Breytti um stefnu

frá því sem ég var búin að áætla með næsta pistil.  Ég ætlaði að létta þetta veikindatal mitt með því að setja inn næsta kafla í endurminningunum, en næsti kafli er bara svo sorglegur og erfiður að ég ætla að láta hann bíða.

Það er hinsvegar alveg dásamlegt hvað veðrið hefur verið fallegt í dag og hvað helgin er búin að vera skemmtileg og á ég þó eftir að fara í afmæli austur yfir fjall á morgun.

Já í gærdag kom Sigurrós aðeins með litlu dúllurnar Rögnu Björk og Freyju Sigrúnu í heimsókn og þá varð nú kátt í kotinu. Í gærkveldi buðu svo Guðbjörg og Magnús til Eurovisionkvölds hjá sér og krökkunum.  Sigurrós kom líka, en Jói var heima með stelpurnar sem eru aðeins of ungar ennþá til þess að njóta söngvakeppninnar.  Ragna Björk  sagði mömmu sinni þegar hún spurði hana hvort hana langaði til þess að horfa á keppnina. “Mamma ég ætla aðeins að hugsa málið”  Svo nokkru seinna sagðist hún bara ætla að horfa pínulítið og fara svo kannski að leika sér. Það var því ekki rætt frekar og Sigurrós ákvað að spyrja hana ekki frekar fyrr en næsta ár. Ragnar sem er árinu eldri var hinsvegar búinn að stúdera öll lögin í undankeppninni og var alveg með á nótunum.  Vonandi verður Ragna Björk komin í Eurovisionstuð á næsta ári svo hún geti verið með líka.  Sigurrós kom með getraunaleik sem allir tóku þátt í.  Voða gaman.


Í dag hvítasunnudag höfum við haft það afskaplega rólegt hérna í Fensölunum. Gerðum nokkrar tilraunir til þess að sitja úti svona stund og stund og í eitt skiptið fór ég mjög vongóð með kaffibolla og krossgátuna út á svalir, en kaldur vindurinn var mjög ásækinn og vildi aldrei halda sig réttu megin við húsið svo þetta varð svona ýmist svala eða stofu dæmi. Núna seinni partinn komu svo Guðbjörg og fjölskylda við eftir ljúfa stund í Bláa Lóninu – alltaf svo gaman að fá ungana sína í heimsókn. Strákarnir prufuðu nýja Trampolínið sem við í stigaganginum keyptum saman – fínt að hafa það ef krakkarnir eru í heimsókn og langar til þess að  hoppa aðeins.

Nú er farið að halla degi og er ég búin að horfa á fína framhaldsþáttinn um smíði Titanic og undirbúning að ferðinni örlagaríku á Skjá einum og nenni ekki að horfa meira á sjónvarpið í bili. Ég renni því bara aðeins yfir Fésbókina og fer svo að kíkja í bók.

Á morgun er svo ferðinni heitið í afmæli á Selfoss, svo sá dagur verður nú fljótur að fljúga. Þá fækkar dögunum niður í  6 fram að 4. júní.

 


Comments

One response to “Breytti um stefnu”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *