…úr skálum reiði minnar.

Mikið óskaplega verð ég reið að heyra aftur og aftur um nýjan  niðurskurðurð í heilbrigðiskerfinu. Nú veit ég að það þarf að skera niður til þess að ná endum saman, en af hverju alltaf í velferðarkerfinu.   Hversu oft koma fréttir um að að t.d sendiráði hafi verið lokað í sparnaðarskyni eða sendiráð hafi verið sameinað t.d.  öðrum skandinavískum sendiráðum til þess að spara fé. Eða ótímabæri kostnaðurinn í sambandi við ESB – það gat svo sannarlega beðið betri tíma. Ég hef heldur ekki heyrt neitt um að Alþingismenn hafi afsalað sér að láta Alþingi greiða fyrir símana sína og allt hitt sem þingmenn fá greiðslufrjálst.

Mig svíður að heyra að það sé verið að ganga að sjúklingum með lögsóknum.  Sjúklingum sem hafa nauðsynlega þurft að fara í  læknismeðferð, en hafa ekki getað greitt fyrir.  Það voru líka fréttir um það í sjónvarpinu í fyrrakvöld að krabbameinssjúklingar (það voru sérstaklega nefndar konur sem hafa farið í brjóstakrabbameinsmeðferð),  hafi þurft að greiða fyrir yfir tvö hundruð þúsund krónur í lyfjakostnað og læknismeðferðir vegna krabbameinsins.

Vitanlega eru margir sjúklingar sem geta greitt slíkar upphæðir, en það má ekki gleyma því að fólk stendur misjafnlega peningalega og það eru í dag allt of margir sem alls ekki geta greitt slíkar upphæðir og þaðan af hærri fyrir læknishjálp, kannski  í viðbót við annan lyfjakostnað sem fólk þarf að bera.

Mér sýnist á öllu að það sé að verða svo, að það sé bara fyrir þá efnuðu að fara í krabbameinsmeðferð því  efnalítið fólk hafi einfaldlega ekki peninga til þess að greiða fyrir slíka meðferð eða lyfin sem því fylgja.

Er ekki til neinn velferðarsjóður sem hægt er að greiða úr til þess að hjálpa fólki til að leita sér lækninga? Væri ekki hægt að setja aukahátekjuskatt sem rynni beint í slíkan sjóð.

Svo er auðvitað alltaf verið að skera niður mótframlag í sjúkraþjálfun, síðast í fréttum í dag. Spurning hvort tannlæknar fái ekki nóg aðgera vegna þess, því nú er ekkert hægt að gera nema bara að bíta á jaxlinn þegar fólk er frá af verkjum sem sjúkraþjálfun hefði annars linað.

Ég varð að fá að ausa þessu úr skálum reiði minnar því mér finnst að það sé örugglega hægt að skera niður eitthvað annað hjá því opinbera en að níðast sífellt á sjúkum og öldruðum.

Hvílíkt velferðarkerfi.


Comments

2 responses to “…úr skálum reiði minnar.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *