Handbolti – kvef og svolítið óvænt.

Nú heyri ég með öðru eyranum lýsingu á handboltaleik Íslands og Ungverjalands. Ég er svo stressuð þegar ég er að horfa á þessa leiki, sérstaklega þegar illa gengur,  að ég bara get ekki setið kyrr og horft á þetta í sjónvarpinu.  Ég byrja yfirleitt að horfa , stend svo upp og  vappa fyrir framan tækið, síðan fer ég fram í eldhús þar sem sjónvarpsskjárinn speglast í glugganum og kíki á það þar. Ótrúlegt hvað maður getur platað sjálfan sig  með því að halda að það sé eitthvað betra vera í smá fjarlægð.

Nú sit ég bara við tölvuna, því ég ákvað að byrja ekki á því að setjast inn í stofu til að horfa á strákana  að þessu sinni – Ég kíki kannski öðru hvoru fram og ef vel gengur þá færi ég mig auðvitað yfir í stólinn fyrir framan skjáinn og tala um hvað þeir eru æðislegir strákarnir okkar.   Ég má hinsvegar ekki við því núna að fara að æsa mig of mikið, því ég er svo kvefuð að ég held að hausinn á mér myndi springa ef ég færi að stressa mig.  Er það ekki annars alveg magnað hvað það getur sett allt á annan endan í þjóðfélaginu – aftur  og aftur, að horfa á menn kasta á milli sín þessari litlu boltatuðru. Það væri annars fróðlegt að vita hvort sjúklingum fjölgar á hjartadeildinni þegar „Strákarnir okkar“ eru að keppa.

Já ég fór að næla mér í fjárans kvef  og það nánast um leið og við vorum búin að taka þá skyndiákvörðun, að bóka okkur með 10 daga fyrirvara  í sólina. Já við ætlum að láta það eftir okkur að fara í betra loftslag.
Læknirinn minn setti mig strax á fúkkalyf  af  því ég fæ svo oft í lungnapípurnar þegr ég fæ kvef og nú hef ég viku til stefnu að  losna við kvefið.  Mér datt í hug hvort ég hefði smitast af Freyju Sigrúnu í síðustu viku, en læknirinn hélt að það gæti ekki verið að ég hafi neitt smitast af vírusnum sem hún fékk, því það eru yfirleitt börn sem smitast af honum, enda hef ég engan hita. En maður er nú svoddan unglamb, að ég gæti alveg eins tekið upp á því að fá einhverja barnapest  – góður þessi og sjálfsagt ekki margir sammála mér núna -,  en ég held þó í alvöru að læknirinn hafi nú rétt fyrir sér.
Það verður alveg dásamlegt að komast með gigtarfjárann út í sólina og skilja hana þar eftir. Haukur verður líka feginn að komast aðeins í burtu frá snjómokstrinum sem hann hefur séð um  hérna  í allan vetur. Hann mokar, mokar og mokar meiri snjó og enn meiri snjó  því næsta morgun, ef ekki fyrr,  er eins og ekkert hafi verið mokað. Þetta er nú að verða nokkuð löng og  ströng snjóatíð.

Jæja nú er kominn hálfleikur og best að fara fram og kanna hvernig leikar standa í tuðrukastinu – Váá blessaðir strákarnir okkar eru fjórum mörkum yfir.  Nú vaknar hjátrúin hjá mér og ég ímynda mér að ef ég horfi ekki á leikinn þá gangi þeim vel, en ef ég fari inn í stofu að horfa á seinni hálfleikinn þá fari allt að ganga illa.  Ja hérna hvað það er vandlifað í henni veröld.
Ég ætla alla vega að ljúka þessu pári núna – hvað sem ég geri nú í framhaldinu.

Í bókinni um hamingjuna opnaði ég á þessu:

Hamingjan sjálf er sérstakt gleðiefni.
Ef maður er hamingjusamur
verður hver dagur hátíð.

 

This entry was posted in Hugleiðingar mínar. Bookmark the permalink.

2 Responses to Handbolti – kvef og svolítið óvænt.

  1. Katla says:

    Vonandi losar þú þig við kvefið einn, tveir og sextán! Og svo í sólarsæluna; frábært!

  2. Láttu stofuna vera Ragna!!! Gott fyrir ykkur að komast í sólina. Kærust í kotið.

Skildu eftir svar