Miðvikudagur smá gullkorn.

Á miðvikudögum þá sæki ég Rögnu Björk í Smáraskóla um tvöleytið og fer með hana í Myndlistarskóla Kópavogs á Smiðjuveginum, en amma Björk sækir hana síðan.
Það er alltaf sama „rútínan“ hjá okkur. Þegar við erum komnar í bílinn og mín er búin að festa sig í öryggisbeltið, þá tekur hún upp nestið sitt og borðar það á leiðinni. Á áfangastað bíðum við svo yfirleitt í bílnum því við erum alltaf of snemma á ferðinni og þá notum við tímann og spjöllum saman.

Í dag fengum við aldrei þessu vant bílastæði fyrir framan Myndlistaskólann, en þurftum ekki að leggja við verkstæðið hinu megin við götuna, eins og við þurfum oftast að gera.  Þegar við ókum upp að húsinu þá tók ég eftir því að það var útsala á íþróttavörum í verslun þarna á neðri hæðinni beint fyrir framan okkur.
„Eigum við ekki að skreppa þarna inn og skoða aðeins á meðan við bíðum? Ég ætla ekki að fara að kaupa neitt bara aðeins að skoða.“ – Jú, mín var alveg til í það.
Ég fór síðan að fletta einhverjum bolum sem voru þarna rétt innan við dyrnar, en mín fór alveg inn í hinn endan á búðinni og ég heyrði að hún var að tala við einhvern.
Ég fann síðan eftir nokkrar flettingar, þennan líka fína langerma bol á tvö þúsund krónur og ákvað að kaupa hann. Þegar ég kom með hann að afgreiðsluborðinu stóð Ragna Björk þar að spjalla við afgreiðslustúlkuna. Þegar ég sagðist ætla að borga þennan bol sagði mín:
„Amma!  þú sagðist bara ætla að skoða“  – Þá sagði ég svona í gríni við afgreiðslustúlkuna að það væri alveg rétt, við hefðum nú upphaflega bara ætlað að skoða meðan við biðum eftir að hún ætti að mæta þarna upp á efri hæðina.

„Já ég veit sagði stúlkan, hún er búin að segja mér allt um það og benti brosandi á Rögnu Björk.  Þá benti mín á ömmu og bætti við með nokkrum tilþrifum:
„Já og hún lofaði sko að hún ætlaði bara að skoða, en svo er hún að kaupa þennan bol“ Afgreiðslustúlkan kom mér þá til varnar og sagði að það væri nú ekki hægt að sleppa því að kaupa svona góðan bol sem kostaði ekki nema tvö þúsund.
Þá hætti mín að skamma ömmu fyrir að standa ekki við orð sín.  🙂

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

2 Responses to Miðvikudagur smá gullkorn.

  1. Sigurrós says:

    Hahahaha 😀 Það er stórhættulegt að taka svona ákveðna unga konu með sér í búðir!

  2. Þessi unga dama veit hvað hún syngur. Gott á þig amma!

Skildu eftir svar við Sigurrós Hætta við svar