Þegar Sigurrós kom heim úr kennaraferðinni til Englands sagðist hún hafa setið hjá enskri konu í flugvélinni, svona á mínum aldri. Sú sagðist vera með vinkonu sinni og þær væru líka kennnarar og væru að koma í vetrarferð til Íslands. Sigurrós fannst gaman að spjalla við hana. Konan sagði henni að þær væru að fara norður í land til að freista þess að sjá norðurljósin og svo hefðu þær bókað sig hjá bónda sem bauð heim í “Inspired by Iceland”, en það hefði ekkert svar verið komið frá honum þegar þær fóru af stað svo ekkert yrði úr því. Sigurrós ákvað þá að taka málin í sínar hendur og bauð þeim þá bara að koma heim til sín í staðinn. Hún gaf konunni upp símann sinn og sagði henni að hringja þegar þær kæmu að norðan, sem og þær gerðu. Nema að í millitíðinni sagði hún mér frá þessu og ég sagðist strax bara bjóða þeim hingað, enda væri ég ekki með börn eða í vinnu svo þetta yrði ekkert mál hún og þær kæmu bara til mín í laxasúpu og rjómapönnukökur á eftir.
Sigurrós sótti þær svo út á Loftleiðir í kvöld, en áður fór hún með Freyju til læknis því hún var komin með svo háan hita eina ferðina enn og viti menn hún er aftur komin með lungnabólgu. Sigurrós skilaði svo Freyju heim til Jóa eftir læknisferðina, áður en hún sótti konurnar og ætlaði svo að sækja lyf sem Freyja átti að fá þegar hún væri búin að skila konunum til mín.
Til þess að gera langa sögu stutta þá komst Sigurrós auðvitað ekkert aftur hingað, því þetta lyf var hvergi til og hún þurfti svo aftur til læknisins til að fá annað lyf því þegar hún hringdi var henni sagt að Freyja yrði að fá lyf strax og hún yrði að fá handa henni annað. Sigurrós missti því af matnum og því að vera með konunum í kvöld, þær skyldu þetta hinsvegar fullkomlega og sögðu að auðvitað yrði barnið að hafa forgang. Þær voru hins vegar hérna í góðu yfirlæti eins og við hefðum þekkst alla ævi og eftir tæpa fjóra klukkutíma fóru þær að hugsa sér til hreyfings og ég skilaði þeim svo aftur á hótelið.
Ég fékk því tækifæri til að vera landkynning í “Inspired by Iceland” og naut þess að hafa þessar konur hjá mér í kvöld og það var svo gaman að spjalla við þær um alla heima og geyma. Ótrúlegt hvað það er auðvelt að komast í samband við alveg bláókunnugt fólk sem maður hefur aldrei séð, aldrei heyrt, ekki skrifast á við, þær bara komu í heimsókn og tíminn bókstaflega flaug. Haukur fór í bíó og rétt náði að heilsa og kveðja í útidyrunum þegar ég var að fara með þær.
Það vantaði auðvitað mikið að Sigurrós, sem átti nú hugmyndina að þessu, gat ekki verið með okkur og henni þótti það sjálfri svo leiðinlegt að skila þeim bara hingað og verða svo að rjúka af stað strax aftur og geta svo ekki einu sinni komið og kvatt þær, en svona er bara lífið – ekki alltaf hægt að hafa stjórn á ófyrirséðum aðstæðum.
Þetta er nú það sem ég var svo spennt að gera í kvöld og gaman hvað þetta tókst vel, þrátt fyrir allt.
Leave a Reply