Eftir allan hraðann í þjóðlifinu síðustu daga og vikur ríkir nú að morgni jóladags þessi einkennandi jólakyrrð og friður yfir öllu. Ég hef ekki séð bíl aka eftir götunni, enginn á ferli nema hópur af smáfuglum sem var að gæða sér á smá góðgæti sem Haukur hafði stráð á fannhvíta jörðina fyrir þá.
Hugurinn verður svo meir á svona stundum og reikar til liðinna jóla, jólanna allt frá því ég var barn og allra jóla síðan. Ég minnist jólagjafanna sem ég fékk þegar ég var barn. Þær voru ekki margar hverju sinni, en mikið þótti mér vænt um þær. Það voru gjafir frá mömmu og pabba, einu ömmunni sem ég átti og síðan frá eldri systrum mínum tveimur. Ég gleymi t.d.aldrei þegar ég var nýorðin 7 ára og fékk upptrekkt danspar sem Maggi, þá kærasti en síðan eiginmaður Dússýjar systur minnar, hafði fengið keypt fyrir sig í útlöndum. Það var töfrum líkast að sjá þetta fallega klædda par snúast í hringi á gólfinu eftir tónlist. Aldrei hafði ég augum litið slíkt undur. Ég átti líka fram á fullorðinsár lítinn rósamálaðan lúður úr næfurþunnu efni eins og jólakúlur voru úr, en þennan lúður gaf amma Símonía mér ein jólin og fallega prjónaklukku með. Oft gaf hún mér líka fallega prjónaða leppa til að hafa í skónum.
Svo á ég enn dúkkuhúsið sem pabbi bjó til handa mér ein jólin, Tvö herbergi í húsinu, sem var lagt saman og geymt í þessari tösku sem pabbi saumaði utan um það. Svo fékk ég smám saman lítil plasthúsgögn og á enn eina litlu dúkkuna, litla gula plasteldavél og lítinn gulan stól, en annað glataðist. Pabbi minn var algjör snillingur í höndunum og mamma var það líka því allt handverk lék í höndum hennar.
Ég hef sjálfsagt marg talað um þetta, því þessar gömlu góðu minningar og minningarnar um það þegar ég var smá stelpuskott og við mamma vorum að horfa á bleikan jólabjarmann á himninum á aðventunni, koma upp í hugann hver jól.
Það væri fróðlegt að vita hvaða minningar um jólagjafir börn dagsins í dag kunna að eiga þegar þau standa á sjötugu. Ég man að mér fannst skrýtið að heyra mömmu mína tala um að hún hefði fengið tólgarkerti og spil í jólagjöf. Já tímarnir breytast í sífellu.
Njótum jólanna og áramótanna kæru vinir og reynum eftir fremsta megni að kyrra hugann þessa daga og hugsa til baka því það er svo dýrmætt að rifja upp gamlar og góðar minningar.
Leave a Reply