Enn ein

Já nú er enn einni góðu vikunni að ljúka og er óhætt að segja að hún hafi flogið eins og þær fyrri. Ég var að hugsa um það hvernig tímaskynið breytist með árunum. Hérna áður fyrr var maður alltaf að bíða eftir því að verða nógu gamall til að gera hitt og þetta og tíminn var svo endalaust lengi að líða.  Nú er maður í þeirri stöðu að allt kemur á fljúgandi ferð og hver dagur, vika, mánuður og ár þeysist áfram svo maður rétt nær að hanga í, einmitt núna þegar maður vill halda svolítið fast í tímann og láta hann ekki líða svona hratt.
Annars má alltaf velta vöngum yfir því hvort betra er að  tíminn líði hratt – sem óneitanlega er merki þess að það er svo gaman að lifa og mikið að gerast, eða að tíminn líði hægt – sem á hinn bóginn er að öllum líkindum vegna þess að manni hundleiðist og dagarnir svona dragast einhvernveginn áfram.  Eftir þessar vangaveltur þá kýs ég heldur lifa lífinu lifandi og hratt,  en svo hægt og rólega að mér hundleiðist.  –  Þessar vangaveltur ruddust bara fram þegar ég byrjaði að skrifa en voru sko alls ekki  það sem ég ætlaði mér að setja í dagbókina mína, heldur var það þetta, sem ég ætlaði að setja inn:

Fyrsta myndin er af matnum sem við Haukur fengum þegar við
fórum út að borða s.l. sunnudagskvöld fyrir gjafakort sem Haukur lumaði á.

Síðan fór ég í vikunni á Generalprufu á Grease, sem Hörðuvallaskóli setti upp
í tilefni af árshátíð eldri bekkinga skólans. Karlotta fór með hlutverk Sandie og hún sést þarna fyrir miðri myndinni.
Það var gaman að fá það hlutverk að setja rúllur í Karlottu mína svo hún gæti verið með  gamaldags krullur í hárinu,
eins og tíðkaðist á Grease tímanum, en í lok söngleiksins átti hún að hafa hárið slegið.

Svo bauð Ragna Björk ömmu að koma á balletsýningu í Fífuna og amma tók
þessa mynd af Rögnu Björk og tveimur vinkonum hennar í lok sýningarinnar.
Það er svo gaman að fá að sjá hvað  ömmu börnin mín eru að  taka sér fyrir hendur –  og fætur.

Já það er óhætt að segja það hafi verið nóg að gera í vikunni, því í gærkveldi fórum við í fertugsafmælisveislu til Gústu frænku stelpnanna minna, fengum góðar veitingar, hittum marga af föðurfólki stelpnanna minna og skemmtum okkur vel.

Í dag ókum við austur á Eyrarbakka í fermingarveislu Ólafar Eirar, en ég er langömmusystir hennar. Þar voru einnig miklar krásir á borðum og gaman að hitta skyldfólkið mitt.  Myndavélin varð því miður eftir heima svo engar eru myndrænu heimildirnar .

Á skírdag er svo næsta fermingarveisla, en það eru þrjár eftir á þessu vori.

Svo allt sé nú upp talið þá hélt ég líka saumaklúbb í vikunni svo það er mikið búið að láta ofan í sig af kalorium og lítið lát á slíku á komandi vikum. Nú þyrfti maður að koma sér í dansgírinn, því ekkert er skemmtilegra og betra til þess að ná af sér kílóunum en að dansa þau af sér.

Nú loka ég dagbókinni minni og skríð upp í rúm með spennandi bókina sem bíður á náttborðinu – ekki þarf ég líklega að bíða lengi eftir honum Óla Lokbrá blessuðum, sem venjulega lokar á mér augunum eftir eina eða tvær opnur, sama hvað bókin er spennandi.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

2 Responses to Enn ein

  1. Anna Sigga says:

    Flottar ömmustelpurnar þínar, Ragna mín, og skemmtilegt að lesa pistlana þína! Það hlýtur að hafa verið gaman á sýningunum. Og matarmyndin er einkar girnilega á að líta. Knús á þig og alla þína fjölskyldu.

  2. Katla says:

    Um að gera að njóta líðandi stundar, hvort sem hún flýgur við skemmtileg mannamót eða lötrar áfram heimavið.

Skildu eftir svar