Áhættan í lífinu.

Hafið þið tekið eftir því hvað daginn er að lengja. Þó það snjói og þó það blási, þá finn ég samt að vorið er í nánd.  Ég gjóa augunum hérna út þar sem Haukur geymir húsbílinn sinn og er strax farin að láta mig dreyma um að komast í skemmtileg ferðalög á fallega landinu okkar.  Ég skal játa að ég hef líka aðeins verið að kíkja á  ferðabæklinga sem nánast daglega koma í póstkassann eða birtast í skilaboðaskjóðunni hérna á netinu.  Ég svona renni augunum yfir það, en hvorki ég né Haukur höfum verið neitt sérstaklega spennt fyrir því. Kannski breytist það nú þegar sólin hækkar enn meira og heilsan kemst í gott lag. Best að sjá eftir kannski 6 – 8 vikur hvort ég verð ekki orðin mjög spennt að komast í sól og göngutúra á strönd –  svona til þess að koma heit inn í íslenska sumarið.

Ég opnaði áðan bókina mína um hamingjuna og sá þá þennan texta:

„Gerðu þér raunhæfa grein fyrir því hverju þú færð áorkað. Vertu sáttur við ákvörðun þína og reyndu aldrei að færast of mikið í fang.“

Það er þetta með að „færast of mikið í fang“ sem ég velti fyrir mér þegar ég sá þennan texta. Kannski gerir maður of mikið af því að passa einmitt það, sem hins vegar getur þá endað með því að maður færist of lítið í fang.  Hvílík heilabrot.

Um daginn þegar Oddur Vilberg var að fara upp í Bláfjöll með brettið sitt, en þangað fer hann með strætó í öllum frístundum. Þá spurði amma sem auðvitað hugsar fyrst og fremst um allar hætturnar við þennan hraða, snúninga og stökk uppi í fjöllum með báða fætur fasta á einhverju bretti. „Er ekki stórhættulegt að vera á þessum brettum?“ –
„Amma, ef maður þorir aldrei neinu, þá gerir maður aldrei neitt.“
Humm, jú mikið rétt og auðvitað er mikil hollusta í því að stunda íþróttir uppi í fjöllum í hreinu og tæru lofti, þó áhættan sé einhver. Amma áttaði sig á því á þeirri stundu að hún væri bara hreinn og beinn hræðsluskítur. Það þarf ekki fleiri orð um það.  Kannski amma fari nú að taka meiri áhættu í lífinu svo hún missi ekki af öllu.  Best að halda samt ró sinni. Svo mikið er a.m.k. víst, að amma á ekki eftir að fara upp í fjöll á bretti, en kannski eitthvað annað skemmtilegt.   Hver veit.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

3 Responses to Áhættan í lífinu.

  1. T.d að dansa, syngja og eitthvað“sollleiðis! Láttu þér líða vel og sólarströnd hljómar yndislega, með kærri frá okkur Bróa.

  2. austurkot says:

    Já þessi blessaði meðalvegur er vandrataður, ekki gera of lítið, ekki of mikið en auðvitað er um að gera að framkvæma helst að gera það sem hugurinn segir manni, en vera samt varkár. Þetta eru nú meiri vangavelturnar hjá mér best að hætta núna, njóttu lífsins eins og þú getur. Þórunn.

  3. Katla says:

    Vel mælt hjá ömmustubbnum.

Skildu eftir svar