Smá uppfærsla.

Krakkar mínir komið þið sæl !
– Þetta er samt ekki jólasveinninn sem kallar heldur bara sú endurhæfða, sem kom heim úr Hveragerði í gær. Ég er afskaplega þakklát fyrir þessar fjórar vikur og svona ykkur að segja þá hefði ég ekkert haft á móti því að vera eina eða tvær vikur til viðbótar því ég er öll að lifna við.  Ég er þó ekki búin að finna neitt af kílóunum mínum aftur, en bæði hún Steina, sjúkraþjálfarinn minn og næringarfræðingurinn hældu mér fyrir nýja mataræðið mitt og sögðu mér endilega að hafa ekki áhyggjuraf að fitna ekki því ég þyrfti bara að byggja upp vöðva og ég skyldi halda áfram á nýja fæðinu.  Næringarfræðingurinn sagðist vera stoltur af mér þegar ég sagðist ætla að halda áfram á sykurlausu og mjöllausu fæði.
Það er allt í sómanum  eftir aðgerðirnar í fyrrasumar og haust og gengur samkvæmt því sem það á að gera. Hinsvegar er sá gállinn á mér núna, að hálsinn á mér er svo slitinn og brenglaður að ég má ekkert gera sem reynir á hann, því það þrengir að mænunni og einhverjum rótarvösum.  Ég verð því að sætta mig við og reyna að aðlagast því að ég má ekkert gera sem reynir á hálsinn.  – Já, maður finnur sér nú alltaf eitthvað til. 🙂

Þessi mynd er ekki tekin vegna þess að ég sé þarna að afplána dauðadóm, eða hafi verið dæmd til annarrar refsingar. Nei, það er verið að teygja á hálsliðunum og svo að það séu ekki eins mikil þrengsli í mænugöngunum.  Þetta gagnaðist mér ágætlega og ekki síst allar nálarnar, sem reyndar sjást ekki á myndinni, en er raðað aftan á hálsvöðvana og einnig  milli þumals og vísifingurs. Það versta var að ég gat auðvitað ekkert talað á meðan – sem er engan veginn gott fyrir svona málóða manneskju eins og mig.  Ég hafði reyndar lúmskan grun um að það væri einmitt  ástæða þess að ég hafi verið sett í þessa stöðu, en sjúkraþjálfarinn taldi mér trú um annað og ég kaus að trúa því . Þetta er sem sagt ein af dekurmeðferðunum sem ég fékk þarna hvort sem þið trúið því eða ekki.  Svo fékk ég sjúkranudd, heilsuböð, leirbakstra og var í vatnsleikfimi  þar sem ýmist voru tveir í lauginni upp í það að vera fimm manns, þar sem hver og einn þurfti sína sérstöku meðferð.  Þetta var því allt algjört dekur þarna á „hælinu“ í þetta skiptið.

Ég  horfði ekkert á sjónvarp í sjónvarpssalnum þennan tíma því  skjárinn var svo hátt á vegg að ég gat ekki setið og horft svona upp – stóð stundum í dyrunum og horfði  augnablik í einu, en sá að ég var ekki að missa af neinu og lagðist því frekar útaf og leit í bók eða settist með krossgátu.  Sama er að segja um allt sem var á döfinni, kvöldvökur, spilavist, tónleikar og Bingó – ég fór bara einu sinni á kvöldvöku en náði ekki að sitja hana alla, enda afleitir stólar þar sem kvöldvökur og tónleikar voru haldnir.   –  Þetta gerði ekkert til og ég var alveg sátt við að vera í rólegheitum inni á herbergi á meðan.

Ég hitti marga /arna sem ég átti ýmsar tengingar við, m.a. Maríu Ólafsdóttur frænku mína frá Bolungarvík.  Mamma hennar,  María Rögnvaldsdóttir,  var  móðursystir mömmu minnar.  Rögnvaldur og Kristín voru afi og amma mömmu minnar og þau sem ég heiti eftir.  Þessi kona sem ég hitti í fyrsta skipti þarna í Hveragerði er  María Ólafsdóttir, en hún er af yngsta tvíburaparinu sem þessi ömmusystir mín María Rögnvaldsdóttir átti, en hún afrekaði það að eignast sex, já ég segi og skrifa sex sinnum tvíbura og þrisvar sinnum eitt barn auk þess að láta sig ekki muna um það að ala upp eitt barn í viðbót sem hún átti ekki sjálf.  Ég vona að þetta sé ekki allt of óskiljanleg ættfræði hjá mér, en mér þótti afskaplega vænt um að hitta þessa frænku mína, en verst að hún koma bara tveimur dögum fyrir heimför mína.

Nú er ég komin heim og það er jú alltaf svo notalegt, eftir að vera í burtu, að komast aftur heim. Ég verð bara að sníða mér stakk eftir vexti núna fyrst í stað og reyna lítið á hálsinn, en hreyfigetan hefur samt mikið aukist frá því ég fór austur, því þá var eg sannast sagna talsvert kvalin og gat bara ekkert hreyft höfuðið.
Mig langar mikið til þess að hitta aðeins ungana mína um helgina því ég sakna svo barnanna, sem ég hef sum hver ekki séð í nærri því mánuð.  Ég á reyndar heimboð hjá bloggvinkonu í Kampavínsboð á morgun, en held ég leggi því miður ekki í að mæta þar.

Ætli þessi pistill sé ekki orðinn nógu langur – alla vega mál að linni í bili.

 

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

7 Responses to Smá uppfærsla.

  1. Sigurrós says:

    Þú tekur þig vel út í pyntingarstólum, móðir góð 🙂 Sjáumst sem allra fyrst.

  2. Þórunn says:

    Mikið er gott að heyra hvað þú fékkst góða aðstoð þarna í Hveragerði, þér hefur sannarlega ekki veitt af þessu öllu. Vonandi heldur þú svo áfram að hressast, þetta tekur allt sinn tíma.
    Bestu kveðjur til þín og þinna frá okkur Palla.

  3. Katla says:

    Elsku Ragna, við hittumst sannarlega við annað og betra tækifæri enda mun brýnna að þú hugsir vel um þig og njótir samvista við fjölskylduna. Hugsa til þín 🙂

  4. Velkomin heim og gott að heyra að þú hefur náð styrkingu. Ég þekkti Einar frænda þinn, hann var einn af þeim stöku. Heimurinn er ekki stór. Kveðja frá okkur Bróa

  5. Ragna says:

    Þakka ykkur öllum fyrir góðar kveðjur.

    Katla mín, eins og ég var búin að hlakka til að koma til þín, þá verð ég að viðurkenna að ég hafði bara ekki alveg orku til þess að mæta. Fjölskyldan kom í langþráðan hitting í dag, í bollur sem að þessu sinni voru reyndar ekki heimabakaðar :(. Jæja, þetta var samt alveg nóg fyrir mig í bili eftir allt dekrið í Hveragerði undanfarið,þar sem ég þurfti ekkert að gera nema mæta í matsalinn á matartímum, hugsa bara um sjálfa mig og vera í alls konar hvíld og fíneríi í heilan mánuð. Nú verð ég bara að fara að læra að fara ekki fram úr sjálfri mér og taka eitt skref í einu til fullrar orku.

    Guðlaug, en gaman að þú skulir hafa þekkt Einar frænda minn – hann var m.a. mikill og góður gömludansari.

  6. Anna Bj. says:

    Bestu kveðjur heim, Didda mín. Við Fríða eigum vona á heimabökuðum rjómabollum á eftir, en bróðir minn og dóttir hennar koma hingað í mat í hádeginu. Allt í góðu hér. Bestu kveðjur 🙂

  7. Ragna says:

    Kær kveðja Anna mín til ykkar sem eruð enn á „hælinu“ – Gott að heyra að þið fáið bollur í dag þó ekkert sé nema te til þess að drekka með þeim. Ég er mjög spennt að vita hvað þeir nota svo í matinn á sprengidaginn.

Skildu eftir svar