Af hverju ekki ég – svona er bara lífið.

Ja kæru vinir það er margt skrýtið í kýrhausnum og það er líka margt skrýtið í mannslíkamanum.  Hvorttveggja er sköpunarverk sem við ráðum engu um hvernig eru af Guði gerð.  Það eina sem við ráðum yfir er viskan sem okkur hefur verið gefin til þess að fara vel með líkamann sem okkur hefur verið gefinn til margvíslegrar notkunar og sem hulstur til að geyma í okkar sál og hjarta.

Ég tel mig hafa farið mjög vel með minn líkama og aldrei mettað hann af reyk, ofáti eða áfengi í gegnum tíðina og farið með hann í allar skylduskoðanir svona eins og ég hef gert með bílinn minn, en ég hef ekki frekar en hann komist viðhaldsfrí í gegnum lífið, enda ekki sanngjarnt að fara fram á það.  Auðvitað höfum við bæði látið á sjá eftir margra ára notkun og þurft að fara í ýmsar viðgerðir eins og við er að búast.
Ég hef verið mjög heppin með þær viðgerðir sem  hafa verið gerðar á mínum líkama og einnig með læknana sem hafa framkvæmt þær. Í tveimur þeirra þurfti snör handtök  þegar viðgerðin var upp á líf og dauða,  en allt gekk vel því líkami minn vildi ekki gefast upp  heldur halda áfram að nýtast eiganda sínum.

Segir ekki máltækið „Allt er þá þrennt er“, sem þýðir að enn á ég fleiri líf eins og kötturinn.   Nú ætla ég að nota mér það því ég stend á þeim tímamótum í dag að ég hef fengið krabbamein í brjóstið og það á að fjarlægja strax og allt liggur klárt fyrir. Ég á enn eftir að fara í segulsneiðmynd, en hún er að tefjast af því ég hafði lent inni á spítala á Tenerife og þurfti því að fara fyrst í svokallað Mósapróf sem er skylda að fara í ef maður hefur lent inni á sjúkrahúsi í öðru landi innan sex mánaða. Ef  þessi Mósaprufa kemur út neikvæð og mér hagstæð getur ferlið haldið áfram og  styttist þá í aðgerð.

Mér hefur verið gefinn sá styrkur, eins og svo oft áður að síðan ég vissi þetta  um miðjan mánuðinn hef ég verið alveg sallaróleg og er enn.  Ég ætla ekki, ef ég fæ einhverju um það ráðið,  að eyðileggja mig á því að taka út dramatík og kvíða fyrirfram, því ég er ekki vön slíku.  Ég vil ekki eyðileggja líf mitt á því að kvíða einhverju sem er alveg óljóst hvort ástæða er til að kvíða.  Ég veit ekkert um framhaldsmeðferðina fyrr en eftir skurðaðgerð og ef ég þarf að standa frammi fyrir erfiðu framhaldi þá tekst ég við á það þegar að því kemur. Nú er þetta í höndum Guðs og góðra lækna – og ekki er verra að eiga dásamlega fjölskyldu og vini sem halda þétt utan um mig.

Ég ætla líka að hafa Pollýönnu með mér á þessu ferðalagi því hún finnur alltaf ljósu punktana og vonandi hjálpar hún mér að tapa ekki húmornum því hann er líka svo góður félagi og ég vil að hann fái að njóta sín. Ég býst við að setja öðru hvoru inn í dagbókina mína og vona að þau Pollýanna og húmorinn hjálpi mér til þes að geta haft hana á jákvæðu nótunum.  Svona verkefni er hinsvegar alveg óskrifað blað í minni sjúkrasögu svo ég veit ekkert hvernig sálarástand mit verður – ég veit bara hvernig ég vil að það verði.

Nú skín sólin og hér skal bjartsýnin ráða þangað til og ef annað kemur í ljós. – Eitt er víst, ég ætla að koma sem sigurvegari úr þessari glímu.

Þið sem kannski kíkið hérna inn – endilega smellið á „Leave a comment“ og leyfið mér að sjá hverjir koma hérna í heimsókn.

This entry was posted in Helstu fréttir., Hugleiðingar mínar. Bookmark the permalink.

36 Responses to Af hverju ekki ég – svona er bara lífið.

  1. Svanfríður says:

    Ragna mín. Eitt er víst að þú ert með gott hugarfar sem og viðmót og það á sko pottþétt eftir að koma þér vel.Annars veit ég ekki hvað ég á að segja. Ég sendi þér styrk, faðmlag og allt það góða sem til er. Takk fyrir að deila þessu með okkur. Kærar kveðjur úr Cary, Svanfríður.

  2. Sigrún says:

    Hugsa mikið til þín Didda mín og sendi góða strauma. Kærar kveðjur, Sigrún

  3. Hanna says:

    Elsku Ragna mín ég sendi þér hlýjar hugsanir og strauma að norðan. kær kveðja Hanna G.

  4. Guðbjörg Stefáns says:

    Knús til þín kæra Ragna. Sendi þér hlýjar hugsanir. Kær kveðja.

  5. Olof Loa Jonsd. says:

    Takk fyrir að deila þessari reynslu með okkur Ragna mín, gangi þér vel alla leið, knús og kv.

  6. Hrafnhildur Guðmundsdóttir says:

    Elsku Ragna mín Guð gefi þér styrk í þessum erfiðu aðstæðum.
    Þú ert alltaf svo sterk og dugleg.
    Kær kveðja
    Hrafnhildur

  7. Sigurveig says:

    Elsku Ragna mín – ef einhver kemst í gegnum svona á jákvæðninni og róseminni þá veðja ég á þig. Guð geymi þig og ekki efast ég um að hann standi með þér í þessari baráttu alla leið – hann passar upp á sína.
    Stórt knúz og hlýjar kveðjur – Sivva

  8. Ágústa says:

    Leiðinlegt að heyra Ragna mín, Pollíanna fer með mann langar leiðir, sendi þér hlýja og sterka baráttustrauma, knús á þig

  9. Linda says:

    Elsku Ragna mín, ég sendi þér baráttustrauma og styrk til að komast í gegnum þessi göng. Þó efast ég ekki um að allt fari vel.
    stórt knús til þín úr Sandgerðinni

  10. Ragna says:

    Elsku stelpur mínar þið eruð alveg dásamlegar – Meðal annars fyrir ykkur er ég mjög sigurglöð og æðrulaus.
    Þetta er því miður orðinn svo algengur sjúkdómur að ég kippi mér ekkert upp við það að vera nú næst í bardagaröðinni. Það sem er breytt frá fyrri árum er það, að í dag er hægt að tala um þetta eins og hvern annan sjúkdóm, tæpitungulaust en áður fyrr var þetta svo mikið tabú að það var bara hvíslað um slíkt í hornum. Ég vil ekki fara í gegnum mitt krabbamein þannig, heldur vil ég geta hafa um það opna umræðu tæpitungulaust.
    Sendi knús til ykkar allra.

  11. Pálína says:

    Elsku Ragna mín. Svona getur lífið verið kúnstugt.
    Ég efa ekki að þú kemst í gegn um þetta mótlæti eins og önnur sem þú hefur tekist á við í lífinu. Ég er svo sammála þér að það sem skiptir mestu máli er jákvæðnin, bjartsýnin og trúin á að allt fari vel. Þetta hugarfar hefur reynst mér vel undanfarna mánuði og ég er sannfærð um að hugurinn getur áorkað miklu. Lífið er allt of stutt til að láta áhyggjur og kvíða stjórna því. Þökkum bara fyrir daginn í dag, trúum því að morgundagurinn verði frábær, og hlökkum til framtíðarinnar. Meigi allir góðir vættir vera með þér og veita þér styrk.
    Þegar ég greindist í haust þá hvarflaði að mér hugsunin – af hverju ég? Fljótlega tók önnur hugsun við – af hverju EKKI ég? Við eigum jú ekkert víst í þessu lífi. Baráttukveðjur, þetta fer allt vel.

    • Ragna says:

      Ég hef einmitt hugsað til þín Pála mín sem ert í miðjum slíkum bardaga. – Ég veit að þú hefur farið í gegnum þetta með jákvæðu hugarfari. Jákvætt hugarfar og vera ekki með neinar óþarfa vangaveltur fyrirfram er það sem skiptir einmitt mestu máli.
      Kær kveðja austur yfir heiði.

  12. Ólöf Ásdís says:

    Gangi þér sem allra best í þessu verkefni kæra Ragna. Hugarfarið er aðdáunarvert. Kveðja frá okkur hinum megin við veginn.

  13. Guðbjörg Oddsdóttir says:

    Elsku mamma

    Við systurnar höfum auðvitað lært það af þér í gegnum tíðina að maður tekst á við þá hluti sem á vegi manns verða með opnum huga og æðruleysi. Ef að svona sterk kona eins og þú glansar ekki í þessu þá veit ég ekki hvað 🙂 Mundu bara að það er allt í lagi að bogna þó maður brotni ekki, því það þykir svo mörgum vænt um þig og vilja endilega aðstoða, ef þeir geta. Þú verður alltaf átrúnaðargoðið mitt og fyrirmynd, lots of love and kisses.

    frumburðurinn

  14. Ragna M says:

    Elsku nafna mín.Við hérna fyrir norðan sendum þér okkar bestu hugsanir,bænir og baráttukveðjur. Einnig sendum við kveðjur til Hauks sem mun standa með þér eins og klettur líkt og fjölskyldan og margir aðrir. kv Ragna M

  15. Hafdís says:

    Ragna mín. Sérkennilegt að fá þessa frétt af þér í dag. Var mjög svo hugsað til þín í morgun þegar Grétar sagði mér frá draumi sem hann dreymdi í nótt sem tengdist þér. Hugheilar baráttukveðjur frá okkur.
    Kveðja, Haddý

  16. Eygló Rúnarsdóttir says:

    Elsku Ragna
    Ég veit að þín létta lund og bjartsýni mun verða þér gott veganesti í þessari vegferð sem þú nú tekst á hendur. Ég sendi alla mína sterkustu strauma og kraft til þín.

    Eygló

  17. Linda Jensen says:

    Sendi þér risa stórt knús og góða strauma, gangi þér vel Ragna mín

  18. Óðinn says:

    Eigðu gleðilegt sumar Didda mín.)

  19. þórunn says:

    Ég verð að játa að mér var mikið brugðið þegar ég las bréfið frá þér á FB, en svo sá ég og veit, að þú tekur þessu með réttu hugarfari og ert heppin hvað þú hefur sterkt og kærleiksríkt fólk í kringum þig. Það var lærdómsríkt fyrir okkur bloggvinkonurnar að fylgjast með Gullu okkar, þú kemst í gegnum þetta eins og hún, með jákvæðu hugarfari og glettni. Kær kveðja frá okkur Palla.

  20. Helgi Birgisson says:

    Þú stenst þetta próf eins og önnur. Gangi þér vel.

  21. Sigurrós says:

    Elsku mamma,

    Mér finnst svo frábært að þú skulir nota bloggið þitt til að ræða veikindin því það er svo gott að geta talað sig í gegnum vandamálin. Ég sé að fjölmargir senda þér góða strauma og hugsanir og veit að enn fleiri en hér hafa skrifað eru að hugsa fallega til þín einnig.

    Það hvað þú ert æðrulaus og róleg yfir þessu smitast síðan alveg yfir á okkur hin og maður verður sjálfkrafa rólegur og áhyggjurnar minnka 🙂 Það verður gott þegar þú verður laus við þetta og eins og Guðbjörg systir sagði hér að ofan, þá má alveg bogna þó maður brotni ekki og við erum hér til staðar til að veita stuðning og taka þátt 🙂

    Risastórt knús til þín, elsku mamma, eins og alltaf 🙂

  22. Vilborg says:

    Elsku Didda. Gangi þér vel að leysa þetta verkefni – hugsa til þín!

  23. Ragna says:

    Ég er svo undrandi á því hvað ég hef fengið margar kveðjur að ég er eiginlega alveg orðlaus, en það gerist nú ekki oft 🙂 Ég ætlaði mér að skrifa svar við hverja færslu, ef einhverjar kæmu, en nú fallast mér bara hendur þegar kveðjurnar eru komnar vel yfir 20.

    Ég ætla því að þakka ykkur öllum í einu fyrir þessar dásamlegu kveðjur sem ylja mér um hjartaræturnar,fylla mig þakklæti og brýna mig enn frekar til dáða. Það er ómetanlegt að hafa góða strauma frá vinum og vandamönnum með sér í bráttuna. Guð geymi ykkur öll.

  24. Anna Bj. says:

    Kæra vinkona, við erum búnar að ræða þetta mál og ég sendi þér mínar allra bestu óskir um góðan bata. Yndislegt að lesa allar þessar góðu kveðjur sem þú færð, og ég er ekki hissa á því. Guð verið með ykkur fjölskyldunni. Við verðum í sambandi.

  25. Helga Þorsteinsdóttir says:

    Kæra Ragna, það er leitt að heyra þessar fréttir af þér en ég veit að þú tekst á við þetta verkefni af æðruleysi og dugnaði eins og öll önnur. Þú átt líka góða að sem styðja þig og styrkja. Gangi þér vel.
    Bestu kveðjur Helga

  26. Jói says:

    Kæra tengdó. Þú ert að taka á þessu á aðdáunarverðan hátt, ég efast ekki um að læknavísindin og mannslíkaminn nái að vinna á þessu með góðra vina hjálp.

  27. Ragna says:

    Takk Jói minn og þið öll – Allt hjálpast að.

  28. Björk says:

    Kæra Ragna. Ég sendi þér mínar bestu óskir um gott gengi og góðan bata. Mér finnst frábært hvað þú tekur á þessu á jákvæðan hátt. Pollýanna hefur hjálpað mörgum og maður hefur séð það í kringum sig að þeir sem eru jákvæðir og bjartsýnir þeim gengur betur í svona glímu en hinum. Góðar batakveðjur.

  29. Elísabet H Einarsdóttir says:

    Elsku frænka, gangi þér sem allra best áfram með gleðibrosið þitt. Pollýanna hefur reynst mörgum vel og fengið marga til að líta á björtu hliðarnar. Ég segi eins og fleiri að við eigum góða lækna og núna heyri ég oftar ánægjulegar baráttusögur. Guð og gæfan fylgi þér og þínum.

  30. Ástríður Ebba says:

    Elsku Ragna.
    Það eru svo sannarlega brekkur í lífinu en þú hefur alltaf verið svo jákvæð Ragna mín og trúað því besta um allt og alla. Það mun örugglega hjálpa þér við að komast yfir þessa síðustu brekku. Ég hugsa til þín.

  31. Ég sendi þér ljós og fyrirbæn í þessu stóra verkefni.

  32. Hildur says:

    Elsku Ragna. Ég bara varla trúi þessu sem ég er að lesa núna um þig. Hélt að þú værir búin að fá þinn skammt af áföllum í lífinu. Hugsa sterkt til þín og bið þann sem öllu ræður að allt fari vel. <bestu kveðjur

  33. Ragna says:

    Þakka ykkur sem hafið bæst hérna í hóp þeirra sem hafið sent mér góðar óskir og kveðjur. Það er alveg dásamlegt að vita af svona góðum straumum.

  34. Katla says:

    Ragna, það er þetta óbilandi æðruleysi og óþrjótandi jákvæðni sem mér hefur ávalt líkað svo vel við í þínu fari. Þú ert svo sterk og heilsteypt og ég dáist að þér fyrir að taka þessum fréttum með slíku jafnaðargeði. Hugsa mikið til þín og bið að allt gangi eins vel og hægt er.

Skildu eftir svar