Gamlingjarnir.

Okkur gamlingjum datt í hug að fara í bíó í kvöld. Myndin var sýnd í Sambíói í Kringlunni, en mörg ár og margir dagar eru frá því við höfum hvort um sig farið í bíó þar og Haukur sagðist aldrei hafa farið í Kringlubíó. Bílnum var lagt við neðri hæðina eins og venjan er þegar farið er í Kringluna. Eitthvað var ég að tauta um að betra væri að leggja á planið hinumegin við húsið, Borgarleikhúsmegin því neðri hæðin væri líklega lokuð á kvöldin. Það var ekkert hlustað á gömlu konuna og fyrsta hæðin skyldi það vera.

Við keyptum miðana í miðasölunni þarna fyrir innan ísbúðina og alla skyndibitastaðina. Tveir miðar á Gamlingjann takk fyrir með gamlingjaafslætti.  Til öryggis spurði ég afgreiðslustúlkuna hvort það yrði opið út að bílastæðinu af neðstu hæðinni eftir sýninguna. – „Nei þar er lokað klukkan átta á kvöldin …“

Gamlingjarnir sáu nú ekki alveg fyrir sér hvernig þeir kæmust aftur í bílinn nema ganga langar leiðir í kringum bygginguna eftir bíó, en þar sem enn var tími, þá var farið aftur til baka niður rúllustigana, fram ganginn og út í bíl og honum ekið hálfhring að efra planinu við Borgarleikhúsið og farið inn bakdyramegin beint inn á rétta hæð. Við náðum í tæka tíð og myndin var alveg eins skemmtileg og bókin.

Þegar myndin var búin paufuðumst við ásamt hinum gamlingjunum út úr salnum nánast í myrkri og vorum loks komin fram á gang. Við vorum heppin að detta ekki, en kona af yngri kynslóðinni datt þarna í myrkrinu á leiðinni og gekk hölt út þegr maðurinn hennar var búinn að reisa hana upp.
Þegar við komum á ganginn virtust allir fara til vinstri, en ég vissi að okkar dyr væru hægra megin.  Við gengum því áfram, en eitthvað fannst okkur það ekki vera eins og þegar við komum því það vantaði skyndibitastaðina og ég mundi ekki eftir að hafa gengið framhjá Bónus þegar við komum. Þetta var mjög undarlegt.  Við nánari skoðun á þessum furlulegheitum, þá áttuðum við okkur á því að það er gengið inn í bíóið af efstu hæðinni en gengið út af hæðinni fyrir neðan . Við urðum því að ganga upp einn stiga til þess að komast út á bílaplanið aftur. Hvílíkt rugl

Börn byrja að fara í bíó í fylgd fullorðinna, en eftir þessa bíóferð þá er greinilegt að svona gamlingjum er ekki treystandi til þess að fara í bíó nema í fylgd ungmenna.

Nú er rétt að koma sér í rúmið – það er gott að maður þurfti ekki að sofa einhvers staðar rammvilltur inni í Kringlu.   GÓÐA NÓTT ♥

This entry was posted in Helstu fréttir., Ýmislegt. Bookmark the permalink.

5 Responses to Gamlingjarnir.

  1. Guðbjörg Oddsd says:

    Ha, ha Ég sendi Odd með ykkur gamlingjunum í bíó næst svo þetta gangi örlítið betur fyrir sig 🙂

  2. Sigurrós says:

    Gott plan, Guðbjörg, þú sendir Odd með þeim næst! 😀 hahahaha

  3. AnnaBj. says:

    Þetta er sko ekki einfalt! Best að fara í bíó í björtu svo maður rati út eftir sýningu …. Fer orðið afar sjaldan í bíó. B.kv.

    • ragnakristin says:

      Anna mín, það hefur nú lítið að segja að fara frekar þarna í björtu því það er sjálf leiðin út úr bíósalnum sem er koldimm, en bjart frammi á gangi þegar maður loksins kemst þangað. Svo væri nú betra fyrir gamlingjana að vita það fyrirfram að maður kemur út úr bíósalnum á annarri hæð en maður fór inn í hann. Það er nú stóra málið 🙂

Skildu eftir svar við Sigurrós Hætta við svar