5.hluti – Sérstök brúðkaupsnótt – brúðkaupsfeð

“Eigum við ekki bara að nota tækifærið og gifta okkur og nota ferðina sem brúðkaukpsferð?” sagði Oddur,  Jú það fannst mér mjög góð hugmynd og þar með var það ákveðið.

Mæting í ferðina átti ekki að vera  fyrr en klukkan hálf þrjú eftir hádegi, svo við hefðum alveg tíma til þess að gifta okkur um morguninn og fara síðan beint í ferðina. Við ákváðum að hafa enga veislu og hafa bara foreldrana viðstadda.  Við áttum hvorugt efnaða foreldra og vildum ekki fara að setja foreldra okkar í skuldir til þess að halda okkur veislu, en á þessum tíma tíðkaðist það ekki að brúðhjón greiddu sjálf fyrir slíkar veislur. Okkur langaði til þess að gifta okkur af því að við vildum eiga lífið saman, en ekki til þess að halda stóra veislu og fá brúðargjafir. Við höfðum löngu ákveðið það hvenær svo sem giftingin yrði.

Nú þurfti að hafa snör handtök því aðeins voru nokkrir dagar til stefnu. Ég byrjaði á því að hringja í mömmu og segja henni frá þessari stórkostlegu hugmynd. Mömmu varð svo um að hún varð orðlaus og það kom svo  löng þögn í símann að ég hélt að það hefði kannski liðið yfir hana á hinum endanum.
“Núna á fimmtudaginn?” stundi elsku mamma loks upp.
“Já við ætlum sko ekki að hafa neina veislu, fá bara sera Árelíus til að gifta okkur í gömlu Árbæjarkirkjunni og fara svo beint í rútuna og til Keflavíkur í flugið.”
Hún móðir mín vildi alltaf hafa góðan fyrirvara á öllu  og þetta fannst henni bara ekki ganga upp með svo stuttum fyrirvara, en sem fyrr var dótturinni ekki haggað.

Oddur var elstur af systkinum sínum og fyrstur til að giftast. Hann hringdi til mömmu sinnar og sagðii henni frá snilldar hugmyndinni. Henni fannst þetta ekki heldur vera nein snilldarhugmynd og enginn fyrirvari. Hún varð svo vonsvikin yfir því að við ætluðum aðgera þetta með svo miklum flýti og að það yrði engin veisla. Hún krafðist þess þó, þrátt fyrir að tíminn væri naumur, að fá að sjá um að sauma brúðarkjólinn. Til þess fékk hún kjólameistara, sem hún saumaði fyrir, í lið með sér og eins og annað sem hún tengdamamma tók sér fyrir hendur, þá var allt klappað og klárt á tilsettum tíma – ætli hún hafi ekki tekið næturnar í að klára þetta, það kæmi mér ekkert á óvart.

Fimmtudagurinn 25. júní 1964 rann síðan upp bjartur og fagur. Oddur hafði fengið Kristinn vin sinn til þess að sækja okkur og aka  með okkur til kirkjunnar, sem reyndar varð ekki Árbæjarkirkja eins og við höfðum ákveðið heldur hringdi séra Árelíus daginn áður og spurði hvort við vildum ekki bara gifta okkur heima hjá sér því hitt væri bara vesen. Við gátum ekkert sagt við því þó við yrðum skúffuð. Þegar við mættum þá ákvað hann hinsvegar að fara bara með okkur út í kirkju hjá sér – Langholtskirkju og athöfnin færi fram þar.  Það hafa nú líklega ekki margar athafnir verið fámennari þar. Við vorum þó gefin saman og síðan buðu pabbi og mamma okkur og foreldrum Odds í mat í Grillið á Hótel Sögu. Þegar liðið var á máltíðina kom þjónninn með silfurfat með fallegri skreytingu og þykku umslagi. Umslagið reyndist síðan innihalda gjaldeyri sem dugði okkur til þess að kaupa flotta Kodak myndavél og fyrir afganginn gátum við leyft okkur að njóta dvalarinnar í Kaupmannahöfn langt umfram það sem við hefðum annars gert. Þetta var gjöf frá vinnuveitendum mínum. Eftir máltíðina á Sögu ók pabbi okkur niður í Tjarnargötu til þess að taka rútuna með ferðafélögunum suður á Keflavíkurflugvöll. Þessi vika er eina vikan á ævinni  sem ég hef tilheyrt Framsóknarflokknum, en hún varð samt sem áður mjög góð þrátt fyrir byrjunarörðugleika.

Þegar á flugvöllinn var komið og búið að fara í gegnum hermannahliðið þá voru allir bókaðir inn og farangurinn tekinn. Við vorum orðin svo spennt að vera að fara í fyrstu flugferðina okkar, fyrstu utanferðina og í brúðkaupsferð.  Nokkru eftir að allir voru komnir inn í gömlu flugstöðina þá tilkynntu fararstjórarnir að það yrði líklega nokkuð mikil seinkun því vélin væri enn í Gautaborg – biluð, en það væri verið að gera við hana og þá yrði hún send til Osloar, þar sem yrði einnig tekinn hópur, en síðan kæmi hún til Íslands. Það mætti enginn fara út af vellinum af því það væri búið að fara í gegnum hliðið inn á hersvæðið og búið að bóka hópinn inn.

Þetta var heldur betur önnur flugstöð en í dag og bara sæti fyrir brot af hópnum, en skipst var á að fá sér sæti. Margir settust strax að sumbli því mjög ódýrt var að drekka þarna og nú upphófst löng bið. Um kvöldið á meðan biðin stóð yfir var farið með hópinn í kvikmyndahús þarna uppi á velli og það var eins og verið væri að fara með fanga á milli svo vel var passað upp á hópinn.

Um klukkan sex um morguninn lauk loks biðinni og Sterlingvélin var komin, ef vél skyldi kalla því hún var hvílíkt skrapatól að hún hékk varla saman. Við höfðum nú ekki mikið vit á hvernig þetta ætti að líta út, en þeir sem voru vanir að ferðast voru mikið að hugsa um að verða eftir heima, en létu sig þó hafa það að fara með. Það kom hinsvegar til álita hvort hægt væri eða forsvaranlegt að taka þá með, sem höfðu setið á barnum allan tímann og voru varla með meðvitund þegar átti að drösla þeim út í vél þarna í morgunsárið. Sem betur fer átti ég ekki minn mann í þeim hópi.

Á endanum voru allir komnir út í vélina og hún tilbúin að taka á loft til Kaupmannahafnar á vit ævinmtýranna og í langþráða brúðkaupsferð.

Brúðkaupsnóttinni eyddum við sem sagt í gömlu flugstöðinni í Keflavík, þar sem skipst var á að sitja stund og stund til þess að hvíla sig. – Ekki mikil rómantík í því.

Myndina af okkur  sofandi í flugvélinni tók einhver ferðafélagi
og við fengum hana óvænt senda í pósti. Það eiga ekki allir mynd af sér sofandi á brúðkaupsnóttina.

Kaupmannahafnarferðin var þó mjög skemmtileg og hvílíkt ævintýri fyrir okkur að fara í Tívolí, Dýragarðinn, á Lorrý og fleiri staði og meira að segja með ferju yfir til Málmeyjar fyrir utan skoðunarferðirnar í allar fallegu hallirnar. Já þessi fyrsta utanlandsferð okkar var sannkallað ævintýri.

Heim komumst við svo heil á húfi, en flugvélar þessa Sterlingflugfélags fréttum við að hefðu verið kyrrsettar einhvers staðar fljótlega eftir þetta því þær töldust ekki í flughæfu ástandi og stórhættulegar . Síðan fór flugfélagið á hausinn. Þegar við heyrðum þetta þá þökkuðum fyrir að hafa sloppið á lífi.

Hér lýkur þessari upprifjun minni af fyrstu kynnum
okkar unglinganna, sem endaði með brúðkaupi og brúðkaupsferð.

This entry was posted in Gamla ástarsagan og ýmislegt henni tengt... Bookmark the permalink.

8 Responses to 5.hluti – Sérstök brúðkaupsnótt – brúðkaupsfeð

  1. Sigurrós says:

    Mér hefur alltaf þótt þessi mynd af ykkur í flugvélinni alveg yndisleg 🙂 og sagan af óvæntu giftingunni einnig!
    Ég vil hins vegar fá meira að heyra og finnst þú rétt vera farin að hita upp. Get alveg trúað því að fleiri séu sammála og vilji vita hvað ungu hjónin tóku sér næst fyrir hendur. Eignuðust þið síðan ekki tvær dætur, ef ég man rétt…? 😉 hahaha

  2. Stefa says:

    Takk, takk og aftur takk elsku Ragna fyrir að deila þessum fallegu minningum með okkur. Ég fæ svo mikinn kökk í hálsinn og tár í augun – þið eruð svo falleg á brúðkaupsnóttunni ykkar, svo ástfangin.

    *Knús*

  3. Þórunn says:

    Takk fyrir þessa fallegu og rómantísku sögu, ég er sammála Sigurrós, myndin af ykkur er svo falleg, og fágæt sjón að sjá mynd af sofandi brúðhjónum á brúðkaupsnóttina.

  4. Svanfríður says:

    Ég fór að skæla þegar ég las um blómvöndinn frá pabba þínum.Ég gæti ekki afborið að vera ósátt við föður minn. Myndin af ykkur er stórkostleg..passið uppá hvort annað í svefni. Fallegt. Takk fyrir þetta Ragna. En mikið væri nú gaman að heyra meira:)

  5. Katla says:

    Yndisleg mynd af ykkur. Frábært hvernig þið tókuð ykkar ákvarðanir í takt við hjörtun ykkar. Dásamlegt.

  6. Anna Bj. says:

    Takk fyrir þessa fallegu og hugljúfu sögu. Bestu kveðjur á þessum (nýliðna) degi, og lgóðar kveðjur, líka til þíns núverandi. Knús.

  7. Elísabet H Einarsdóttir says:

    Takk fyrir brúðkaupssöguna ykkar, þetta hefur verið heldur betur sögulegur dagur og brúðkaupsnótt. Við höfum verið álíka sjálfstæðar frænkurnar. Ég gifti mig 24. júní fyrir 40 árum og við héldum kaffiveislu með nánasta fólkinu okkar og borguðum allt sjálf og svo tvö út að borða á Hótel Sögu um kvöldið.

  8. Ragna says:

    Gaman að þessu frænka og ég óska þér til hamingju með daginn – Já þetta hefur verið líkt hjá okkur frænkunum.

Skildu eftir svar