Dekur – Fréttapistill 3.

Nú er allt að komast í réttar skorður hjá mér hérna á Heilsuhælinu, eða kannski má ekki kalla það því nafni lengur – best að segja Heilsustofnun því það ku líta betur út þannig. Annars voru tónleikar við kertaljós hérna við innisundlaugina í gærkveldi. Nokkrir ungir herramenn tóku sig saman og stofnuðu hér hljómsveitina „Hælbandið“ (bandið sem búið var til á hælinu, eins og þeir sögðu í kynningu). Þeir voru búnir að stilla saman strengi sína og söngraddir síðan þeir komu hérna í desember, en nú voru þeir að kveðja staðinn hver af öðrum og voru að þakka fyrir samveruna. Þetta var mjög skemmtilegt hjá þeim og mikil stemning við laugina. Þeir sem vildu gátu verið ofaní lauginni á meðan og svo var setið í gluggakistunni allan hringinn. Ég tók nokkrar myndir, en er allt í einu einhver klaufi að færa þær úr símanum yfir í tölvuna.

Í kvöld er Bingó, en ég náði að koma mér sæmilega fyrir með tölvuna hérna inni á herbergi og kaus að skrifa aðeins í dagbókina mína og sleppa Bingónu á meðan ég bíð eftir þeirri langþráðu meðferð að fá heita leirbakstra á meðan legið er í Lazyboystól.  Ég var búin að heyra um þessa meðferð, en átti ekki von á því að fá það á stundaskrána því ég vissi að það væri bið. Þeir sem hinsvegar eru ekki að mæta í svona tíma detta út og þá er gott að fá að koma í staðinn. –

Svona er nú starfsfólkið yndislegt og allt  að vilja gert við að gera okkur til hæfis.  Ég er að fá mjög góða meðferð sem vonandi skilar sér. Kannski ég eigi eftir að fá að fara í tækin í restina, ef það tekst að laga eitthvað það sem kom fyrir hálsinn á mér, en ég er með ágæta stundaskrá og fæ sjúkranudd, sjúkraþjálfun með nálastungum og nokkrum vel völdum æfingum, vatnsleikfimi, heilsuböð, leirbakstra og slökun í Lazyboy, að ógleymdum göngutúrunum úti.  Ekki hægt að hugsa sér það betra.

Allir vilja allt fyrir mann gera. Hér gildir það bara að maður verður að ber sig eftir björginni, í stað þess að liggja inni á herbergi og vera fúll. Það á að láta vita ef það er eitthvað sem maður er ekki ánægður með, ef mann vantar eitthvað, eða ef meðferðin er of erfið eða ekki nógu erfið.  Ég var eftir fyrstu dagana kölluð á fund ásamt fleirum nýkomnum og farið yfir lista þar sem fólk var spurt um aðbúnað og sagt að hafa samband við hjúkrun ef eitthvað væri sem þyrfti að lagfæra í sambandi við meðferðina.  Á þeirri stundu var ég búin að fá lagað það sem ég þurfti á að halda svo ég gat ánægð sagt að það væri ekkert að.   Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef verið hér, sem svona faglega er staðið að þjónustunni við – hvað eigum við að kalla það „hælisleitendur“  – Já einmitt!  Það passar bara vel hér.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

3 Responses to Dekur – Fréttapistill 3.

  1. Sigurrós says:

    Þú ert svo orðheppin, mér finnst snilld að kalla ykkur hælisleitendur 😀

    En það er gott að heyra hvað þér líður vel þarna og mikið verður nú gott að fara í Lazyboy-leirbað. Er þá sett plast yfir Lazyboy stólinn með drullugu hælisleitendurnir dorma í honum eða eru þeir með svona öflug hreinsiefni þarna á hælinu?

    Knús yfir heiðina til þín, elsku mamma mín 🙂

  2. Hælisleitendur er gott orð og mjög jákvætt í þessu samhengi. Njóttu alls þess sem þér er boðið uppá en farðu samt varlega. Með kærri frá okkur Bróa.

  3. Ragna says:

    Sigurrós mín, í þessu tilfelli er leirinn innpakkaður og hitaður, en við stóllinn erum alveg tandurhrein, útafliggjandi og með teppi yfir okkur. Ekkert nema dásemdin ein og það var gott að koma svona heit og fín í rúmið í gærkveldi, beint á hitateppið,sem ég tók með mér að heiman.

    Guðlaug mín. Ég nýt alveg út í ystu æsar og það er passað upp á að ekkert sé gert sem ekki má. Ég hef aldrei verið pössuð
    betur á svona stöðum.

Skildu eftir svar við Guðlaug Hestnes Hætta við svar