Já nú stend ég á skemmtilegum tímamótum. Fyrst ber að nefna að ég er langt komin í krabbaferlinu, þar sem hann er sjálfur kominn út í hafsauga. Já þökk sé góðum læknum fyrir það og líka það að í staðinn hef ég nú fengið nýtt búbís og lappað af snilld upp á hitt í stíl. Já þetta er ekkert feimnismál því svona hlutir gerast á hverjum degi og við getum verið þakklát þessu góða fólki sem hjálpar okkur til þess að allt sé sem eðlilegast þegar svona kemur fyrir. Já, það er greinilegt að viðhaldstíminn stendur nú sem hæst, vonandi bara búin að endurnýja og losa mig við það sem hefur valdið mér ama svo ég geti nú glöð og hress gengið inn í næsta tímabil.
Í dag 12. nóvember 2012 fylli ég nefnilega flokk þeirra sem teljast eldri borgarar. Annars hef ég nú í raun verið eldri borgari mestan hluta lífs míns, því ég er auðvitað alltaf eldri en þeir sem eru yngri en ég 🙂 En nú hefst sem sé ganga mín með eldri borgurum og ég ætla bara að segja ykkur að mér líst bara rosalega vel á það. Það þarf a.m.k. ekki að kvíða því að það sé ekki hægt að finna afþreyingu og þetta fólk kann flest að skemmta sér og svo margt er í boði að aðal höfuðverkurinn verður örugglega sá, að finna út hvernig maður á að komast yfir að gera allt það skemmtilega sem í boði er út um alla höfuðborgina.
Ég er nú aðeins búin að æfa mig, því ég hef farið með Hauki að syngja með Gleðigjöfunumí Gullsmárann, og það er mjög hressandi og gott bæði fyrir lungun og sálina. Í kvöld fórum við í Gullsmárann á kvöldvöku þar sem einnig var sungið, farið með skemmtilegan kveðskap og gamanmál og síðan dansað. Ég er nú ekki alveg komin í það form að geta dansað neitt af viti ennþá, en lét mig þó hafa nokkra valsa og einn tangó. Ég hlakka mikið til þess að komast aftur í dansþolið mitt, því ekkert er betra fyrir sál og líkama en að dansa af lífi og sál. Það er efst á óskalistanum mínum og því takmarki ætla ég að ná um eða eftir áramót. – Kannski fyrr, hver veit.
Þrátt fyrir þessi tímamót þá ætla ég að halda áfram að vera ung a.m.k. í sálinni, og halda líka áfram að gera grín að sjálfri mér, því það er líka nauðsynlegt. Já í dag er ég ánægð með lífið og tilveruna og hlakka til að takast á við þetta nýja tímabil – það eru ekki allir svo heppnir að ná að taka þátt í því svo ég þakka auðmjúk fyrir að fylla þann flokk sem fær að taka þátt.
Leave a Reply