3. hluti – úr lífi ástfangins unglings um 1960

Nú var ég búin að kynnast fjölskyldu Odds, og mamma hafði boðið hann velkominn heim til okkar, en það var ennþá nokkuð vandamál með hann elsku pabba minn  því hann vildi enn ekki sætta sig við að litla stelpan hans væri komin með alvöru kærasta bara 16 ára gömul – þetta gæti bara ekki verið full alvara.

En málin héldu smátt og smátt áfram að þróast. Ég kynntist fleirum og fleirum af vinum Odds, og síðar þeirra kærustum og jafnframt kynntist hann minni fjölskyldu og vinum. Ég fór með honum í sveitina til að hitta fólkið hans sem þar bjó.

Ári eftir að við kynntumst þá vissum við að þetta var fúlasta alvara og okkur var ætlað að vera saman. Við kertaljós í litla forstofuherberginu hans Odds, spurði hann mig hvort ég vildi verða konan hans. Ég þurfti ekkert að hugsa mig um. Ég var nú orðin 17 ára og fannst ég orðin það þroskuð að ég gæti alveg farið að huga að hjónabandi.
Nokkru seinna settum við því gylta bauga með nöfnunum okkar gröfnum innan í, á hvors annars fingur. Þessi athöfn fór fram á föstudagskvöldi í kvöldferð Selfossrútunnar á miðri Hellisheiðinni á leið í helgarheimsókn til systur minnar og mágs sem bjuggu á Selfossi.

Við höfðum ætlað að setja upp hringana um kvöldið þegar við værum komin á Selfoss, en þar sem við sátum í rökkrinu í aftasta sæti rútunnar og horfðum á norðurljósin og stjörnubjartan himininn út um rútugluggann, þá gátum við ekki beðið þangað til við værum komin alla leið og fannst að rómantískari aðstæður fyrir þessa mikilvægu athöfn yrði vandfundin. Við trúlofuðum okkur því þarna í Selfossrútunni á miðri Hellisheiðinni.

——

Þegar ég kom aftur til vinnu eftir helgina var mér óskað til hamingju á vinnustaðnum mínum Everest Trading Company, sem ég fór að vinna á beint eftir skólann. Þarna ætlaði ég að vinna í tvö ár þangað til ég kæmist inn í Handavinnudeild Kennaraskólans, en það er önnur saga af hverju ég hætti við það.

Það voru feðgar sem ráku þetta fyrirtæki og  daginn eftir að ég kom geislandi til vinnu nýtrúlofuð, þá spurðu þeir hvort við færum ekki að búa núna þegar við værum trúlofuð. Ég sagði að við hefðum ekkert athugað með húsnæði enda ætluðum við að spara eins og við gætum til þess að geta seinna keypt okkur íbúð.  Eftir nokkra daga fékk ég svo tilboð frá þeim um að við gætum fengið eitt af stóru herbergjunum sem nú væri laust uppi, en á hæðinni fyrir ofan skrifstofuna var stór lager og auk hans þrjú einstaklingsherbergi sem þeir leigðu út. Nú var eitt af þessum herbergjum laust og okkur bauðst sem sé að fá það endurgjaldslaust.

Váá, þetta tilboð var of spennandi til þess að það væri hægt að segja nei takk og við urðum strax rosalega spennt og drifum  í að mála herbergið og svo festum við upp hengi í eitt hornið sem varð eldhúsið okkar. Eldhúsinnréttinguna gerðum við úr trékössum undan maltflöskum, sem við fengum hjá  Ölgerðinni. Við máluðum þá og röðuðum upp, settum að lokum krossviðarplötu ofaná  og þá var elshúsinnréttingin tilbúið.  Engin var eldavélin, en úr dánarbúi ömmu minnar hafði dagað uppi Gúndapottur svokallaður, sem hægt var að baka í og einnig fengum við rafmagnshellur tvær saman svo það yrði ekki mikið mál að elda sér kvöldmatinn.  Ekkert vatn var í herberginu, en innar af syrtiherbergi, sem var sameiginlegt með hinum leigjendunum frammi á gangi, var lítil kompa og þar útbjuggum við okkur smá borð fyrir vaskafat, til þess að geta vaskað upp  án þess að bera uppþvottavatnið inn í herbergi og aftur fram. –  Mikið rosalega vorum við ánægð með þetta og fannst þetta bara glæsilegt hjá okkur.

Einn var það sérstaklega  sem ekki var sáttur við neitt af þessu.  Það var hann elsku pabbi minn og í fyrsta skipti á ævinni urðum við ósátt, því ég vildi ekki að gefa mig og það var sama hvað mamma, af  sinni einstöku ljúfmennsku reyndi að koma vitinu fyrir okkur pabba til þess að við gætum orðið sátt, þá gekk það bara ekki. Pabbi lokaði sig frammi í herbergi og ég, ekkert nema þrjóskan, vildi ekki hætta við þetta.  Þannig stóðu málin í nokkra daga. Ég var auðvitað orðin sjálfstæð kona á þessum tíma, þegar maður öðlast sjálfræði 16 ára, svo ég vissi að ekkert gæti stoppað mig.

Ég skildi það ekki fyrr en seinna hvað þetta hefur verið foreldrum mínum erfitt. Móður minni, sem reyndi að ná sáttum á milli okkar pabba um leið og hún var að  upplifa það sjálf, að yngsta dóttirin væri að flytja að heiman og föður mínum, sem fannst hann vera að missa barnið sitt.

Flutningadagurinn var alveg rosalega dramatískur og erfiður fyrir sálarlífið, en ég segi frá því næst.

This entry was posted in Gamla ástarsagan og ýmislegt henni tengt... Bookmark the permalink.

8 Responses to 3. hluti – úr lífi ástfangins unglings um 1960

 1. Sigurrós says:

  Ég er ekki viss um að margir myndu sætta sig við íbúð sem þessa í dag, þó það sé fyrsta íbúðin 🙂 Ég er heldur ekki viss um að margir yrðu ánægðir með að 17 ára afkvæmi þeirra væri trúlofað og farið að búa… Spurning hvað Guðbjörg segði ef Karlotta myndi flytja að heiman með unnusta eftir tæp 3 ár… 😉

 2. Ragna says:

  Ég var nýskriðin í það að vera 17 ára. Ég hef líka oft hugsað um hvernig mér hefði fundist ef þið hefðuð ætlað út í svona búskap. Eins gott að nú er sjálfræðisaldurinn alla vega orðinn 18 ár. Annars held ég að við á þessum árum höfum verið mikið þroskaðri en unglingar í dag, sem hafa vanist því að fá allt upp í hendurnar og nánast ekki þurft að hafa fyrir neinu nema vera til. Við vorum þarna strax farin að leggja fyrir eins og við gátum til að geta síðan átt sem mestan pening upp í okkar fyrstu íbúð. Það hefur verið gaman að rifja þetta upp með tilliti til nútímans.

 3. Þórunn says:

  Ragna mín, þetta er að verða svo spennandi og rómantísk saga að ég get varla beðið eftir framhaldinu. Samt hefur það verið sárt hvað pabbi þinn átti erfitt með að sætta sig við þetta. En þið sættust þó að lokum, var það ekki?
  Kveðja, Þórunn

 4. Ragna says:

  Jú, en það dramatískasta er eftir

 5. Falleg lesning og gott fyrir t.d. barnabörnin ykkar að vita að ömmur urðu líka ástfangnar í „gamla daga“. Hlakka til næsta kafla með kærri í bæinn frá okkur bestimann.

 6. Ragna says:

  Takk Guðlaug mín. Já dæturnar vildu ekki að þessi saga gleymdist.

 7. Katla says:

  Ekki þekki ég neinn annan sem hefur trúlofað sig í rútu, en stundin var ykkar og ástin skiptir öllu máli.

 8. Svanfríður says:

  Mér finnst bara yndislegt hvað ástin milli ykkar var áreynslulaus ef svo má segja.Þið bara vissuð þetta.Og að lesa um trúlofun ykkar í rútunni gaf mér gæsahúð:)

Skildu eftir svar