Allt að fara í gang þetta haustið.

Haustið hefur verið bæði fallegt og skemmtilegt.  Eins og gengur eru dagarnir auðvitað misjafnir, þó í eðli sínu séu þeir allir jafn góðir. Það er bara misjafnt hvernig maður nýtir þá hverju sinni. 

Það er svo margt sem fer í gang aftur eftir sumarleyfi, eins og gamli, góði, ómissandi saumaklúbburinn minn sem er 49 ára á þessu ári.Við erum fimm eftir kellurnar, en við misstum hana Ástu okkar s.l. vetur og söknum hennar sárt. Á borðinu við sætið hennar er nú kveikt á kerti. Við erum vitaskuld svo vanafastar að við höfum alla tíð sest í sömu sæti þar sem við erum hverju sinni og verður uppi fótur og fit ef einhver ætlar í hugsunarleysi að setjast í “vitlaust” sæti.
Söngurinn með Gleðigjöfunum er líka byrjaður aftur, annan hvern föstudag í Gullsmáranum. Þar kemur fólk saman og syngur hver með sínu nefi,  gömlu íslensku lögin úr söngbókinni með undirleik þriggja harmonikuleikara og konu sem spilar á gítar.  Það er skemmtilegur siður, að börnin úr leikskólanum í Arnarsmára koma í heimsókn, fylgjast með og fá að syngja nokkra leikskólasöngva. Svo eru börnin send heim áður en kemur að brandarapásunni, því það eru sko ekki allir brandararnir sem þar eru sagðir fyrir ung eyru. Sérstaklega er það ein eldri prestsfrú sem segir brandara sem eru langt frá því að vera fyrir börn 🙂  Mér finnst svo skemmtilegt þegar trítlurnar hennar Sigurrósar hafa komið með leikskólanum, en þær voru báðar í Arnarsmára og Freyja Sigrún er þar enn og kemur því stundum, en Ragna Björk er komin í alvöru skóla.
Það er fleira sem er komið á haustdagskrána hjá mér, því QiGongið hjá honum Gunnari Eyjólfssyni er byrjað aftur hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíðinni og þar eru einnig í boði fjöldinn allur af skemmtilegum og góðum fyrirlestrum. Einn slíkur var í gær, þar sem Marín Björk Jónasdóttir ræddi um Markmið. Mjög flott kona og skemmtileg og fyrirlesturinn á léttu nótunum. Ég reyni umfram allt að halda mánudags og miðvikudagsmorgnum lausum fram yfir hádegið fyrir þennan hitting því hugleiðslan hans Gunnars gerir manni svo gott og svo er það góður hópur sem mætir þarna.

Í september skelltum við Haukur okkur á gömludansanámskeið í Stangarhylnum, bara svona til að koma okkur aðeins í gang eftir of langa danspásu. Þó við þykjumst nú kunna alla helstu gömlu dansana þá lærum við þarna alls konar tilbrigði sem við vissum ekki einu sinni að væru til. Ég hef oft sagt það og segi það enn, að dansinn er albesta líkamsræktin því hún er bæði fyrir líkama og sál.

Svo er auðvitað allt mögulegt fleira sem ég hef gert á þessum haustdögum, eins og að heimsækja gömul hjón í Hafnarfirði sem voru með mér í Hveragerði í vetur. Ég fór með tveimur systrum sem ég kynntist líka á HNLFÍ, en öll vorum við þar á sama tíma.
Svo skruppum viðí afmæli á Selfoss um daginn. Já það hefur sko aldeilis verið nóg að gera þetta haustið og ýmislegt sem bíður  svo ekki þarf að kvarta yfir aðgerðarleysi.

Jæja kæra dagbók, þá er ég búin að pára þetta hjá mér og set í SARPINN hjá öllum hinum færslunum..


Comments

4 responses to “Allt að fara í gang þetta haustið.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *