Aðventustund í leikskólanum.

Þegar við förum í Gullsmárann annan hvern föstudag til þess að syngja með öðrum „gamlingjum“ við gítarundirleik og harmonikuspil, þá koma börnin úr Leikskólanum Arnarsmára alltaf í heimsókn og hlusta fyrst en taka svo lagið fyrir okkur.  Í morgun var okkur hinsvegar boðið í aðventustund hjá þeim í leikskólanum. Þar sem Freyjuskottið okkar er nú á þessum leikskóla kom ekki annað til greina hjá mér, en að mæta þar klukkan níu í morgun.

Ég lét það ekki breyta ákvörðun minni að ég var glaðvakandi í nótt frá því fyrir klukkan fjögur. Ég var enn að hlusta á vasaútvarpið mitt þegar ég sá að klukkuna vantaði korter í sjö og ákvað þá að bíða bara eftir sjöfréttunum og fara svo á fætur. Aha 🙂 Ég hef hinsvegar steinsofnað eftir þessa ákvörðun, og hentist síðan upp við klukkuna rétt fyrir átta þegar ég var beinlínis rifin burtu úr draumheimum þar sem ég stóð í ströngu að redda einhverju. Fyrsta hugsun var að stoppa klukkuna í símanum, hætta við að fara, sofna aftur og klára þessa reddingu sem ég var að fást við í draumheimum, því maður stekkur ekki frá því sem maður er að gera. Þá hnippti samviskan í mig og hreinlega skipaði mér að hætta þessum aumingjaskap og drífa mig á fætur. Af hverju að sleppa svona tækifæri sem bara stæði til boða í dag, þegar ég gæti hvenær sem er sofið. Ég gat ekki komið að þeirri röksemd að ég hafi svo lítið sofið í nótt og þar að auki legði ég mig aldrei á daginn. Nei, það mátti bara engan tíma missa , – koma sér í leppana, setja á sig andlit og greiða smá yfir óklippta hárið sem bíður eftir að komast í snyrtingu, fá sér eitthvað smávegis í gogginn og bruna af stað.

Ég sá að það voru nokkuð margir bílar fyrir utan og hálf kveið fyrir að koma svona ein á staðinn, en ég reyndist síðan vera fyrsta manneskjan til að mæta og gat því farið inn á Grallaradeildina og heilsað aðeins up á Freyju mína sem varð mjög undrandi að sjá ömmu allt í einu fyrir framan sig þar sem hún sat og spilaði við vini sína. Nokkru síðar sá ég hjón koma inn og loks stakan mann. Þetta voru nú allir gestirnir sem mættu. Það hefur líklega eitthvað spilað inní hvað það var langt síðan við fengum boðið og hvað það var hált í morgun því það hefur alltaf verið mjög vel mætt í þetta aðventuboð sem hefur verið haldið síðan 2002.

Eftir fallega sönginn hjá börnunum og búið var að kveikja á aðventukerti númer tvö, var okkur boðið upp á kaffi, kakó, kleinur og piparkökur og við sátum þarna í góðum félagsskap fóstranna og spjölluðum um heima og geyma, en börnin fóru inn á sínar deildir að leika sér, spila og föndra.

Ég þakka bara kærlega fyrir mig og eitt er víst að ég mæti aftur að ári. Hér eru börnin að syngja. Freyja sést ekki á myndinni nema rétt á ljósa kollinn hennar vinstra megin á myndinni þar sem fóstrurnar sitja.

Mynd0459

 

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

2 Responses to Aðventustund í leikskólanum.

  1. Ragna says:

    Verst var að gleyma myndavél, en það kom sér vel að hafa símann í svona smáreddingu.

  2. Sigurrós says:

    Mikið er gaman að amma sá sér fært að kíkja á aðventustundina á leikskólanum 🙂

Skildu eftir svar