Blessað bloggið mitt.

Ég mundi allt í einu eftir því áðan að ég ætti heimasíðu og kíkti því aðeins hérna inn. Ég sá fyrst engan póst síðan á nýjársdag, en sá þá að ég hafði gert nokkur drög síðan en ekki klárað eða birt. Ég gerði ein af þessum drögum sýnileg áðan og mikið langar mig til þess að fara að fá einhverja andagift til þess að halda áfram að pára eitthvað saklaust úr daglega lífinu til þess að eiga hérna á einum stað.
Í sarpinum sé ég að fyrstu færslurnar gerði ég í júní 2003 og var bara nokkuð dugleg að bæta við færslum í mörg ár.  Ég eignaðist mjög góða bloggvini  á þessum tíma þegar við vorum nokkur sem skrifuðum reglulega svona smá færslur úr daglega lífinu og skoðuðum hvert hjá öðru. Þetta var sem sagt áður en Facebook kom til sögunnar.
Nú er það orðið að vana þegar ég kveiki á borðtölvunni minni, að ég byrja á því að heimsækja aðeins  Facebook og áður en ég veit af er ég dottin í að skoða myndir, myndbönd, lesa allskonar fróðleik og ekki fróðleik og kíkja svo á hvað vinir mínir hafa fram að færa.
Þetta er allt mjög skemmtilegt, en á sama tíma hef ég bara gleymt þeirri staðreynd að ég á dagbók á netinu, dagbók sem mér þykir vænt um og ætlaði  mér að halda lifandi eins lengi og ég gæti. Ég má til með að gera það fyrir sjálfa mig og kannski mína eftirlifendur, að sinna dagbókinni betur.  Stundum finnst mér ég bara ekki hafa neitt nógu skemmtilegt til þess að  tala um og hætti þá við, eða skrifa drög en birti ekki. Auðvitað er það tóm vitleysa að láta það stoppa sig því lífið er jú svo margbreytlegt og langt frá því að vera bara glaumur og gleði.  Það gæfi því ekki sanna mynd í dagbók að tala eingöngu um það sem er skemmtilegt. Ég held að það finnist í raun enginn sem er svo heppinn að eiga slíkt líf að aldrei beri skugga á.

Svo er annað í þessum vangaveltum um heimasíðuna mína.
Uppskriftavefurinn minn, sem reyndar er ótrúlega mikið heimsóttur, hefur til dæmis aldrei verið uppfærður í nútímalegt horf. Upphaflega var hann á öðru vefsvæði og uppskriftirnar samdar í Word, síðan færðar yfir á heimasíðuna og gæðin eftir því. Síðan flutti heimasíðan yfir á WordPress og í raun kann ég lítið til verka hér þó ég sé svona að reyna, en ég get þó lofað því að gömlu uppskriftirnar mínar eru margar mjög góðar þó þær séu ekki nútímalegar í útliti.

Nú bara verð ég að bretta upp ermarnar og gera eitthvað í málinu. Nú hef ég tekið fyrsta skrefið, sem er að játa hér að þetta gengur ekki lengur. Næsta skref er að læra betur, já miklu betur á þetta WordPress og sjá hvort ég get fundið eitthvað skemmtilegra form  fyrir uppskriftirnar. Er kannski einhver sem getur gefið mér góð ráð?
Síðast en ekki síst þá má ég ekki gleyma því þegar ég kveiki á tölvunni, að þó allir mínir vinir séu á Facebook, þá á ég líka heimasíðu sem mér þykir vænt um.

This entry was posted in Ýmislegt. Bookmark the permalink.

One Response to Blessað bloggið mitt.

  1. Takk fyrir þennan ágæta pistil Ragna, hef saknað þess að sjá ekkert á blogginu.
    Bestu kveðjur
    Hafdís Baldvinsdóttir

Skildu eftir svar við Hafdís Baldvinsdóttir Hætta við svar