á endanum fór ég með honum út á gólfið.  Það sem hjartað hamaðist í brjósti mér og ég hafði á tilfinningunni að ég hefði roðnað svo mikið að allir myndu sjá hvað ég væri rauð,  feimin og hallærisleg. Sjálfsmyndin var nú ekki sterkari en þetta.   Þetta var nú ekkert rómantískur dans „Let’s twist again“  en ég reyndi að  dilla mér einhvernveginn eftir þessu lagi og síðan kom rólegt lag á eftir þar sem herrann hélt utanum dömuna og  það orsakaði undarlegt kitl í magann og síðan urðu dansarnir fleiri og fleiri og þegar skemmtuninni lauk var tekið loforð af feimnu stúlkunni um að koma aftur næsta fimmtudagskvöld – eða, mætti kannski hringja til hennar?

Næsta dag hrökk ég við í hvert skipti sem síminn hringdi, en það var ekki fyrr en síðdegis þar næsta dag, þegar ég hafði gefið upp alla von um að fá þráðu símhringinguna,  að mamma fór í símann og  sagði að það væri til mín – einhver strákur. Hjartað tók aukaslag og ég varð kafrjóð og máttlaus í hnjánum. Það var hann, STRÁKURINN og hann var að bjóða mér, af öllum stelpum –  í bíó næstu helgi.  Ég sveif um í hamingju.    Næstu dagar einkenndust af eirðarleysi og síminn var vaktaður. Ég fann að ég var orðin rosalega skotin og hrökk við í hvert sinn sem síminn hringdi. Það var nefnilega ekki sími heima hjá honum svo hann varð alltaf að hafa frumkvæðið að því að hringja og þurfti að fara út í sjoppu til þess að fá að hringja þar.

Framhald seinna.

This entry was posted in Gamla ástarsagan og ýmislegt henni tengt... Bookmark the permalink.

7 Responses to 1. hluti – alvöru ástin rifjuð upp 50 árum síðar.

  1. Guðbjörg says:

    Mikið er ég spennt að heyra framhaldið. Þetta er auðvitað byrjunin á sögunni um það hvernig ég, svo á endanum, varð til :0)
    Guðbjörg

  2. Katla says:

    Ég get nú vel trúað að dætrum þínum þyki gaman að lesa þessa sögu! Yndislegt, bæði að kynnast meira af þér og hvað hlutirnir hafa breyst, t.d. að Oddur hafi þurft að fara út í sjoppu til að hringja í fallegu stelpuna af ballinu : D
    Ég hlakka til að lesa framhaldið.

  3. Ragna says:

    Já Guðbjörg mín þetta er nú upphafið.
    Katla mín, já það er einmitt þess vegna sem mér finnst svona gamlar sögur mega heyrast því tímarnir eru svo mikið breyttir.

  4. Sigurrós says:

    Mikið er ég glöð að þú skulir vera að setja þessa sögu hérna inn, það er virkilega skemmtilegt að fá að lesa hana 🙂

  5. Ragna says:

    Já Sigurrós mín, það er einhvern veginn allt annað að setja svona inn á prent en að vera að smá muna eftir einhverju og segja frá því með öðru sem verið er að ræða. Eins og ég sagði í byrjun þá vildi ég svo gjarnan hafa fengið sögu foreldra minna. Ég vildi líka að ég myndi allt það sem mamma var smám saman að segja mér þegar ég var stelpa, frá barnæsku hennar á Uppsölum.
    Ég er ánægð með að þið systur kunnið að meta þetta pár mitt. Það á eftir að koma meira.

  6. Elín says:

    Dásamleg frásögn. Ýmislegt í þessu minnir mig á minn tíma þegar ég 17 ára fann þann útvalda á balli í Þórskaffi.

  7. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Elín. Alltaf gaman að sjá ný nöfn í orðabelgnum. Það eru svo margir ragir við að skilja eftir nöfnin sín, en ég hef gaman af að sjá hvort einhver ratar hingað inn.

Skildu eftir svar við Elín Hætta við svar