Lummuuppskrift Blíðfinns

 Ég fann þessa uppskrift á smásnepli hjá mér og mátti til með að láta hana fylgja.  – Ekki síst fyrir það hvað hún er skemmtilega fram sett – alveg eins og móðir mín gerði bara svona smávegis af þessu og smávegis af hinu og allt varð svo gott.  

“Ég tek afganginn af rúsínugrjónagrautnum frá í gær út úr kæliskápnum.
Ég set hann í glerskál og hræri varlega með trésleifinni á meðan ég helli agnarögn af mjólk til að þynna grautinn dálítið.
Svo sáldra ég hveiti yfir og hræri  og set meira hveiti og hræri meira., alveg þangað til grauturinn er orðinn að sæmilega þykku degi.
Þá strái ég sykri yfir ( eiginlega varla neinu) og set nokkra kardemommudropa út í.
Svo bræði ég smjörlíkisklípu á pönnu og set eina smáausu af lummudegi á pönnuna í einu þangað til ekki komast fleiri. 
Þá er bara að passa að ekki brenni við og snúa lummunum þegar þær eru orðnar fallega brúnar og ilmandi.
Endurtaka þar til deigið er búið eða nógu mikið steikt (miðað við dvergafjölda).
Berist fram á fallegu fati með örlitlum sykri stráðum yfir. Gott með mjólk.  Njótið vel.”