Við skruppum í Kolaportið að kaupa harðfisk og fleira í gær og drukkum kaffi í Kaffivagninum á Granda og sáum tilsýndar Gleðifólkið á Arnarhólstúninu í bakaleiðinni.
Í dag var okkur svo boðið í kaffi og dásamlega góðar kökur í Grænum kosti – . Ég hef aldrei áður komið í Grænan kost, en nú veit ég hvert ég á að fara til þess að fá gott kaffi og fá með því kökur sem eru hvorki úr mjöli eða með sykri. Algjört nammi. Inni á staðnum voru bara útlendingar og á Skólavörðustígnum virtust bara útlendingar að spóka sig. Sjálfsagt hefur landinn verið að hvíla sig eftir Gleðigöngu gærdagsins.
Við ákváðum svo að aka suður Bergstaðastrætið. Ég var svo að enda við að að segja Hauki frá Erlu frænku minni, sem hefur síðan ég var smástelpa búið í bakhúsi á Bergstaðastrætinu, þegar ég leit út um bílgluggann og viti menn, komu þau hjónin Erla og Bergur þá ekki einmitt gangandi eftir gangstéttinni – eina fólkið sem við sáum gangandi í allri götunni. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum og var búin að opna bílhurðina áður en bíllinn hafði stöðvast. – Mikið var gaman að hitta þau hjónin sem eru alltaf svo hress og skemmtileg.
Í kvöld langar mig til þess að fylgjast með lokakvöldi Olympíuleikanna, þ.e.a.s. ef ég get setið nógu lengi til þess, en bakið hefur alveg verið að kála mér undanfarið og það hefur verið erfitt að finna ásættanlega stöðu, stundum ómögulegt að standa og stundum að sitja nema helst í skrifborðsstólnum mínum hérna við tölvuna. Mér dettur oft í hug máltækið “Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest”.
Þetta bakástand hlýtur nú að fara að lagast, annars athuga ég hvort það sé hægt að fá þetta viðgert því það er ekki hægt að bryðja verkjatöflur út í eitt í marga mánuði. Ég hafði fyrirmæli um að nota sumarið til þess að safna kröftum og koma mér í gott form áður en ég byrjaði á 5 ára lyfjagjöf 1. september, en hún getur einmitt haft slæm áhrif á bein og vöðva og því ekki alveg það sem mér myndi henta best, en annað lyf var mér sagt að hefði verið útilokað strax því það hentaði mér ekki. Maður deilir bara ekkert við dómarann og reynir því bara að stappa í sig stálinu, bíta á jaxlinn, setja á sig andlit á morgnanna og reyna að halda því út daginn. Telja sér svo trú um að þetta sé bara aumingjaskapur og það eigi alltaf að vera jákvæður. Í alvöru þá er ég viss um að þetta fer að lagast – eða vona það alla vega ef ég trúi því bara nógu ákveðið.
Ekki skil ég af hverju maður lendir svona á eintalil við sjálfan sig í lok smá pistils sem átti að vera jákvæður og skemmtilegur. Eitt leiðir bara af öðru og það er greinilegt að það sem þyngst liggur á sálinni á það til að brjótast í gegn án þess að maður fái rönd við reist. Stundum verður maður bara að blása.
Kæra dagbókin mín. Næst verður vonandi bæði upphaf og endir pistilsins á léttari nótum.
Leave a Reply