Martröðin á ströndinni:

Við bjuggum í Surrey á Englandi í tæp tvö ár 1975 og 1976 og þegar þessi frásögn gerðist var Guðbjörg fjögurra ára, eins og hún er á myndinni hérna fyrir neðan.

Við fengum mikið af gestum þennan tíma sem við vorum þarna úti og nú voru tengdamamma og Linda mágkona, sem þá var bara unglingur, í heimsókn hjá okkur.  Við ákváðum að fara með þær mæðgur í gott ferðalag og ferðuðumst um sveitirnar fyrir vestan okkur m.a. í gegnum Cotswolds og Sommerset og komum til Bath.  Daginn sem við ókum í gegnum Sommerset,  komum við að ströndinni við Weston Super Mare upp úr hádegi. Við ákváðum því að nota  tímann  svona til klukkan fjögur og  flatmaga á ströndinni. Við myndum þá ná á náttstað  í „Bed & Breakfast“ á skikkanlegum tíma.

Þessa lesningu fann ég um tiltekna strönd:

“Miles of Golden Sands

Weston super Mare is fortunate enough to enjoy one of the longest and naturally occuring beaches in the UK. It is no wonder that tens of thousands of tourists flock to Weston each month to enjoy the golden sands.“

Það var alveg yndislegt að baða sig þarna í sól og sjó og Guðbjörg, eins og hún var vön, fann strax krakka sem voru að leika sér í stórum sandbing sem var þarna nokkuð nálægt. Við leyfðum henni að vera með krökkunum þarna, en við vorum alveg stöðugt að standa upp og gá að henni. Það  hagaði þannig til á þessari fleiri, fleiri kílómetra löngu strönd, að fremst í fjöruborðinu mátti ekki vera með bíla og þar var nokkuð breitt belti sem var alveg autt svæði, en ströndin þar fyrir ofan skiptist þannig að það kom belti þar sem mátti hafa bíla en síðan við hliðina á því og að næsta bílasvæði var autt belti þar sem fólk lá í sólbaði.  Við vorum á slíku auðu svæði á milli bílastæða, en ströndin var full af fólki og bílum á þessum fallega sólskinsdegi.

Á einhverjum tímapunkti líklega svona um tvöleytið þá ákváðum við að sækja Guðbjörgu og hafa hana hjá okkur svo það væri auðveldara að fylgjast með henni.

Hér erum við á ströndinni í byrjun.

Pabbi Guðbjargar fór til þess að ná í hana til krakkanna. Þegar hann kom til baka spurði hann hvar Guðbjörg væri. Guðbjörg ?, er hún ekki með þér? Jú  hún ákvað bara að fara hinu meginn við sendibílinn hérna fyrir ofan en ég kom hérna megin. Við fórum að skima en það var hvergi neina Guðbjörgu að finna. Hvernig í ósköpunum gat barnið gufað svona upp?

Það varð nú uppi fótur og fit og við þutum af stað að leita. Hræddust var ég um að hún hefði farið ein niður að sjó svo við fórum alveg að sjónum og leituðum þar án árangurs. Þegar við vorum búin að leita í nokkurn tíma þá mundi ég að þegar við fórum með Guðbjörgu í sandbinginn þá sáum við skilti á húsi þar sem á stóð „Lost Children“. Þangað lá því leiðin næst, Okkur var vel tekið og gáfum þær upplýsingar sem um var spurt og að því loknu var okkur sagt að undantekningarlítið finndust börnin innan við hálftíma því þau færu að gráta þegar þau uppgötvuðu sjálf að þau væru týnd og þá væri komið með þau þarna. Við skyldum bara koma eftir hálftíma og þá myndi hún örugglega bíða þarna eftir okkur. Við leituðum því áfram sjálf en komum svo eftir hálftíma, en engin Guðbjörg var komin.  Við komum svo á hálftíma fresti þarna á skrifstofuna, en aldrei var Guðbjörg þar. Við báðum Guð að hjálpa okkur að finna barnið bæði hátt og í hljóði og vorum að bugast af hræðslu því margar óhuggnarlegar hugsanir þutu í gegnum hugann og fólkið á skrifstofunni hafði sagt okkur í byrjun að það hefði bara einu sinni komið fyrir að barn var komið inn í borg og fannst ekki fyrr en daginn eftir. Við voguðum okkur ekki að spyrja í hvaða ástandi það hafi þá verið . Okkur var sagt að svona uppúr klukkan fimm þá yrðu fáir eftir á ströndinni og þá færu leitarflokkar um til þess að athuga hvort það finndist nokkuð óeðlilegt.

Tíminn leið og klukkan var orðin fimm. Fólk var nú farið að tínast í burtu af ströndinni og bílum hafði fækkað til muna og var enn að fækka. Við héldum nú orðið bara til á skrifstofunni því Guðbjörgu var hvergi að finna.  Loks heyrðum við símtal og konan leit alltaf á okkur og kinkaði sífellt kolli svo kallaði hún og spurði hvort það gæti verið að hún væri frá Íslandi?  Jú einmitt – nú glæddist vonin.

Þegar símtalinu lauk þá kom í ljós að  allt benti til þess að elsku stelpan okkar væri fundin. Þeir sem hringdu voru eftirlitsfólkið. Við sjoppu átta kílómetra í burtu var stelpuhnokki búin að vera á vappi í nokkurn tíma án þess að nokkur fullorðinn virtist vera með henni. Hún væri glöð og finndist hún ekkert vera neitt týnd. Það kæmi bíll eftir smá stund með hana.  Ég þóttist nú þekkja þarna dóttur mína sem talaði við alla og var alltaf glöð og óhrædd.

Bíllinn kom og jú, jú skoppaði ekki Guðbjöprg mín brosandi út úr bílnum með ís í hendinni. Við vorum víst eitthvað þung á brúnina og miður okkar þegar hún kom til okkar, og þegar ég faðmaði hana og sagði  „Guði sé lof fyrir að þú ert fundin“ þá sagði mín “ Þið eruð nú ekkert glöð á svipinn að sjá mig“ .  Fólkið sem kom með hana sagði hana hafa verið að segja þeim alls konar sögur á leiðinni en þau hefðu nú ekki trúað því þegar  hún sagðist vera frá Íslandi. Við sögðum að það væri alveg rétt hjá henni. Við værum bara búin að vera í tæpt ár í Englandi. Þau ætluðu ekki að trúa því þar sem barnið talaði alveg „perfect“ BBC ensku.

Þegar við fórum svo að spyrja Guðbjörgu hvernig hún hefði farið að því að týnast svona þar sem hún hafi farið frá því að leiða pabba sinn og  viljað fara hinu megin við bílinn og svo báðum við hana að sýna okkur hvernig hún fór hinumegin við bílinn. Hún hafði þá farið beint af augum og ekki beygt niður með hliðinni á bílnum heldur haldið bara ótrauð áfram framhjá skottinu á næsta bíl og næsta, yfir öll auðu svæðin og öll bílastæðin alveg yfir á hinn enda strandarinnar. Alltaf til hliðar áfram og áfram og skildi ekkert í því hvar við værum. En hún sagðist ekkert hafa verið týnd – bara ekki fundið okkur strax .
„Fórstu ekkert að gráta þegar þú fannst okkur ekki“
„Nei ég vissi að þið mynduð koma og finna mig.
“ Nei ekkert þreytt“  svaraði hún líka næstu spurningu- þó hún væri búin að ganga  8 kílómetra í burtu frá okkur.  ´
„Ég hitti líka … “  og svo fengum við sögurnar af því sem hafði skeð á þessum tíma. Hún þurfti að segja okkur frá öllum sem hún hitti og svo og svo .. og einhver hafði gefið henni nammi og annar ís.

Já hún Guðbjörg mín var sko alveg hæst ánægð með daginn,  á meðan það tók okkur langan tíma að ná niður hjartslættinum og helst hefðum við þurft áfallahjálp. Tengdamóðir mín gleymdi þessu aldrei og sagði að sér hafi ekki nokkurn tíman liðið eins illa á ævi sinni og  þennan dag. Sama má segja um okkur foreldrana.

 

 

 

This entry was posted in Árin í Englandi.. Bookmark the permalink.

12 Responses to Martröðin á ströndinni:

  1. Eydís says:

    En hvað það er gaman að lesa bloggið þitt Ragna 🙂 Þetta hlítur að hafa verið rosalegt að lenda í þessu, ég held ég hefði sturlast ef ég hefði lent í því að týna barni á ströndinni og í svona langan tíma úffff. En góður endir á þessari skemmtilegu sögu 🙂

  2. Sigurrós says:

    Eftir að ég varð sjálf mamma þá varð þessi saga miklu hræðilegri en áður! Ég segi eins og Eydís, ég hugsa að ég hefði sturlast í þessum sömu sporum…!

    Ragna Björk er pínu eins og frænka sín hvað það varðar að spjalla við alla um allt. Þegar við fórum síðast í bakarí, þurfti hún að segja viðskiptavininum við hliðina á okkur nákvæmlega hvað við ætluðum að kaupa og í Hagkaup í gær var hún að segja afgreiðslustúlkunni hvað viðkomandi væri í fallegum kjól. Hún þurfti líka að fá að vita hvað konan í skódeildinni hét. Mér finnst þetta auðvitað alveg ferlega krúttlegt, en ég er að spá í að bíða með allar strandferðir í nokkur ár… 😉

  3. Ragna says:

    Takk fyrir að leggja orð í belg Eydís og Sigurrós. Já stelpur mínar, þarna hef ég komist næst því að sturlast. Tengdamamma sagi að hún hefði haldið um tíma að hún fengi hjartaáfall. Þetta er lengsta strönd sem ég hef komið á og sú breiðasta frá götu niður að sjó.

    Sigurrós mín ætlar hún nafna mín að verða svona „Chatterbox“ eins og frænka var kölluð í Englandi? Það er auðvitað bæði gaman og hættulegt.

  4. Guðbjörg says:

    Ég get sagt ykkur frá fyrstu hendi að þetta var mjög ævintýralegur dagur, það er ekki á hverjum degi sem maður fær að ferðast um í ísbíl. Bíðið bar þar til sagan um Guðbjörgu sem týndist í Tívolí í Kaupmannahöfn kemur ;0) Annars á ég 3 uppátækjasöm börn sjálf svo ég hef fengið þetta borgað!

  5. þórunn says:

    Ragna mín, ég fæ bara dúndrandi hjartslátt við að lesa þessa frásögn, þetta hefur verið erfiður dagur og ég skil alveg að þið hafið ekki verið glaðleg á svipinn þegar barnið kom loksins, þó þið hafið auðvitað verið mjög glöð, en það er á svona stundum sem foreldrana lalgar bæði skamma barnið og knúsa það á sama augnabliki. En allt er gott sem endar vel.

  6. Ragna says:

    Aha Guðbjörg mín, þessu var ég búin að gleyma (Hvernig getur maður annars gleymt svona) Nú er þetta komið á minnislistann.

    Já Þórunn mín, það er einmitt það sem gerist að maður veit varla hvort maður á að skamma eða knúsa þegar tilfinningarnar eru að bera mann ofurliði.

  7. Anna Bj. says:

    Þetta var bara „svakalega spennandi“ að lesa þetta, en auðveldara um að tala en í að komast!!
    Ég skil þessar tilfinningar fullkomlega, því við týndum eldri dótturinni í Tívolíi í Köben. Ég trompaðist og æddi um, þarna var æði margt um manninn, en pabbi hennar stoppaði og hugsaði og sneri síðan við og fann hana í vandræðum með konu sem vildi endilega tala við hana, en stelpan ósamvinnuþýð og skildi mest lítið í dönskunni. Eftir þetta sleppti hún mér aldrei úr augsýn, t.d. ef fór með hana í stórmagasín mátti ég ekki fara hinum megin við fatastandana. Já maður var feginn þegar telpan fannst, hún var um 2 1/2 árs og fljót að hlaupa.

  8. Charlotta says:

    skemmtileg frásögn en ég hefði nú farið á taugum. Gaman að sjá Lindu Pé þarna á unglingsaldri og strax farin að pósa:)

  9. Anna Sigga says:

    Alltaf gaman að lesa skrifin þín, Ragna mín, en mikið skil ég sálarangist foreldranna. Hef upplifað það á eigin skinni.
    Kveðja og knús.

  10. Ragna says:

    Þakka ykkur sem hafið skrifað í orðabelginn hjá mér. Alltaf gaman að fá línu.

  11. Svanfríður says:

    Ég fékk sting í magann við lesturinn…ég held ég hefði farið yfrum við að finna ekki barnið. En gott að hún átti minnisstæðan dag;)

  12. Katla says:

    Ofsalega falleg þessi telpa á efstu myndinni : )

Skildu eftir svar við Anna Sigga Hætta við svar