Horft inn í sumarið.

Alltaf er náttúran söm við sig. Þegar maður er alveg að gefast upp á rigningu, þoku og dimmviðri þá sér hún til þess að maður fái a.m.k. einn sólardag til þess að koma sálartetrinu í lag aftur.  Einn slíkan fengum við í dag. Sól frá morgni til kvölds.  Nú trúi ég enn betur á mátt  bloggsins því alltaf þegar maður er að gefast upp og talar um það á blogginu sínu þá kemst allt í gott lag.  Kannski  eru það góðu straumarnir sem eru á milli okkar sem gera allt svona miklu betra. Ég hef allavega þá trú að ef maður sendir frá sér góðar hugsanir þá hafa þær mikið að segja. Hitt er annað mál hvort þær duga á veðrið – aldrei að vita,  það  gat allavega ekki verið betra í dag.

Nú er sjúkraþjálfarinn minn að gera allt sem hann getur til að laga á mér hálsliðina, teygir og togar, setur á mig rafmagnsstraum og stingur mig með nálum,  svo ég geti nú örugglega horft í allar áttir þegar næsti sólardagur kemur.  Þetta kemur allt saman eins og það hefur alltaf gert. Það er nefnilega með þetta eins og veðrið  – það skiptast á skin og skúrir.

Til þess að horfa fram á við þá drifum við okkur í að panta ferð til Jótlands í sumarbyrjun og ég hef verið að skoða og skoða sumarhús á netinu. Við Haukur ætlum að finna eitt slíkt  til þess að dvelja í þegar við förum til að heimsækja dóttur hans og fjölskyldu sem býr á Jótlandi.  Það er margt í boði og erfitt að velja, sérstaklega þar sem Haukur er í Reykjavík núna og getur ekki skoðað með mér.  Vonandi verður þetta allt enn í boði um næstu helgi þegar við verðum bæði búin að skoða úrvalið.  Þegar maður skoðar myndir af svona sumarhúsum með útsýni yfir sjóinn þá fer um mann fiðringur og maður fer að hlakka til. Það er fínt að fara svona snemma því þá á maður allt sumarið eftir hérna heima.

Nú er best að fara að koma sér í rúmið  og glugga svolítið í Hannesi Hafstein. Þið ættuð að sjá tilfæringarnar sem þarf að viðhafa þegar ég tek hann með mér í rúmið á kvöldin.
Ég býst við að bókin sé svona þrjú fjögur kíló og þegar ég ligg í rúminu þá verð  ég að láta hana hvíla á þykkum púða fyrir framan mig því ég gæti aldrei haldið á svona þungri bók. En Guð hjálpi mér ef ég myndi sofna útfrá honum því þá sé ég fyrir mér að ég myndi steinrotast. Ef ekkert heyrist frá mér næstu sólarhringa þá skulið þið biðja fyrir mér því skýringin gæti verið sú að Hannes hafi veitt mér höfuðhögg.

Ég býð ykkur góða nótt og óska þess að morgundagurinn verði ykkur öllum góður.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

9 Responses to Horft inn í sumarið.

 1. Svanfríður says:

  Nú þegar ég skrifa þetta er klukkan rúmlega sex að morgni hjá þér. Ég vona að Hannes karlinn hafi ekki veitt þér rothögg:)
  Gaman verður að komast út fyrir landsteinana til að hlaða sálina og sjá eitthvað nýtt. Svo veistu að þú ert ætíð velkomin hingað til mín og saman gætum við farið til Lindu og haft gaman:) Eitthvað til að hugsa um eða…..Góðar kveðjur, Svanfríður

 2. afi says:

  Á tá og hæl
  afi ætlar að vona að vona að sjúkraþjálfarinn komi skikki á kroppinn stirða. Þannig að þú farir létt með að taka vel á móti næsta sólskinsdegi. Snúið þér á tá og hæl á öðrum fæti. Náir þannig öllum sjóndeildarhringnum á örskots stundu. Hefur Rögnu ekki dottið í hug að æfa lyftingar, – til að ráða betur við mikilmennið í bólinu?

 3. afi says:

  Jylland, lyder godt. Farvel.

 4. Nafnlaust says:

  Einhvern tíma heyrði ég að gigtarsjúklingar ættu að vera í heitu loftslagi.. Hvort sem það er rétt eða ekki, þá ertu ætíð velkomin hingað til mín.. Sumrin eru heit og fara ljúft um kroppinn..
  Þó ég þekki ekki gigtarverkina frá eigin hendi, þá veit ég að þeir munu vera kvalafullir.. á ömmu sem er gigtarsjúklingur á háu stigi, svo ég þykist nú vita að slæmu dagarnir eru virkilega slæmir.. Vona svo sannarlega að snertingar/nudd sjúkraþjálfarans hafi töframátt..

  Farðu varlega með doðrantinn.. 😉

 5. Ragna says:

  Takk, Takk
  Þakka ykkur öllum fyrir elskurnar mínar. Ég skammast mín nú fyrir að vera að kvarta við ykkur og ástæðulaust að hafa áhyggjur af mér. Það koma bara svona dagar sem eru slæmir og þeir líða hjá eins og aðrir dagar. Síðan eru það allir góðu dgarnir sem koma þess á milli.
  Sá sem síðastur hefur lagt orð í belg hefur gleymt að skrifa nafnið sitt svo ég veit ekki hvert ég á að panta flugfarið 🙂

 6. Linda says:

  Afsakið Ragna mín.. þetta var víst ég sem gleymdi að rita nafnið..

 7. Þórunn says:

  Suður um höfin…
  Það var ekki að búast við öðru en að þú gerðir allt sem hægt er til að láta þér líða betur, gott að heyra að allt er á góðum batavegi. Ég get talað af eigin reynslu með gigtina, manni líður mikið betur í heitu loftslagi. Nú er verið að auglýsa mjög ódýrar ferðir suður á bóginn í sumar, þú veist að þið eruð líka ætíð velkomin til Portúgal.

 8. Ragna says:

  Einstakur hópurinn okkar.
  Ja hérna, ég fer bara hjá mér yfir gæsku ykkar allra. Bara það að vita af svona góðum vinum kemur öllu í lag. Ég segi bara enn og aftur þessi bloggfélagsskapur okkar er alveg einstakur. Það liggur við að við verðum að fara að gefa honum nafn.

 9. Gurrý says:

  Ekki vissi ég að hann Hannes væri svona þungur! Haha, verð að glugga í þennan doðrant þegar ég kem heim næst. Fínt hjá ykkur að taka vorið í ferðalög og fá smá sumarauka, þetta var uppáhaldstími minna foreldra líka.

Skildu eftir svar