Sólarjójó

Veðurfræðingurinn sagði í gær, að það yrði sól í dag. Ég ætlaði að njóta þessarar sólar á mínu föla skinni. Eftir hádegið sýndist mér sólin vera að brjótast í gegnum skýjaþykknið, en ákvað að klára fyrst smá þrif og strauja á meðan það hlýnaði aðeins meira.

Allt í einu braust sólin fram í allri sinni dýrð og mér fannst ég eiga skilið að láta hana nú aðeins skína á mig. Ég sótti púða í sólstólinn og púða til að hafa við bakið, fór úr peysunni dró skálmarnar upp, settist í stólinn með bókina í höndunum og ætlaði nú aldeilis að láta sólina leika um mig á meðan ég læsi eins og einn kafla í bókinni sem ég keypti mér á Jótlandi.
Ég var rétt sest þegar ég fann að ég yrði að finna litla skemilinn til þess að hafa undir fótunum. Bókinni var því lokað og ég fór inn að ná í skemilinn. Ég settist aftur út í sólina, setti skemilinn undir fæturna og tók bókina, alveg á sama tíma og sólin fór á bak við ský og nú varð skítkalt. Ég fór í peysuna mína og ætlaði að bíða eftir næsta gati í skýjaþykkninu, en peysan dugði ekki svo ég fór inn.
Varla var ég komin inn þegar sólin hafði fundið sér smá smugu til þess að hella geislum sínum í gegnum  svo ég fór út aftur, tók bókina og byrjaði enn einu sinni á sömu setningunni. Nú fann ég svo gjörla að mig vantaði eitthvað til þess að hafa við hálsinn svo enn fór ég inn og sótti nú gömlu pulluna sem mamma heklaði og nú var gott að setjast og láta sólina leika um sig.
Bókin var tekin upp að nýju, en nú hélt ég bara á henni, lokaði augunum og naut sólarinnar – Mikið var þetta nú dásamlegt, það er að segja í svona eins og tvær mínútur, en þá fann ég smá dropa falla af himnum og í sama mund fór sólin á bak við ský.
Ekki rigndi þó, en á þessum tímapunkti var ég orðin verulega pirruð á þessu blessaða sólbaði, tók allt draslið saman og strunsaði með það inn og læsti út á svalirnar.  Ég ákvað að kíkja frekar aðeins í tölvuna og úr því varð þessi lýsing á háttarlagi mínu.  Það er hinsvegar alveg týpískt, að frá því nokkru eftir að ég kom inn þá hefur sólin líklega skinið í einar 10 mínútur, sem er sko metið í dag. Ég ætla hinsvegar ekkert að láta hana leika sér að mér lengur í þetta sinn. Fer bara fram og fæ mér góðan kaffisopa og les svo bara í bókinni góðu áður en ég sofna í kvöld, eins og ég er vön.  Hlýrra og sólríkara sumar hlýtur að vera bara rétt handan við hornið og þá ætla ég sko að láta sólina skína á mig, því  í fyrrasumar fór þetta allt forgörðum hjá mér.

Reynum umfram allt að hafa sól í sinni, þrátt fyrir það að hún sé að stríða okkur svona – þó ég hafi nú reyndar aðeins gleymt því í vonbrigðum mínum áðan. 🙂 🙁 🙂

 

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

5 Responses to Sólarjójó

 1. Sigurrós says:

  Það borgar sig greinilega ekki að lesa þessa dönsku bók, fyrst að sólin hvarf alltaf þegar þú dróst bókina fram… 😉

 2. Ragna says:

  Já Sigurrós mín, bókin er greinilega eingöngu til þess að sofna yfir á kvöldin. En það verður örugglega ekki í bráð, sem ég læt mér detta í hug að fara í þrjóskukeppni við sólina, því hún hefur örugglega alltaf vinninginn. Í stað þess að verða úthvíld,sælleg og full af D-vítamíni þá varð ég bara örþreytt með bauga undir augunum 🙁

 3. Týpískt, og til að nudda þér hressilega þá var sólskin og blíða hér í dag. Takk fyrir spjallið mín kæra með bestu ósk í bæinn.

 4. Ragna says:

  Takk sömuleiðis Gulla mín það var svo notalegt og gott spjallið okkar í morgun. Kær kveðja í fjörðinn fagra, þar sem sólin hélt sig í dag þegar ég leitaði hennar svo ákaft 🙂

 5. Þórunn says:

  Takk fyrir þessa bráðsniðugu og raunsönnu frásögn af sólbaðstilraunum þínum. Svona frásögn væri hægt að endurtaka ótalsinnum á hverju sumri. Nú bíðum við Palli ofurspennt eftir sólinni svo við getum prófað að tjalda nýja sumarhúsinu okkar. Vonandi verður biðin ekki löng, bestu kveðjur frá okkur Palla.

Skildu eftir svar