Segulómtækið bilað

Ég mætti niður á Landspítala í dag til þess að fara í segulómunina sem ég hef beðið eftir og sömuleiðis læknarnir sem ég átti að hitta á morgun.  En ekki átti ég von á því þegar ég kom í afgreiðsluna  að mér yrði sagt að tækið væri bilað.  Ég spurði hvort ég ætti ekki að bíða aðeins og sjá hvort það kæmist í lag fljótlega og jú jú, það varí lagi ef ég vildi gera það. Það voru tvær konur þarna fyrir þegar ég kom, en þær fóru fljótlega.  Eftir rúmlega hálftíma bið kallaði konan í afgreiðslunni á mig og sagði að  tækið kæmist ekki í lag í dag. Ég fékk tíma klukkan 08:15 í fyrramálið en á leiðinni heim var hringt og mér sagt að tækið kæmist ekki í lag fyrir helgi og það væri í raun alveg óvíst hvenær það kæmist í lag.  Úps endanleg niðurstaða á umfangi meinsins og hvenær á að gera aðgerðina frestast því enn og nú eru mestar líkur á því að þetta dagist í a.m.k. viku ennþá, þ.e. ef tækið kemst í lag í næstu viku. Þessar sérstöku myndatökur eru nefnilega gerðar á fimmtudögum og læknateymið hittir svo þá sem eru að fara í skurðaðgerðir daginn eftir.

Það  sem er svo erfitt að sætta sig við er það, að á meðan hundruð milljarða fjárfesting á að fara í byggingu nýs risastórs Landspítala og milljarðar komnir í verkefnið nú þegar á meðan það er enn á teikniborðinu, þá skuli tæki spítalans vera orðin svo gömul að þau eru stanslaust að bila.  Ekki fékk ég það staðfest, en að öllum líkindum hafa ekki verið til þeir varahlutir sem þurftu til viðgerðarinnar því ég spurði hvort ekki yrði bara unnið í þessu þangað til tækið kæmist í lag, en var sagt að það væri allt algjörlega óvíst um framhaldið – það yrði bara hringt í mig.

Ég vorkenni starfsfólkinu sem þarf að standa frammi fyrir sjúklingunum því ekki vekur þetta traust þegar fólk bíður eftir að fara í aðgerðir.  Ekki síður finn ég til með læknunum sem er gert að notast við tæki sem engan veginn uppfylla þau skilyrði að hægt sé að treysta þeim. Í dag skilst mér að tæki séu nánast ekki endurnýjuð nema líknarfélög safni fyrir nýjum.

Mér er bara spurn ætla þeir að hafa þetta brotajárn sem kallast tæki í dag, með sér á nýja spítalann þegar hann hefur verið byggður.  Spyr sú sem hvorki botnar orðið upp eða niður í heilbrigðismálum okkar.  Ég var ákveðin í því í gær að láta ekkert eins og t.d. pólitíkina koma mér úr jafnvægi því ég ætlaði að vera jákvæð að öllu leyti, en þarna komst ég ekki hjá því að neikvæðnin kæmist að.

það er annars mesta furða hvað ég næ enn að vera róleg og á jákvæðninni alveg síðan 17. apríl- alltaf að bíða, en eins og málum er háttað stendur mér ekkert annað til boða en að halda bara áfram að vera létt í lund og láta ekki slá mig út af laginu.

Úti skín sólin, allt er orðið svo sumarlegt og kaffið var drukkið úti á svölum áðan  – Góða helgi!

 

This entry was posted in Hugleiðingar mínar. Bookmark the permalink.

6 Responses to Segulómtækið bilað

  1. Sko mín elskuleg, nú má maður vera með orðbrúk af verri tegundinni! Þetta er ferlega fúlt með sólskinskveðju frá okkur bestimann

  2. Svanfríður says:

    Akkotans!

  3. Sigurrós says:

    Algjörlega út í hött! Held þeir ættu frekar að einbeita sér að því að setja pening í þá sjúkrahúsþjónustu sem við höfum nú þegar en ekki að sturta öllum aurnum í einhverja fjarlæga framtíð! >:(

  4. Anna Bj. says:

    Hvað getur maður eiginlega sagt??? Ég er alveg orðlaus. Þetta er ekki hægt XXX

    Ég heyrði nýlega að það væri annað ómsegultæki á Akureyri, sem væri stærra, og þeir sem væru yfir 150 kg væru sendir í það.
    Spyr sá sem ekki veit?

    Megi sá almáttugi vera með þér og þínum og gefa skjóta/góða lausn.

  5. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Anna mín.
    Það er spurning Anna mín hvort hægt er að breyta tækinu á Akureyri fyrir brjóstamyndatökur, en það er gert hér í einn dag á viku og einmitt þann dag þurfti tækið að bila. Ef ég þarf að ná að vera 150 kíló til að komast norður, þá verð ég heldur betur að vera snögg að finna eitthvað hraðfitandi,því ég næ ekki einu sinni helmingnum af þeirri vigt.
    Þetta leysist vonandi í vikunni.

  6. Ástríður Ebba says:

    Ætli tækið bili nokkuð oftar þegar komið er gott golfveður? Það er mikið á þig lagt Ragna mín, vonandi fer þetta allt á allra allra besta veg. Kv. Ebba

Skildu eftir svar