Tillögur að mat

Tillaga fjölskyldunnar að matseðlum um jól

Á aðfangadag um hádegi er gott að hafa smá hangikjöt rúgbrauð, egg og e.t.v. síld  og grjónagraut.

Á aðfangadagskvöld er hamborgarhryggurinn í öndvegi á mínu heimili, ásamt nýsteiktu rauðkáli, rauðrófum, brúnuðum kartöflum og hugsanlega einhverju öðru grænmeti og auðvitað ávaxtasalati. Á undan er heimalagaða aspassúpan sem aðeins er elduð á jólunum ásamt litlum súpubrauðum.  Í eftirrétt er síðan heimalagaði ísinn og ískex með.
Með þessu er drukkið rauðvín og blandað saman malt og appelsín. Muna að eiga Mokkakaffi eða Expresso til að hafa með ísnum.

Á jóladag, síðdegis  er tilvalið að hafa hlaðborð með gravlaxi gravlaxsósu og ristuðu brauði, einhverjum rækjurétti eða ferskar rækjur og sósu,  Heita danska lifrarkæfu, Paté,  síldarrétti og rúgbrauð, ítalskt salat, hangikjöt og laufabrauð svo eitthvað sé nefnt. Einnig má nota afganginn af hamborgarhryggnum og ávaxtasalatið.
Í eftirrétt væri fínt að hafa t.d. frómas
Á annan í jólum er ágætt og létt í maga, að hafa kjúklingarétt t.d. barbequekjúkling eða kjúklingaréttinn  í rjómatómatsósunni.
Í eftirrétt væri fínt að hafa eplakökuna úr raspi og eplum. Vanilluís með.
Á gamlársdag er mjög gott að fá Kalkún með fyllingu eða veislukjúkling með sömu fyllingu. Reyndar finnst okkur í minni fjölskyldu stóri veislukjúklingurinn mun betri en Kalkúnn. Hafa heimalagaðan ís, frómas, eplaköku eða eitthvað annað spennandi í eftirmat.
Á nýársdag er gott að hafa eitthvað létt eða hugsanlega lambakjöt.
Einnig má borða afganginn af kalkúninum ef mikið er eftir og fáir í mat.
Hafa eitthvað gott í eftirmat.