Ölfus í dag – alltaf eitthvað óvænt.

Við ákváðum að skreppa í „Hendur í Höfn“, Þorlákshöfn, í hádeginu í dag. Það var þungbúið yfir í Þrengslunum, en séð í átt að Þorlákshöfn skein sólin í gegnum stórt blátt gat á skýjahulunni. Við fylgdum því leiðbeiningunum úr kvæðinu góða. „.en ef við sjáum sólskinsblett í heiði að setjast allir þar og gleðja oss“. Það gekk eftir og sólin skein glatt í heiði í Þorlákshöfn á meðan við borðuðum súpu dagsins og heimabakað brauð af ýmsum sortum, ásamt öðru meðlæti.

Síðan ókum við Ölfusið til Hveragerðis og ég rifjaði upp eina sumarið sem ég hef á ævinni verið í sveit, rigningarsumarið mikla 1955.  Mig hafði alltaf langað til að vera í sveit og sú ósk rættist þegar móðursystir mín gerðist ráðskona hjá feðgum á Læk í Ölfusi, en Lækur og Hjalli standa sitt hvoru megin við lítnn læk. Frænka mín var með son sinn með sér í vistinni og þar sem Halli var minn uppáhalds frændi, þá suðaði ég þangað til ég fékk leyfi til að vera um sumarið ef ég, eins og bóndinn orðaði það, ynni fyrir matnum.
Við Halli erum á svipuðum aldri, hann þó aðeins yngri, en þetta sumar var ég 9 ára og þóttist nú aldeilis geta tekið til hendinni.  Við höfum líklega haft sömu vinnugenin í okkur því við vorum bæði mjög lipur til verka, enda þýddi ekkert að mögla neitt. Bóndinn kunni alveg að nota sér það að hafa góðan vinnukraft.  Þetta rifjaðist allt upp þegar við ókum framhjá bæjarkjarnanum Læk, Bjarnastöðum, Gerðakoti og Hjalla.  Ég áttaði mig allt í einu á því að ég hafði aldrei komið inn í kirkjuna á Hjalla, en hún Tóta mín blessuð, gamla nágrannakonan okkar af Ásveginum, var einmitt fædd og uppalin á Hjalla.

Við sáum að kirkjan stóð opin og maður í vinnugalla var að ganga frá verkfærum í bíl fyrir utan. Við renndum því upp að kirkjunni. Ég fór út úr bílnum, gekk til mannsins og spurði hvort það væri nokkuð hægt að fá að skoða kirkjuna. Svo lét ég dæluna ganga:  – Það væri nefnilega gömul nágrannakona mín sem hefði verið fædd á Hjalla, ég hefði sjálf verið hérna á Læk í sveit eitt sumar sem barn en aldrei skoðað kirkjuna.
– Hann leit þá á mig og spurði hvort það væri hún Tóta, hvort ég væri ekki Didda. Hann væri Siggi í Gerðakoti og Siggi Guðmars sonur Tótu hefði verið góður vinur sinn og við hefðum aðeins hittst í jarðarförinni hans. Ég mundi vel eftir stráknum Sigga í Gerðakoti, þó ég kynntist honum eiginlega ekkert, en við hittum hann þó oft krakkarnir þarna árið 1955 en ég verð nú að segja að mikið rosalega eru sumir mannglöggir og muna vel nöfn.  Ég er nú svoddan rati að ég áttaði mig ekki á því hver þetta var fyrr en hann sagði til sín.  Síðan spjölluðum við saman og rifjuðum upp ýmislegt. Mér fannst fáir hafa verið grafnir í kirkjugarðinum á Hjalla og þá sagði hann að það væri rétt, en það væri nýbúið að jarðsetja þar konu sem hefði óskað eftir að vera grafin þar.  Nú kom enn í ljós hvað heimurinn er lítill,  því þegar hann sagði nafn konunnar þá vissi ég vel hver sú kona var. Hún fór á sama tíma og Oddur heitinn í gegnum endurskoðendanámið á sínum tíma og ég hitti hana nokkrum sinnum.
—–
Já svona er nú Ísland í dag. Alltaf notalegt og allir þekkjast eitthvað inn við beinið.

Við héldum síðan áfram ferðinni yfir í Hveragerði, tókum smá göngutúr, heimsóttum Álnavörubúðina, ókum um bæinn og fengum okkur kaffi í Hverabakaríinu.  Virkilega skemmtilegur og góður dagur.

Það þarf ekki alltaf að fara langar leiðir til þess að brjóta upp hversdaginn og upplifa eitthvað óvænt.

Það var meira að segja alveg fínasta veður þangað til við fórum Hellisheiðina heim þá fór að dropa úr lofti og síðan alveg ausandi rigning á Sandskeiðið og nánast alveg í Kópavoginn.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

One Response to Ölfus í dag – alltaf eitthvað óvænt.

  1. AnnaBj. says:

    En gaman hjá ykkur!

Skildu eftir svar við AnnaBj. Hætta við svar