Alveg alsæl.

Nú er ég búin að  skrifa  ensku vinum mínum og  ganga frá því sem á að fara til útlanda og senda sumt  og frímerkja allt saman, svo nú er bara að setja í póstkassa einhvern daginn.

Eins og það er gaman að búa til og skrifa á jólakortin þá er það þessi frágangur í lokin sem tekur oft tíma, sérstaklega bréfaskriftirnar til erlendu vina minna því í öðrum heyri ég alltaf öðru hvoru eða er í sambandi við á Facebook.  Mér finnst alltaf svo gott þegar þetta er allt orðið klappað og klárt og þegar jólagjafirnar eru allar tilbúnar því þá er hægt að dútla eingöngu í því sem mann langar mest til.

Annars hef ég verið mjög dugleg að slæpast á þessari aðventu og þessi vika hefur flogið áfram í eintómum skemmtilegheitum. Búin að fara á tónleika, í heimsóknir, fá konur í heimsókn til mín,  fara í saumaklúbb, skoða jólaþorpið í Hafnarfirði og borða hangikjöt í Ikea . – Ha, ha, ég bara varð nú að bæta þessu síðasta við, því okkur datt þessi snilld í hug í kvöld þegar ég var búin að fara á pósthúsið og ganga síðan frá kortunum mínum, því þá nennti ég ekki að spá í það hvað ég ætti til að elda úr, hvað þá að ég nennti yfirleitt að elda matinn. Já IKEA bregst aldrei á svona ögurstundum.

Nú sé ég að klukkan er langt gengin í eitt svo það er víst best að koma sér í rúmið.

Njótum helgarinnar – þetta er svo dásamlegur tími.

This entry was posted in Hugleiðingar mínar. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar