Já það er tímabært að setja smá pistil hérna inn á heimasíðuna mína, en hún verður óneitanlega oft útundan því flestir eru jú á Facebook. Samt fæ ég kvartanir ef ég læt líða of langt á milli þess sem ég set pistil hérna inn, því það eru jú ekki allir á Facebook.
Batinn þokast svona hægt og rólega áfram. Núna á mánudaginn verða komnar fjórar vikur frá aðgerðinni svo mér finnst einhvern veginn að ég ætti að vera komin með meiri orku, en ef eitthvað er þá finnst mér hún frekar hafa minnkað. Kannski hef ég bara verið á adrenalínkikki þarna fyrst á eftir:) Ég hef lengst af verið að berjast við vökvasöfnum í þessu og þurft að vera að fara og láta tappa af vökvanum sem safnast, en það er ekkert óeðlilegt og ég er bara óheppin að lenda í því. Ég fékk sogæðanudd á LSH á fimmtudaginn og fannst ég mun betri um kvöldið og nóttina, en síðan er allt orðið svo stíft og aumt – sjálfsagt bara eftir meðferðina. Ég ætla alla vega að reyna að þrauka þangað til á næsta fimmtudag þegar ég á næsta tíma hjá skurðlækninum.
Svo ég slái nú á léttari strengi eftir að blása út allri neikvæðninni, þá hef ég nú náð að peppa mig upp öðru hvoru og í gærkveldi drifum við okkur í bíó til þess að sjá alveg dásamlega kvikmynd í Laugarásbíói, en hún heitir The Untouchables og er sönn saga. Ég hvet alla til að sjá þessa frönsku mynd sem er bæði hugljúf og jafnframt bráðfyndin.
Um síðustu helgi á sunnudeginum var ég líka nokkuð hress og við skruppum þá í Hveragerði á Blómahátíðina og fórum svo aðeins að hitta Sigurrós og fjölskyldu í sumarbústað sem þau voru með á leigu yfir helgina. Mjög góður dagur.
Talandi um góða daga, mikið er dásamlegt hvað veðrið hefur verið fallegt það sem af er sumri, alltaf jafn fallegt að líta út hvort sem er á nóttu eða degi. Það er komið Trampolín hérna í garðinn hjá okkur og mikið er gaman að sjá dóttur nágrannans á 2. hæðinni og vinkonu hennar leika listir sínar, en báðar eru í fimleikum. Ég hef nú verið að spá í það á þessum fallegu sumarnóttum þegar ég hef ekki getað sofið, hvort það myndi ekki vera hressandi að skoppa bara út í garð á náttkjólnum og hoppa aðeins þangað til ég yrði nógu þreytt til að sofna aftur. Ég hef þó ekki tekið sjensinn á því að einhver í nágrenninu myndi sjá þessa gömlu snarbilaðu á trampolíninu og létu fjarlægja hana hið snarasta í spennitreyju. – Aldrei of varlega farið.
Jæja þá er stutt í að kjörstöðum verði lokað vegna forsetakosninganna. Ekki læt ég það raska næturró minni að bíða eftir úrslitum í þeim slag, ef ég sef á annað borð. Er bara fegin að þessi ömurlega kosningabarátta með öllu sínu skítkasti skuli á enda.
Jæja þá er ég búin að æða úr einu í annað þetta laugardagskvöldið á meðan Haukur horfir á Ævintýri Marlins í sjónvarpinu. Svo ég röfli aðeins meira þá finnst mér að sjónvarpið eigi ekki að sýna framhaldsmyndir á laugardagskvöldum – fer ekki nánar út í það.
Nú ætla ég að fletta upp í 1000 ástæðum hamingju og gleði og sjá hvað ég finn þar.
“Hamingjan kemur til þeirra
sem eiga sér ávallt einhver
tilhlökkunarefni”
Gott til íhugunar fyrir nóttina og hafa í huga næsta morgun.
Leave a Reply