Skuldabaggar unga fólksins.

Af því að ég er búin að vera í nöldrinu þá ætla ég að tjá mig um málefni sem ég hef oft furðað mig á og finnst að mætti tala oftar um og skólarnir jafnvel taka upp á síðustu árum grunnskólans.

Ég sá hluta af auglýsingu í sjónvarpinu um daginn og fór að hugsa um hvað auglýsingar hafa oft ranga merkingu. Það var lánastofnun sem var að auglýsa og höfðað var til unga fólksins. Innihald auglýsingarinnar var hvatning til þess að taka lán og tilgreit var hverjir vextir hjá þeim væru. Það var hinsvegar lokasetning auglýsingarinnar  sem hreyfði við mér en hún var að hluta til þessi: þú hagnast…!  
Hagnast? Hvernig getur maður hagnast af því að taka lán og greiða vexti hverjir svo sem vextirnir eru?

Ég var að hugsa um alllt unga fólkið sem er að koma út í lífið eftir skólagöngu sína, með háar skuldir á bakinu, allt upp í milljónir. Þetta unga fólk hefur í mörgum tilvikum verið í bæði fæði og húsnæði hjá foreldrum sínum meðan á námi hefur staðið en samt er það stórskuldugt. Auðvitað þarf að hafa meira fé milli handa heldur en bara fyrir mat og húsnæði, en upphæðirnar sem maður heyrir um eru hræðilega háar.

Svona auglýsingar hafa óhjákvæmilega áhrif. Að hugsa sér hvað það hlýtur að vera frábært að taka lán og hagnast af því.

Hjá þeirri, sem þetta ritar og er af gamla skólanum, vakna óhjákvæmilega margar spurningar eins og:

Ber ekki foreldrum að kenna börnunum sínum;

að fara vel með peninga og að það þurfi að halda fast í sumarkaupið sitt til þess að eiga peninga til komandi vetrar?

að það þurfi að  eiga fyrir því sem á að  gera eða því sem á að kaupa. Eða a.m.k. sjá til þess, ef kreditkort eru notuð, að það sé hægt að greiða af þeim á gjalddaga.

og umfram allt, að ef tekið er lán til óþarfa neyslu, þá hagnast maður aldrei á því.  Lán eru nefnilega eitthvað sem þarf að greiða til baka og oft margfalt.

Nú vil ég ekki skella allri skuld á foreldra því ég veit að margir foreldrar sinna þessu vel en eitthvað mikið er að því alltaf er maður að heyra um skuldabagga unga fólksins,  sem þó er ekki farið að stofna heimili eða kaupa sér húsnæði.  Það  sé nálægt gjaldþroti þegar það stígur sín fyrstu skref eftir skólagöngu. 

Ég hef mikið verið að hugsa um hvort það geti verið að foreldrar í dag láti fjármálastofnununum það almennt  eftir að kenna börnunum sínum hvernig  best sé að fara með peninga?

Sé svo, virðist mér sú kennsla hins vegar hafa einn boðskap. Nefnilega þann, að ef mann langar í eitthvað sem enginn peningur er til fyrir þá láti maður það ekki stoppa sig. Bíl geti maður fengið án þess að borga neitt út og svo fái maður bara yfirdrátt á reikninginn sinn og þegar það dugar ekki til, fá þá aukayfirdrátt og þegar ekki er lengur hægt að fá yfirdrátt  þá noti maður kreditkortið og fái svo bara greiðsludreifingu á það.  Svo sé líka tilvalið  ef þetta dugar ekki lengur, að fara bara í annan banka sem býður vel. Þeir eru nógu margir ef við skoðum auglýsingarnar. 

Hvað er til ráða til að bjarga unga fólkinu frá þessu endalausa skuldafeni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Skuldabaggar unga fólksins.

  1. Linda says:

    Þarna er ég alveg sammála þér Ragna..
    Manni blöskra þessar aðferðir lánastofnana, til að kalla til sín krakka sem eru rétt farnir að geta séð um sig sjálf, hvað þá peningahliðina og greiðslukorta-vítahringinn..
    Lánastofnanir láta það hljóma svo auðveldlega að taka bara lán og lifa hátt á meðan krakkarnir ganga menntaveginn, en „gleyma“ að láta það fylgja að það kemur að greiðsludaga..

    Fólk er oft svo djúpt sokkið í skuldum að það ræður ekki við eitt né neitt.. og hver borgar svo brúsann?? ætli það séu ekki foreldrarnir sem lenda í þeim hremmingum..

    Og annað..
    Hver sá sem á hugmyndina af að segja að fólk hagnist af því að taka lán, er líklega ekki skólagenginn..
    Því allir vita, eða eiga að vita, að það er ekki og verður aldrei, samasem merki á milli peningalána og hagnaðs..

  2. afi says:

    Þetta eru orð að sönnu. Dæmi eru um að jafnvel aldraðir foreldrar hafi farið mjög illa útúr svona löguðu.

  3. Gurrý says:

    Lúmskt
    Þetta er mjög lúmskt bragð að láta fólk halda að það „hagnist“ á að fá lánað! Það sorglegasta er að fólk lætur draga sig á asnaeyrunum og taka lán sem þau ráða svo engan veginn við, þá eru bankarnir ekki svona glansandi og fallegir þegar þeir vilja fá peninginn sinn tilbaka hundraðfaldann! Annars hef ég tekið eftir því að börn á aldri við mín sem hafa gengið menntaveginn búa áfram heima hjá fjölskyldunni, því þau hafa ekki efni á því að búa ein, ekkert slæm þróun að mínu mati. Kveðja annars og vonandi fer gigtin að hverfa með dimmunni, Gurrý

  4. Svanfríður says:

    Ég er sammála þér Ragna-því miður lét ég glepjast við mörgum þessara auglýsinga hér í den en allt er þetta að hafast. Ég hef alltaf verið dugleg til vinnu en að fá svona skell er bæði vont og gott: það er vont að sjá að maður misreiknaði sig en gott að því leytinu að maður gerir þetta aldrei aftur og þó var ég ekki í nærri nándar eins slæmum málum og margir. Þar sem ég kenndi, í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, þá var kennsla í 10. bekk hvernig lánataka fer fram og hvað það í rauninni þýðir. Mjög nytsamlegt og því vonar maður bara að krakkarnir muni eftir kennslunni þegar komið er út í veröldina og skelli sér ekki í skulafen.
    Vonandi fer þér að líða betur, það er svo vont að finna til. Vinakveðjur, Svanfríður

  5. Þórunn says:

    Skuldabaggar
    Þú hefur gott lag á því Ragna að taka fyrir málefni líðandi stundar, sem þörf er á að vekja athygli á. Þetta er eitt þeirra, þar sem ég stend aðeins utan við þjóðfélagið verð ég ekki eins vör við hvað er að gerast, en þetta finnst mér virkilega alvarlegt. Ég tek undir það að það sé full þörf á að taka þessi mál sem kennsluefni í skólana. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Það er sorglegt að heyra dæmi um að foreldrar skuldaranna skuli jafnvel lenda í að borga brúsann. Eitthvað verður að gera til að opna augu unga fólksins og forða því frá að sligast undan skuldabagganum.

Skildu eftir svar