Skemmtilegur vordagur í dag.

Já svo sannarlega er vorið komið og síðustu dagar hafa verið svo hlýir og fallegir. Það er allt að springa út og ég fór í gær og keypti rós  „New Dawn“ sem ég setti í pott hérna úti á svölum. Ég var komin á skrið með að fara í göngutúra á morgnanna, en það endaði nú með því að ég varð að hætta alveg í bili út af gamalkunnum verk niður í hægri fótinn. Læknirinn minn vill að ég fari í göngugreiningu og taki mér pásu frá því að ganga hér upp og niður brekkurnar því það sé allt of mikið fyrir óviðgert brjósklos að höndla, ég megi bara ganga á sléttu grasi. Kannski ég útbúi mér bara kröfuspjald og fari að rölta um á Austurvelli á góðviðrisdögum. Verst að ég veit ekki hvers ég á að krefjast, en ekki get ég gengið þar um í hringi án þess að hafa eitthvað sýnilegt markmið.

Dagurinn í dag var alveg sérstaklega skemmtilegur. Mánudagar og miðvikudagar eru það reyndar alltaf því þá fer ég í Skógarhlíðina, safna orku og hitti skemmtilegar konur.  Í dag fengum við svo fyrirlestur með henni Eddu Björgvinsdóttur, sem er auðvitað á við góða vítamínsprautu og fylgdi henni mikil gleði og hlátur.
Á heimleiðinni sótti ég svo Rögnu Björk ömmustelpuna mína á skólavistina. Nú er Myndlistaskólinn sem hún fór í á miðvikudögum búinn í bili, en okkur kom saman um að halda áfram að hittast á miðvikudögunum nema eitthvað sérstakt komi uppá. Hún kom hlaupandi til mín þegar hún sá mig koma og var í gula Pollapönkgallanum sem hún keypti sér í gær fyrir afmælispeningana sína. Þegar ég spurði hvort við ættum kannski að skreppa niður á tjörn eða eitthvað annað skemmtilegt þá sagði mín „Nei amma, eigum við ekki bara að fara heim til þín og hafa það kósý“. Það gerðum við og höfðum það virkilega kósý, smá teiknað, smá hopppað á trampolíninu, aðeins horft á sjónvarpið og tíminn var floginn áður en við vissum af.  Þegar ég var að skila henni heim sagði ég henni eina af sögunum sem Edda Björgvins sagði okkur í dag og þegar við vorum komnar heim til hennar þá sótti hún litla bók sem hún á til að skrifa í og bað ömmu að segja söguna aðeins aftur því hún ætlaði að skrifa hana hjá sér.  Hún er nú bara nýorðin 7 ára gömul hún nafna mín svo hún verður líklega einhverntíman góð í að færa atburði í letur.

 

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

4 Responses to Skemmtilegur vordagur í dag.

 1. Sigurrós says:

  Hún var alsæl með þetta og þegar amman kvaddi og fór niður stigann þá hrópaði Ragna Björk á eftir henni að svo yrði þetta svona aftur næsta miðvikudag! 🙂
  Söguna skrifaði hún síðan vandlega niður í dagbókina sína því hana langaði svo að geta rifjað hana upp seinna og hlegið að henni aftur. Mamman hjálpaði henni aðeins með orðalagið en hún skrifaði þetta niður sjálf.

  • Ragna says:

   Já gott Sigurrós mín að þú hjálpaði henni aðeins að orða þetta, en hún er svo dugleg að skrifa og skrifa rétt, alveg eins og mamman gerði á hennar aldri 🙂

 2. AnnaBj. says:

  Þetta hefur verið góður dagur hjá þér, Ragna mín. Líka alltaf svo gaman að hitta ömmubörnin sín!
  Verra þetta með labbið, þú gætir beðið um BETRI HEILSU, eða á maður að vera þakklátur fyrir hvern og einn dag og muna að þakka. –Ég fór í smá labb í dag; maður er misvel upplagður, en mikið var veðrið gott 🙂 –Það verður sýning um helgina í Gjábakkanum. Það kom fram á bæklingnum frá Kópavogsbæ í dag.
  Gaman að lesa pistlana þína, bestu kveðjur Anna Bj.

  • Ragna says:

   Já Anna mín það er alltaf svo yndislegt að vera með barnabörnunum og ég segi Jú, maður á vitanlega alltaf að þakka fyrir hvern dag. Það geta alltaf verið einhverjar svona uppákomur með heilsuna, en alltaf hefur nú allt farið í réttar skorður fyrir rest.

Skildu eftir svar