Jólakveðjan mín til ykkar.

 

Það gerist alltaf eitthvað innra með mér þegar komin er Þorláksmessa og jóhátíðin alveg að koma.  Hugurinn verður meyr og  hvarflar  til liðins tíma og til einfaldleikans sem maður ólst upp við.  Mikið er ég þakklát fyrir alla hjartagæskuna sem ég naut og samverunnar með fjölskyldunni – einnig fyrir gjafirnar sem oftar en ekki voru búnar til af gefendunum.  Jólakjóllinn heimasaumaður,  jólaskórnir með svona lakk og leðurlykt  og fram að jólum vildi maður sofa með þá því þeir voru svo fallegir.

Fólk á mínum aldri man örugglega líka eftir því þegar ávextir komu í búðirnar fyrir jólin. Eplin ilmuðu nefnilega í þá daga og mér er minnisstætt þegar eplalyktin var komin í Búrið hjá Guðmundi kaupmanni og  ég náði varla andanum þegar ég var búinn að hlaupa heim og segja frá því að eplalyktin væri komin.  Pabbi var eitt sinn beðinn um að útbúa eitthvað til þess að setja í gluggann hjá þeim í Búrinu til þess að auglýsa eplin. Ég man alltaf eftir skífunni sem hann bjó til – stór hringur með götum í kring og í hvert gat var sett epli. Ég held að það sé alveg rétt hjá mér að þetta hafi svo snúist með hjálp lítils mótors. Þetta þótti mjög merkilegt.   Í dag er hinsvegar engin lykt af eplum, eða hún fellur inn í annað í umhverfinu og allsnægtirnar eru orðnar svo miklar og enginn munur á árstíðum hvað það varðar.

Já ég dett alltaf í þennan gír  um jól, að hugsa um þetta gamla góða, og til þeirra ástvina sem við höfum haldið jólin með, en hafa kvatt þennan heim. En umfram allt þá erum við í núinu og á jólum ber að gleðjast og vera þakklátur fyrirþað sem við eigum og  þá sem við höfum hjá okkur og gleðjumst öll saman.   GLEÐILEG JÓL.

 

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

3 Responses to Jólakveðjan mín til ykkar.

  1. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Gleðileg jól Ragna mín og fjölskylda. Takk fyrir alla skemmtilegu pistlana. Mínar jólaminningar eru sterkt tengdar epla og appelsínulykt.

    Kærar kveðjur

    Hafdís Baldvinsd.

  2. Gleðileg jól elsku Ragna og njóttu hátíðarinnar. Bestu kveðjur frá Bróa.

  3. Edda bJónsd. says:

    Já Didda míin maður minnist þessa tíma með mikilli gleði ekki síður en í dag þó meira sé framboðið af allskonar freostingum. Ég sakna eplalyktarinnar sem ég bara finn ekki lengur.

Skildu eftir svar