Gamli tíminn rifjast upp.

Í sjötugs afmæli minna góðu vina Hreins og Birgit í gær rifjuðust upp margar góðar stundir frá liðnum tíma. Þarna var m.a. allur gamli spilaklúbburinn hans Odds heitins og þar á meðal æskuvinir hans Hreinn og Kristinn, en þeir byrjuðu allir saman í 7 ára bekk í Langholtsskóla og voru vinir upp frá því.  Þeir Oddur og Hreinn eignuðust síðan kærustur sínar, okkur Birgit, á svipuðum tíma, svona um 16 ára aldurinn. Við Birgit urðum strax góðar vinkonur og hefur vinskapurinn við þau hjón staðið allar götur síðan. Einnig vinskapurinn við Ingunni sem giftist Kristni og svo bættust fleiri við síðar.

Ég hugsaði um það eftir veikindi Odds hvað það er mikill munur á því að eiga annars vegar vini sem hverfa við breyttar aðstæður og hins vegar sanna vini sem standa með manni hvað sem á dynur, en þau heiðurshjón Birgit og Hreinn tilheyra sönnum vinum, ásamt fleirum sem voru í þessum góða hópi sem spilaklúbburinn var.

Það  rifjaðist upp fyrir mér í veislunni í gær að þegar spilaklúbburinn, sem í voru eingöngu fátækir námsmenn, var í fyrsta skipti búinn að safna allan veturinn í púkk til þess að geta boðið sínum heitt elskuðu út að borða. Þá var sjóðurinn ekki digrari en svo að hann dugði til þess að greiða aðgangseyri að Glaumbæ, þar sem pantað var „Smörrebrauð“ og kók. Ég man meira að segja hvar við sátum uppi á efri hæðinni. Þetta var hvílík upplifun og flott að fara svona út að borða og það sem meira var, að komast inn án þess að vera beðin um skilríki því ég var árinu yngri en þau hin, sem voru ýmist orðin 18 eða að verða það.

Árið eftir náðist að safna aðeins meiru í sjóðinn, sem nú dugði til þess að kaupa körfukjúkling og franskar í Naustinu. Þetta var svona alvöru 🙂  Rosalega fannst okkur við vera að fara fínt út að borða í það skiptið.
Áður en kjúklingakörfurnar komu á borðið þarna í Naustinu var komið með glös með vatni og sett við hvern disk, mig minnir að það hafi verið sítróna í glasinu líka.  Á meðan við biðum eftir matnum drukkum við að mestu vatnið úr glösunum, en þegar þjónninn kom með matinn varð hann eitthvað skrýtinn á svipinn og sagði svo kurteislega “ Fyrirgefið, en vatnið átti að vera til þess að skola af fingrunum þegar þið borðuðuð kjúklinginn“.   Nú voru það við sem urðum kindarleg á svipinn. Hvernig áttum við líka að vita af þessum kúnstum. Ég hafði held ég aldrei borðað kjúkling fyrr en þarna og líklega sömu sögu að segja af hinum, hvað þá heldur að við ættum að halda á þessu með fingrunum.

Svo leið tíminn og alltaf söfnuðu þessar elskur í sjóð til þess að bjóða konunum sínum út að borða, einu sinni á ári.  Við konurnar skiptumst hins vegar á að hafa fyrir þá veislukaffi í hverjum spilaklúbb.

Eftir að þeir luku hver af öðrum sínu námi og fóru að vinna, þá fór nú að safnast meira í sjóðinn og eftir að borða í einhver ár hérna heima á Sögu, Holti og fleiri stöðum kom að því að geta farið saman til London þar sem við borðuðum  m.a. á Beefeater of London og fórum í leikhús, þar sem við sáum Evitu, Cats og fleiri leikrit. Þetta var alveg dásamlegur tími. Því miður var Englandsferð síðasta ferðin sem Oddur náði að vera með í, því hann veiktist nokkru síðar.

Hinsvegar buðu þessir yndislegu traustu vinir í spilaklúbbnum mér tvisvar í slíkar ferðir til útlanda, en það var þegar  Oddur var orðinn þannig, að vitað var að hann myndi aldrei koma aftur í spilaklúbbinn. Önnur ferðin sem mér var boðið í var til Amsterdam og sú seinni til Hamborgar.  Þetta var svo höfðinglega gert af þeim og aldrei fékk ég að taka upp budduna til að borga fyrir mig.
Ég er þeim ævinlega þakklát fyrir rausnina og hugulsemina að gefa mér tækifæri til þess að gleyma erfiðleikunum og lyfta mér upp með  þessum sönnu vinum og eiga með þeim góða daga – Þetta var  nefnilega svo góður hópur sem kunni að skemmta sér saman og aldrei bar skugga á vinskapinn í þessum hópi og hefur örugglega ekki gert enn þann dag í dag – enn er sama góða fólkið og ég fór með í utanlandsferðirnar forðum.

Þetta er nú að hluta til það sem mér lá á hjarta þessa stundina – Reyndar eins og oft áður hafa minningarnar látið mig skrifa mun meira og í raun allt annað en mér datt fyrst í hug, en þannig eru bara minningar, það rekur hver aðra.

 

 

This entry was posted in Hugleiðingar mínar, Ýmislegt. Bookmark the permalink.

2 Responses to Gamli tíminn rifjast upp.

  1. Sigurrós says:

    Mikið er gaman að heyra að þið hafið átt góða stund saman í afmælinu núna um helgina. Og ekki síður skemmtilegt að lesa um gömlu minningarnar. Ég man einmitt eftir ljósmyndum af ykkur úr Amsterdam-ferðinni, sérstaklega þar sem þið sitjið í bát, reiðubúin að sigla eftir einu af síkjum Amsterdam.

  2. Katla says:

    Það er fátt sem jafnast á við góða vini, sanna vini eins og þú lýsir.

Skildu eftir svar við Katla Hætta við svar